Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2019, Side 21

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2019, Side 21
21 fólk fái sjálft valdið til að ákveða hvort þau vilja einhver inngrip í sín kyneinkenni síðar meir. Hlutinn er varðar líkamlega friðhelgi var settur inn sem bráðabirgðaákvæði um að nefnd myndi skoða þetta mál og vinna það áfram en hópurinn okkar var búinn að vinna að þessu í fjögur ár með sérfræðingum og fullvinna þetta. Við getum ímyndað okkur af hverju þessi kafli var tekinn út en vitum það ekki fyrir víst. Líklegasta ástæðan er að þarna hafi verið einhverjar lagaflækjur, að blátt bann við ónauðsynlegum aðgerðum á intersex börnum gæti gengið gegn einhverjum öðrum lögum. Önnur ástæða sem heyrist oft nefnd er að þetta myndi innihalda bann við umskurði á börnum og gæti flækst inn í deilur um það mál. Margir læknar settu sig upp á móti þeim hluta frumvarpsins sem sneri að intersex börnum en það kaldhæðnislega er að þeir læknar sem andmæltu mest þessu frumvarpi eru þeir sömu og skrifuðu undir samnorræna yfirlýsingu um að banna umskurð á börnum og óþarfa inngrip hjá ungbörnum. Hvað þýðingu hafa þessi lög fyrir trans samfélagið á Íslandi? Lögin um kynáttunarvanda frá 2012 urðu strax úrelt daginn sem þau voru sett. Þá voru þau samt stærsta framfaraskrefið varðandi aðgang trans fólks að heilbrigðisþjónustu sem hafði verið tekið. Þau voru framsækin í samanburði við önnur lönd en á þessum sjö árum hefur heimurinn breyst mikið og trans samfélagið líka. Ísland dróst hratt aftur úr, ekki síst af því að gömlu lögin voru bundin úreltum hugmyndum um kyn með tilheyrandi forræðishyggju. Fólk þurfti að fara í greiningar, viðtöl og fá leyfi, einungis til að komast á hormóna. Ef einstaklingar vildu svo fá nafnabreytingu þurftu þeir að vera í formlegu ferli í 18 mánuði og lifa í réttu „kynhlutverki“ í að minnsta kosti 12 mánuði. Fólki var ráðlagt að vera í eins réttu kynhlutverki og mögulegt var. Trans mönnum var sagt að hætta að prjóna og trans konur sendar í dömuþjálfun. Þetta viðgekkst ekki einungis inni í heilbrigðiskerfinu heldur var trans samfélagið sjálft orðið gegnsýrt af ótta við að fá ekki þá þjónustu sem það þurfti. Sem dæmi má nefna að þegar ég fór á fyrsta fundinn minn hjá samtökum trans fólks 19 ára gömul var mér sagt að ég þyrfti að læra að labba upp á nýtt. Ég hugsaði að það væri alveg rökrétt, það gæti orðið erfitt að labba eftir aðgerðina. En nei, þá var mér sagt að ég ætti að labba eins og kona. Konur eiga víst að hafa öðruvísi göngulag. Þetta var sturlað ástand, það var greinilega eitthvað alvarlegt að. Ég skildi samt alveg hvaðan þetta kom, heilbrigðiskerfið var búið að ala upp í eldri trans konunum að þær gætu ekki verið alvöru konur nema ganga inn í úreltar kynjahugmyndir. Þó að lögin hafi ekki breyst fyrr en nú hefur þjónustan samt breyst til batnaðar, hún er ekki jafn kynjuð og áður og teymið hefur reynt sitt allra besta. En nýju lögin taka fyrir þetta og sjá til þess að fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt um hvaða meðferð það vill sækja. Heilbrigðisþjónustan hefur ekki vald til að banna þér að fara í meðferðir og þarf engar sannanir með kyntjáningu. Heilbrigðisþjónustan ber núna ábyrgð á að framkvæma grunnmat og hjálpa fólki að sækja þá þjónustu sem það þarf í næstu skrefum hjá innkirtlasérfræðingi, sálfræðingi eða hverjum þeim sem þörf er á. Annar stór sigur var þessi kynhlutlausa skráning sem verður táknuð með X á skilríkjum til þess að koma til móts við kynsegin fólk sem hefur ekki fengið neitt vægi í umræðunni hingað til. Þetta er líka tiltölulega ný hugmynd fyrir mörgum þó að kynsegin fólk hafi alltaf verið til. Það hefur verið fjallað um flóknari kynvitund um allan heim, t.d. á Indlandi, í Afríku og Suður-Ameríku, og hún hefur verið nefnd ýmsum nöfnum. Það var ekki fyrr en Bretar fóru af stað með sína nýlendustefnu sem hugmyndir um flóknari kynvitund en tvíhyggjuna eyddust út og hurfu. Á Íslandi hefur þessi hópur svo fengið aukna umfjöllun á seinustu árum. Annað sem hefur ekki fengið eins mikla umræðu er að flóttafólk og hælisleitendur geta fengið skilríki í samræmi við kynvitund hér á landi, burtséð frá því hvað skilríki eða pappírar úr heimalandi segja. Þetta er gríðarlega stórt skref fyrir trans fólk sem er á flótta og er mikilvægt til að tryggja að flóttafólk og hælisleitendur verði viðurkennd í lagalegum skilningi þegar þau leita hælis hérlendis. Ef þetta frumvarp hefði farið í gegn eins og við vildum hafa það væri það framsæknasta frumvarp í heiminum og ótrúlegt fordæmi fyrir önnur lönd. Vonandi kemst þessi nefnd sem fyrst að sömu niðurstöðu og við, að kaflinn okkar um intersex börn verði samþykktur. Í lögunum er líka kafli um börn, hvaða þýðingu hefur það? Hingað til hefur ekkert verið í lögum sem tryggir að trans börn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Það hefur verið starfandi transteymi á BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala) en það hefur ekki haft neitt lögbundið regluverk. Núna er búið að tryggja þessum hópi aðgang að heilbrigðisþjónustu og að foreldrar geti breytt nafni og kynskráningu barna sinna. Það er einnig ákvæði um að börn geti sótt um undanþágu ef foreldrar þeirra vilja ekki virða óskir þeirra og það er þá metið sérstaklega hjá umboðsmanni barna sem sér um slík mál. Teymið á BUGL setti þó spurningamerki við þetta og taldi að það gæti skapað ágreining og erfiðleika milli barna og foreldra. Það vildi að unnið yrði frekar með foreldrum barnanna og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu og við í frumvarpshópnum vorum fullkomlega sammála því. Þetta er í raun neyðarúrræði ef allt annað þrýtur.

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.