Morgunblaðið - 21.01.2021, Blaðsíða 22
22
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. JANÚAR 2021
VIÐTAL
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi
utanríkisráðherra, velkist ekki í vafa
um að Ísland og Grænland hafi bæði
mikinn ávinning af nánara samstarfi
grannríkjanna. Sjálfur hefur hann
ræktað tengslin við Grænland um
áratuga skeið, eins og sést um leið og
gengið er inn á heimili hans vestur í
Ánanaustum. Úti fyrir blasa snævi
þakin fjöllin við, það fyssir af öld-
unum og norðangarrinn gnauðar, en
innan dyra hangir hvítabjarnarfeldur
á stofuvegg, grænlenskir listmunir
skornir í rostungstönn í hillum og
augljóst af öllu að Grænland skipar
ríkan sess í huga Össurar.
Í dag verður birt skýrsla utanríkis-
ráðuneytisins um „Samstarf Íslands
og Grænlands á nýjum Norðurslóð-
um,“ þar sem grein er gerð fyrir
stöðu mála og forsögu, en síðast en
ekki síst er þar að finna fjölþættar til-
lögur Grænlandsnefndar Guðlaugs
Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og
þróunarsamvinnuráðherra, um
hvernig haga beri samstarfinu. Guð-
laugur Þór skipaði nefndina vorið
2019 og fékk Össur fyrirrennara sinn
til þess að vera formaður.
„Erindið sem Guðlaugur Þór fól
mér var að taka saman yfirlit um
samskipti Íslands og Grænlands í
stóru samhengi, greina þau og gera
tillögur um hvernig við gætum bætt
þau og dýpkað til langrar framtíðar.
Ég vildi raunar ekki taka þetta að
mér í upphafi, en ráðherrann hafði
sannfæringarkraft og vísaði til þess
að ég hefði komið að málinu áður – ég
skrifaði norðurslóðastefnuna með eig-
in hendi á sínum tíma – og það varð
nú til þess að ég tók þetta að mér.
Við nálguðumst verkið með því að
greina þær gríðarlegu breytingar,
sem orðið hafa á norðurslóðum frá
aldamótum, einkum hin síðari ár.
Raunar er það svo að norðurslóðir
hurfu úr hugum margra eftir lok
kalda stríðsins, sem kannski birtist
sérstaklega í því hvernig Bandaríkin
eiginlega misstu áhuga á þeim um og
upp úr aldamótum. Það þekkja
Grænlendingar ekki síður en við.“
Breytt staða á norðurslóðum
„En svo gerist það að heimurinn
fer að átta sig á því hvað bráðnunin á
norðurslóðum er mikil, sem m.a. opn-
ar nýjar siglingaleiðir, skapar nýja
möguleika á nýtingu hráefna og auð-
linda, jafnt á landi og undir hafsbotni.
Í því felast ekki aðeins tækifæri, því
Rússar sáu t.d. að þeir væru ber-
skjaldaðri norður frá og brugðust
fljótt við með því að sækja fram, gera
tilkall til norðurskautsins, reisa her-
stöðvar þar við Íshafið og svo fram-
vegis, einmitt þegar tómarúm hafði
myndast eftir Bandaríkin. Það
breytti jafnvæginu þar.
Sömuleiðis horfa Kínverjar mjög
til þess hvernig þeir geti nýtt sér þær
nýju siglingaleiðir, hafa eflt sam-
skipti við bæði Ísland og Grænland
og svo mætti áfram telja.
Þetta blasti við hinni nýju stjórn
Donalds Trump fyrir fjórum árum og
hún beið ekki boðanna við að gera sig
meira gildandi hér norður frá. Ekki
aðeins með tísti um kaup á Græn-
landi, heldur jók Bandaríkjastjórn
samskiptin skipulega.
Enginn bandarískur valdamaður
hafði komið til Íslands um árabil
nema rétt til að loka varnarstöðinni í
Keflavík. Mike Pompeo utanríkisráð-
herra Bandaríkjanna hafði hitt Guð-
laug Þór nokkrum sinnum og kom til
Íslands snemma árs 2019 og bauð svo
Guðlaugi Þór í heimsókn vestur um
vorið og þeir gera þar samning, þar
sem beinlínis er vísað til breyttrar
stöðu á norðurslóðum. Aðeins þrem-
ur vikum síðar var Pompeo kominn
aftur til Íslands að ræða viðskipta-
mál, þar sem Guðlaugur Þór hreyfði
mögulegum fríverslunarsamningi við
hann. Um sumarið kom svo Mike
Pence varaforseti ásamt Rick Perry
orkumálaráðherra og fimm öldunga-
deildarþingmönnum og þá var það
varaforsetinn, sem hafði fríverslunar-
samning á orði, og heimkominn stað-
festi hann það við þingmenn að búið
væri að koma á fót vinnuhópi til þess
að koma á fríverslun milli landanna.
