Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2019, Page 32
32
Þórir
Björnsson
28. APRÍL 1926 - 27. APRÍL 2019
Þórir Björnsson vinur minn lést 27. apríl síðastliðinn. Við kynntumst árið
1984 í London þar sem hann bjó hjá vinum sínum. Hann bauð mér í
teboð með þeim. Þórir klæddist leðri og fór á klúbba. Vinir hans voru
heldri herramenn í London, þar á meðal þjónar drottningarmóðurinnar
en drottningin sjálf fæddist nokkrum dögum á undan honum.
Þórir vinur minn ólst upp á Framnesveginum og átti sitt athvarf þar
alla ævi. Hann varði mörgum árum í London og einhverjum í Kanada.
Hann var í ástandinu á stríðsárunum. Braggabúðirnar voru fyrir neðan
Framnesveginn og dátarnir gáfu mömmu hans súkkulaði en honum
kossa. Í framhaldinu hófst líf hans í útlöndum.
Hann átti engin systkini og ekki börn, var aldrei í sambúð og alltaf
einstæðingur en þó aldrei einn. Hann var alltaf svo ungur í anda og hress.
Hann var með strákahóp í kringum sig, stráka sem voru ungir og sætir fyrir
nokkrum áratugum en eru nú komnir af léttasta skeiði ef ekki látnir.
Það var mikill lífskraftur í honum. Hann var gestrisinn, mikið partýljón
og aldrei var lognmolla hjá honum. Hann bauð upp á drykk sem við
strákarnir kölluðum Arsenik, því hann var svo varhugaverður. Arsenik-
kokteillinn samanstendur af 80% gini og 20% sætu Vermont. Þessu
sturtaði Björnsson-familían í sig, sem vorum við strákahópurinn.
Margir okkar byltust niður stigann á Framnesveginum. Alltaf hringdi
Þórir daginn eftir og sagðist ekki hafa séð eins mikið áfengi fara í einu
partýi og þetta versnaði með árunum, fannst honum. Alltaf bauð hann
liðinu aftur og var virkur félagslega og áhugasamur um tilveruna.
Líf Þóris er stórmerkileg saga. Það er dýrmætt að hafa kynnst honum
og heyra hann segja frá lífinu á stríðsárunum. Þórir var 33 árum eldri
en ég og á þeim aldri sem ég er á í dag þegar við kynnumst. Hann
var svo áhugaverður og talaði um hernámsárin eins og ég tala um
alnæmistímann. Ár sem eru svo langt í burtu en þó svo nálægt í fólki
eins og honum.
Hann var tryggur vinur og gaf góð ráð. „Kurteisi kostar ekki peninga“,
sagði hann við strákana á veitingastaðnum 22 þegar allt ætlaði um koll
að keyra í baráttu- og áfallastreitu níunda og tíunda áratugarins. Hann
kom að stofnun Samtakanna ’78 og HIV Ísland. Hann sá á eftir mörgum
félögum í gegnum tíðina. Það var styrkur í Þóri og í huga mínum er
einkunnarorð hans þrautseigja.
Aldrei kvartaði hann yfir hlutskipti sínu eða lagði árar í bát. Hann barðist
fyrir lífi sínu fram á síðustu stundu og dó degi fyrir 93ja ára afmælið sitt.
Þessi lágvaxni, þrjóski herramaður var óhræddur við að segja meiningu
sína umbúðalaust.
Hann var skarpgreindur, notaði Facebook og tölvur og tileinkaði
sér nýjungar. Hann fylgdist vel með. Þórir fékk sér nightcap eins og
drottningarmóðirin fram yfir áttrætt. Þá fékk hann sykursýki og hætti.
Þórir hafði áhrif á mig. Hann var heimilisvinur heima hjá okkur Stig,
manni mínum. Ég dáðist að honum á margan hátt. Hann hélt reisn sinni
og dampi allt fram á síðasta dag. Ég mun sakna þessa litríka vinar míns
og minnast um ókomin ár.
Einar Þór Jónsson