Morgunblaðið - 04.03.2021, Blaðsíða 32
SVIÐSLJÓS
Svanhildur Eiríksdóttir
Reykjanesbæ
Nýr skóli í Reykjanesbæ, Stapaskóli,
tók til starfa síðastliðið haust. Um er
að ræða stærstu framkvæmd sem
sveitarfélagið hefur ráðist í. Stapa-
skóli er heildstæður skóli þar sem 280
grunnskólanemar frá 1.-9. bekk
stunda nú nám og 69 leikskólanem-
endur frá 18 mánaða aldri.
„Hér höfum við nýtt ótal tækifæri
við að fara inn í 21. öldina. Við erum
ekki með neinar tússtöflur, við erum
ekki með kennaraborð og allt um-
hverfi nemenda er sveigjanlegt og
hreyfanlegt. Það er ekki hugsað þann-
ig að kennarinn standi uppi við töflu
og sé með fyrirlestur, heldur er kenn-
arinn að þjónusta börnin og alltaf með
innlögn í litlum hópum sem færir svo
mikla nálægð. Svo geta krakkarnir
valið vinnuumhverfi sitt og þess vegna
nýtum við spjaldtölvur og fartölvur
því að við viljum að krakkarnir læri
inn á sjálfa sig og að þeir finni hvað
hentar þeim best. Við erum því að
brjótast út úr þessu bókamiðaða námi
og tengja allt námið saman. Hér er
hugsunin ekki borð, stóll og barn,“
segir Gróa Axelsdóttir skólastjóri í
samtali við Morgunblaðið.
Undirbúningur hófst 2015
Undirbúningur nýs skóla í Dals-
hverfi hófst árið 2015 með skipan und-
irbúningshóps sem Gróa átti meðal
annarra sæti í. Litið var til þess að
skólinn yrði heildstæður, þ.e. grunn-
skóli, leikskóli, tónlistarskóli, frí-
stundaskóli og félagsmiðstöð, ásamt
því að þjóna grenndarsamfélaginu
sem menningarmiðstöð. Undirbún-
ingsnefnd sem skilaði skýrslu í júní
2016 horfði til þess að kröfum samtím-
ans yrði mætt um leið og horft væri til
framtíðar. Megineinkenni áttu því að
vera sveigjanleiki í kennslu, í nýtingu
rýmis, í skipulagi vinnudags og skilum
á milli skólastiga. Í október 2017 var
efnt til nafnasamkeppni og varð nafn-
ið Stapaskóli hlutskarpast. Í byrjun
nóvember sama ár var síðan tekin
fyrsta skóflustunga að nýja skólanum
og í framhaldi hófust framkvæmdir.
Arkís arkitektar urðu hlutskarpastir í
samkeppni um hönnun Stapaskóla.
Skólinn stendur miðsvæðis í nýjasta
hverfi Reykjanesbæjar og eru leið-
arljós hans „gleði, vinátta, samvinna
og virðing“.
Vellíðan nemenda auki náms-
áhuga og námsárangur
Starfsemi í nýja skólahúsinu hófst
haustið 2020 en áður hafði skólinn ver-
ið starfræktur í bráðabirgðahúsnæði
sem útibú frá Akurskóla. Nemendur í
10. bekk kusu að klára grunn-
skólanám sitt í Akurskóla og leikskól-
inn er rekinn í bráðabirgðahúsnæðinu
við skólann en leikskólaálman er hluti
af 3. áfanga hússins, ásamt frístunda-
skóla og heimilisfræðistofum. Í öðrum
áfanga, sem nú er í ferli, er íþróttahús
og sundlaug og í þeim fyrsta sem nú
hefur verið tekinn í notkun er grunn-
skólaálma auk bókasafns. Þar sem
Dalshverfi er ört vaxandi bæjarfélag
mun skólinn geta tekið við 500 grunn-
skólanemum og 120 til 150 leik-
skólanemum.
Skólabyggingin er opin og björt,
þar er vítt til veggja og alls kyns
skemmtileg og fjölnota rými inni í
rými eða inni í vegg. Gróa segir kost-
ina við slíkt umhverfi marga. „Kost-
irnir eru að við setjum upp ákveðna
stefnu og sýn og tækifærið er að við
ráðum fólk inn á þeim forsendum. Þar
er stærsta tækifærið. Hér er enginn
kennari sem hefur gert sitt í 40 ár og á
erfitt með að breyta, hér er fólk ráðið
inn á þessum forsendum. Við erum
teymisskóli og göngum út frá því að
það séu allir í teymum, hvort sem það
er starfsfólk eða nemendur. Það eru
engin nemendaborð keypt inn sem
eru hugsuð fyrir einn, það eru öll borð
keypt inn fyrir tvo eða fleiri. Við erum
líka með samþættingu námsgreina al-
veg frá 1. bekk og upp úr og göngum
út frá því að vinna að heildstæðum
verkefnum. Hugsunin er að þegar þau
fara héðan þá kunni þau að vinna í
teymi og þekki sína styrkleika,“ segir
Gróa.
Lesrými og vinnubásar
Í skólanum er boðið upp á fjölbreytt
vinnuumhverfi fyrir nemendur, þann-
ig að þeir geta valið hvernig þeir sitja,
standa og liggja. Húsgögnin eru því
mismunandi og aðstæður mismunandi
fyrir krakkana. Segir Gróa að nem-
endum finnist mjög gott að geta valið
sér pláss, því sumir vilja vera á
grjónapúða og einhverjir uppi í glugga
svo dæmi séu tekin.
Nemendum býðst einnig að fara út
úr skólastofunni í lesrými og vinnu-
bása og jafnvel skella sér á klifurvegg-
inn ef þeir þurfa að losa orku. Reynsl-
an er góð, að sögn Gróu, enda var
hugað vel að hljóðvist og fleiri þáttum
við byggingu skólans.
„Við trúum því að ef við aukum vel-
líðan nemenda auki það námsáhuga
og námsárangur,“ segir Gróa að end-
ingu.
„Hugsunin er ekki borð, stóll og barn“
Glæsileg bygging Stapaskóla rís nú í Innri-Njarðvík Fyrsta áfanga lauk sl. haust með skólaálmu og
bókasafni og kennsla hófst í húsnæðinu Stæsta framkvæmd sem Reykjanesbær hefur ráðist í
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Miðjan í tvenndinni Tveir árgangar í skólanum deila tvennd sem í eru alls kyns skemmtileg vinnurými.
Stapaskóli Byggingin er hin glæsilegasta en Arkís arkitektar hönnuðu. Engar krítartöflur Notaðir eru stórir tölvuskjáir í stað krítartaflna.
Klifurveggur Veggurinn er mikið notaður í íþróttakennslu og í frístundum
32 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 4. MARS 2021
15% afsláttur
af öllum vörum
nema Iittala og Arabia
KRINGLAN – SMÁRALIND – DUKA.IS
HEICO LAMPAR
SVEPPUR
Verð frá . ,- nú 8.415,-
KANÍNA
Verð . ,- nú 10.115,-
KAUPHLAUP & KRINGLUKAST
4.-8. mars