Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2019, Page 43

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2019, Page 43
43 Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur, fædd og uppalin í Mývatnssveit þar sem hún býr nú þótt hún vinni mikið í Reykjavík. Hún vinnur sjálfstætt sem prófarkalesari og fræðimaður og er með aðstöðu hjá ReykjavíkurAkademíunnni. Sjálfsuppgötvun á háskólaárunum leiddi hana inn í heim hinsegin bókmennta. „Það gerðist nú bara þannig að í miðju MA-náminu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands áttaði ég mig á því að ég væri lesbía og kom út úr skápnum og þá fékk ég áhuga á hlutum sem ég hafði ekki áhuga á áður. Ég endaði sem sagt á að skrifa doktorsverkefni um íslenskar hinsegin bókmenntir sem er fyrsta doktorsverkefnið á því sviði. Ég valdi mér samt auðvitað ekki doktorsverkefni bara af því að ég var lesbía. Ég komst að því að það var mjög lítið búið að rannsaka þetta svið og þegar ég var að velja mér verkefni árið 2009 eða 2010 var ekkert að gerast í þeim efnum. Það var enginn að skrifa um hinsegin bókmenntir á Íslandi og fáir að tala um hinsegin bókmenntir, allavega ekki í bókmenntaheiminum. Þannig að ég sá að þarna var heilt svið sem var bara opið og ég gat gert næstum hvað sem var. Mér fannst mér þetta því bæði áhugavert og mjög þarft,“ segir Ásta. Mikið skrifað undir rós hér áður fyrr Spurð út í hinsegin bókmenntir segir Ásta að það hafi alltaf verið fjallað um hinsegin málefni. Sýnileikinn sé aftur á móti meiri nú en áður. „Ef við tökum mjög víða skilgreiningu á því hvað hinsegin er, eitthvað sem er öðruvísi en normið, þá er ljóst að það hefur alltaf verið skrifað um það. En það fer svolítið eftir því hvernig maður horfir á það. Það er fjallað um hinsegin málefni í Íslendingasögunum, til dæmis ergi og alls konar fólk sem brýtur reglur um hvernig á að haga sér kynferðislega, konur í buxum og svoleiðis. En ef við erum að hugsa um hinsegin persónur sem eru skrifaðar sem hinsegin persónur í nútímaskilningi þá fer það að gerast snemma á 20. öld, bækurnar sem ég var að vinna með í mínu verkefni eru til dæmis skrifaðar í kringum 1940–1950. En þá var flest skrifað undir rós og það var ekki hægt að segja ákveðna hluti upphátt. Það breytist svo þegar við erum komin fram á áttunda, níunda og tíunda áratuginn. Þá fara hinsegin karakterar að birtast oftar í bókum, stundum í bókum eftir hinsegin höfunda en líka oft á fordómafullan og steríótýpískan hátt í verkum eftir aðra. Síðan hef ég á tilfinningunni að á 21. öldinni hafi bæði fjöldinn og sýnileikinn á hinsegin persónum í íslenskum bókmenntum aukist mjög mikið. Það er auðvitað skiljanlegt því að réttindabaráttan hefur breyst og sýnileikinn í íslensku samfélagi hefur aukist,“ segir Ásta. Á síðasta ári var eins og íslenskir rithöfundar kepptust við að hafa hinsegin karaktera í bókum sínum og fjalla um hinsegin málefni, því mýmörg dæmi um slíkt mátti finna í bókaflóðinu. Er eitthvað búið að skoða hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár? „Við getum öll haft tilfinningu fyrir því hvað hafi gerst en það er enginn búinn að setjast niður og skoða alvarlega hvernig hinsegin bókmenntir hafa þróast á 21. öldinni. En ég fékk styrk til þess að gera það um daginn frá launasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna, þannig að á næsta ári get ég setið í sex mánuði við að skoða bara þetta og ég er ógeðslega spennt. Eins og staðan er núna get ég ekki sagt neitt fyrir víst af því að ég hef ekki skoðað þetta skipulega en mér finnst eins og eftir sirka 2010 hafi hinsegin aukapersónur skotið upp kollinum í mjög mörgum bókum. Það er eins og hinsegin viðfangsefni sé ekki eitthvað sem þurfi annaðhvort að hunsa, fordæma eða vera í forgrunni, til dæmis aðalpersóna, heldur frekar eitthvað sem rithöfundi finnst að hann geti haft með án þess að takast á við á djúpan hátt. Þannig það eru hinsegin aukapersónur í fáránlega mörgum bókum sem við kannski munum ekki eftir af því að þær eru í bakgrunninum en þessar bækur sýna þó að fjölbreytileiki persóna í bókum er að aukast í þessa átt. Það hefur líka orðið algengara að sjá bækur þar sem hinseginleikinn er í forgrunni. Á síðasta ári komu til dæmis út frekar margar bækur sem fjölluðu beinlínis um hinsegin málefni og enn fleiri þar sem hinsegin persónur eru í aukahlutverki. Sem er mikil breyting því að ég held að það hafi verið frekar sjaldgæft hér áður fyrr,“ segir Ásta. Ásta hefur á tilfinningunni að á næstu árum aukist sýnileiki hinsegin málefna og persóna í bókmenntum enn meira. „Ég held að það verði alveg einhver tími núna þar sem þetta verður mjög algengt viðfangsefni. Ég held að samfélagið kalli svolítið á það. Þetta er greinilega viðfangsefni sem mörgum finnst að það þurfi að glíma við, sem er fínt. Þetta sést líka víða erlendis og í sjónvarpsefni eins og á Netflix. Þar er nú mikið af glænýju efni sem fjallar um hinseginleika og hinsegin persónur – það hefur orðið algjör umbylting í mörgum löndum. Auðvitað má ýmislegt setja út á og þetta á alls ekki við alls staðar en við hljótum að vilja meiri sýnileika og meiri umfjöllun. Það er mjög gott að sjá að þetta er ekki lengur svo umdeilt viðfangsefni að meirihluta útgefenda finnist hættulegt eða of áhættusamt að gefa það út. Við getum ekki gengið að því vísu að þessi þróun haldi endalaust áfram og það getur komið bakslag en ég hef á tilfinningunni að á næstu árum verði aukning eða allavega talsvert mikill sýnileiki á hinsegin málefnum og persónum í bókmenntum hér á landi,“ segir Ásta. Þess má geta að í haust kennir Ásta námskeið um hinsegin bókmenntir við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Áhugasamir háskólanemar geta fundið upplýsingar um námskeiðið „Ergi, usli og duldar ástir: Hinsegin bókmenntir“ (ÍSL332G) í kennsluskrá eða sent Ástu póst á astakben@gmail.com.

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.