Það er svo eftirtektarvert að undir
þær hugmyndir hafa menn tekið,
bæði til hægri og vinstri, svo stjórn-
arskiptin núna ættu engu að breyta
um þessa gjörbreyttu stöðu.“
Er hið sama upp á teningnum í
Grænlandi?
„Já, en ekki með alveg sama hætti.
Í Grænlandi komust stórhuga ríkis-
stjórnir til valda skömmu eftir að þeir
fengu sjálfstjórn 2009 og vildu byggja
landið upp efnahagslega, beinlínis
með það að markmiði að efla það til
þess að flýta fyrir sjálfstæði landsins.
Þeir litu mjög ákveðið vestur á bóg-
inn í því samhengi, m.a. minnugir
góðra samskipta við Bandaríkin á
stríðsárunum, eina tímabilinu sem
Grænland hefur verið í reyndinni
sjálfstætt þegar Danmörk var her-
numin af Þjóðverjum. Áhugaleysi
Bandaríkjanna þá varð þeim talsverð
vonbrigði.
Grænlendingar kunna hins vegar
vel að haga sínum seglum og fóru því
að gefa Kínverjum undir fótinn. Þeir
hafa orðið nokkur ítök þar, en aðal-
lega hreyfði þetta þó við Dönum og
Bandaríkjunum að láta ekki þar við
sitja. Það kallaði m.a. á þau viðbrögð
Bandaríkjamanna sem við höfum séð
að undanförnu.“
Á sjálfstæðisbraut
Svo staða Grænlands er orðin mun
sterkari?
„Tvímælalaust. Umfram allt þarf
þó að hafa í huga að Grænland er á
eindreginni braut til sjálfstæðis. Það
er ekki spurning um hvort, heldur
hvenær þeir verði sjálfstæðir.“
Það breytir stöðunni enn frekar?
„Grænlendingar eru okkar næstu
nágrannar. Það eru 290 km frá vest-
asta tanga Íslands að Austur-
Grænlandi, það er styttra en frá
Reykjavík til Húsavíkur. Það liggur í
augum uppi að aðeins af þeim ástæð-
um eigum við að miklu leyti sömu
hagsmuna að gæta. Augljóslega mjög
mikilla á sviði fiskveiða, raunar meiri
en flestir gera sér grein fyrir. Sömu-
leiðis á sviði flugsamgangna, en við
flytjum um þriðjung flugfarþega
þangað og erum mikilvægasta ferða-
mannagátt Grænlands til umheims-
ins um leið og við eigum samvinnu
um hið geysistóra flugstjórnarsvæði
sem nær allt upp að norðurskauti.
Viðskiptin eru orðin talsverð og
fara sívaxandi, en við höfum engan
tvíhliða viðskiptasamning og Græn-
lendingar raunar ekki við nokkra
þjóð. Úr því má bæta.
En með þessum loftslagsbreyt-
ingum mun umhverfið breytast mikið
og ásókn á norðurslóðir aukast. Það
hefur í för með sér margháttaðan
ávinning fyrir okkur, en líka ýmsar
hættur. Það skiptir miklu máli fyrir
ríki eins og okkur, sem á mikið undir
lífríkinu, en öllu máli fyrir Grænland.
Til framtíðar skiptir því miklu máli að
Ísland og Grænland nái sem mestri
samstöðu um þau mál á alþjóðavett-
vangi. Þannig gætum við líka haft
mun meiri áhrif og haft meira að
segja um okkar mál, heldur en við
gerðum sitt í hvoru lagi.“
Ísland og Grænland sterkari saman
Össur Skarphéðinsson í viðtali um samskipti Íslands og Grænlands Nýrrar skýrslu um samskipti
landanna að vænta í dag Hagsmunir landanna fara vel saman Grænland á sjálfstæðisbraut
Morgunblaðið/Eggert
Grænlandsnefndin Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur gríðarleg tækifæri blasa við í auknum tengslum Íslands og Grænlands.
SJÁ SÍÐU 24
Samstarf Íslands og Grænlands
Húðfegrun ehf | Vegmúli 2 | Sími 533 1320 | www.hudfegrun.is
Tímapantanir í síma 533 1320
Við tökumvel ámóti ykkur í Vegmúla2
Fitueyðing
Eyðir fitu á erfiðum svæðum
Laserlyfting
Háls- og andlitslyfting
NÝTT ÁR –
NÝMARKMIÐ
Frábær tilboð og fleiri meðferðir í vefverslun okkar!
TILBOÐ
20%
afslátturí janúar