Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2019, Qupperneq 41
41
„Staðurinn 22 er gamli Kiki. Það var
kaffihús á neðstu hæðinni, þar sem Bravo
er núna, dansað á miðhæðinni og dansað
efst uppi. Það er eitthvað við þetta horn,
númer 22 þar sem Kiki er núna. Það hafa
oft verið gay staðir þarna, svo hætta þeir
og svo koma þeir aftur. Það er einhver ára
á þessu horni, senan hefur flust til en
ætíð ratar hún heim aftur, á hornið góða.
Hommarnir hafa aldrei þolað staðina á
meðan þeir eru starfandi en svo sjá þeir
þá alltafí rósrauðum bjarma þegar þeir
eru hættir. Fjarlægðin gerir fjöllin blá,“
segir Guðjón og brosir.
„Í bókinni skrifa ég um hinsegin
samfélagið og þá sérstaklega
hommasamfélagið, hvernig
skemmtanalífið var og hræðsluna við það
að koma út úr skápnum á
alnæmisárunum. Tímarnir hafa sem betur
fer breyst mikið. En hinsegin bókmenntir
verða að vera sýnilegar í samfélaginu og í
umræðunni. Ég bý í 101, kenni við MR og
kenndi áður í Austurbæjarskóla en
síðustu sumrum hef ég að mestu varið í
Berlín þar sem ég hef fengist við þýðingar
og skriftir. Ég bý ásamt 19 ára syni mínum
og það var um svipað leyti og hann
fæddist sem ég kom út úr skápnum.
Þannig að ég er hinsegin faðir í 101
Reykjavík,“ segir Guðjón.
„Helför hommanna lauk ekki eftir
stríð“
Guðjón gaf ekki bara út Hina hliðina á
síðasta ári heldur þýddi hann einnig bók
eftir Ralf Dose um Magnus Hirschfeld.
Hirschfeld var þýskur læknir og
baráttumaður fyrir réttindum hinsegin
fólks. Í upphafi tuttugustu aldarinnar
starfrækti hann framsækna
rannsóknarstofnun á málefnum hinsegin
fólks í Berlín. Bókin gerir grein fyrir ævi
hans og störfum hinsegin hreyfingarinnar
í árdaga hennar, bæði austan hafs og
vestan.
„Ég gaf út ævisögu Magnusar Hirschfeld,
því að ég bý alltaf í Berlín á sumrin.
Hirschfeld rak stofnun í Berlín. Ég vildi
segja frá þessari veröld sem var á Weimar-
tímanum. Mennirnir með bleika
þríhyrninginn greinir frá því sem kom á
eftir seinni heimstyrjöldinni en mig
langaði til þess að segja frá því sem kom
á undan henni. Hirschfeld var að gera
rannsóknir á hommum og lesbíum, veitti
ráðgjöf og gerði mjög mikið af flottum
hlutum á þessum tíma en það fyrsta sem
nasistarnir lokuðu var þessi stofnun hans.
Margt af því sem er verið að ræða í dag er
það sem Hirschfeld var að tala um á
sínum tíma og þess vegna ákvað ég að
segja þessa sögu og kynna þetta aðeins
fyrir fólki. Ég fór í kaffi á Hirschfeld-
stofnunina, talaði við Ralf Dose og hann
gaf mér leyfi til þess að þýða bókina yfir á
íslensku. Ég hófst síðan handa og fékk
styrk til þess að gera þetta. Helför
hommanna lauk ekki eftir stríð.
Markmið mitt, af því að ég er
framhaldsskólakennari, er að búa til efni
með þessum þýðingum fyrir nemendur
svo þeir geti lesið um hinsegin líf og
hinsegin baráttu. Draumur okkar
nokkurra sem í framhaldsskólunum
störfum er að vera með áfanga um það
efni sem yrði kenndur við nokkra skóla,
fyrir unga nemendur og sérstaklega
hinsegin fólk. Nemendur í öllum skólum
gætu þó líka sótt hann, þetta yrði kennt í
fjarnámi og með staðbundnum lotum
þannig að þetta yrði menningarlegur
klúbbur framhaldsskólanema þar sem
fólk gæti hist og lært sitthvað um
menningu og sögu hinsegin fólks. Það
þarf að auka sýnileika hinsegin fólks
innan skólakerfisins.
Við ætlum að kynna þetta á ráðstefnu um
framhaldsskólann nú í haust. Við erum að
vinna að þessu nokkrir kennarar í
nokkrum skólum. Við myndum reyna að
vinna þetta í samstarfi við Samtökin ‘78
og Háskóla Íslands þannig að þetta getur
líka orðið vettvangur fyrir fólk til að
kynnast. Sumir vilja ekkert vera í
skemmtanalífinu. Sumir vilja bara vera að
gera eitthvað annað,“ segir Guðjón.
Guðjón segir ekki margt fram undan á
þessu sviði þegar hann er spurður út í
verkefni framtíðarinnar.
„Ég held að ég muni ekki skrifa mikið
meira á þessum vettvangi. Ég er orðinn
svona frekar þurrausinn. Mér finnst að
unga fólkið eigi að skrifa og segja frá. Það
er svolítið gaman að sjá að þessir þekktu
rithöfundar eins og Sjón og Auður Ava
eru farin að fjalla um okkur, þannig að við
erum orðin viðfangsefni í bókmenntum á
miklu víðtækari hátt heldur en áður. Það
vantar svolítið efni á íslensku, finnst mér,“
segir Guðjón og bendir á að styrkir fyrir
bókmenntir af þessu tagi þyrftu að vera
betri.
Guðjón gaf okkur góðfúslegt leyfi til
að birta eina sögu úr bókinni hans.
Milli eftirvæntingar og örvæntingar
Mörgum drengjannna þótti gaman að
dansa og vissu að þeir voru ýmsum
augnayndi á gólfinu. Þeir kunnu best við
sig við súlu nokkra fyrir miðjum sal,
burðarstoð sem varð eftir þegar skilveggur
var rifinn. Þaðan sást vel til allra á staðnum
og allir sáu þá auðvitað hver stóð við
súluna. Þess vegna var hún kölluð
örvæntingarsúlan. Flestum drengjanna
fannst það þó ekki koma sér við á nokkurn
hátt. Þeir vissu að þeir þurftu ekki að
örvænta. Öllu heldur var þetta rétti
staðurinn fyrir þá því að þarna fékk fegurð
þeirra að njóta sín. Þeir álitu sig bera af
öðrum mönnum og töldu sig þá Lilju sem
allir vildu kveðið hafa. Þeir sem ekki áttu
jafn mikla sénsa sveimuðu um staðinn og
héldu sig frekar í skuggsælum skotum þar
sem þeir voru ekki eins áberandi. Þeir biðu
oft við hina súluna á dansgólfinu sem gekk
undir nafninu eftirvæntingarsúlan. Frá
súlunum höfðu menn góða yfirsýn yfir
staðinn þar sem þetta lifandi leikhús
bærðist á milli eftirvæntingar og
örvæntingar.