Morgunblaðið - 25.03.2021, Side 55
ÍÞRÓTTIR 55
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. MARS 2021
„Helvítis fokking fokk“ var
það fyrsta sem ég hugsaði þegar
ríkistjórn Íslands tilkynnti að öll
keppni í íþróttum hér á landi
myndi leggjast af næstu þrjár
vikurnar vegna fjórðu bylgju kór-
ónuveirufaraldursins.
Ég get alveg viðurkennt það að
þegar maður sá loksins fyrir end-
ann á þriðju bylgju faraldursins
gerði maður sér vonir um að
íþróttalíf hér á landi myndi loks-
ins komast aftur í eðlilegt horf.
Af því verður augljóslega ekki
enda um hörðustu aðgerðir rík-
isstjórnarinnar að ræða síðan
faraldurinn skaut fyrst upp koll-
inum hér á landi.
Þetta er orðið ansi þreytt
ástand en íslenskir stjórn-
málamenn halda þó áfram að
stappa í mann stálinu. „Árang-
urinn hingað til hefur verið vegna
einstakrar samstöðu lands-
manna,“ heyrðist meðal annars
á fjölmiðlafundi ríkisstjórn-
arinnar í gær. Stjórnmálamenn
hljóta samt að bera einhverja
ábyrgð á því ástandi sem nú er
uppi.
Einhver tók þá ákvörðun að
treysta á bóluefni frá Evrópu-
sambandinu sem eru stærstu
mistök sem gerð hafa verið í
þessum faraldri. Hver ætlar að
axla ábyrgð á því? Eflaust eng-
inn. Það er miklu auðveldara að
skella bara öllu í lás og banna allt
sem hægt er að banna.
Íþróttahreyfingin hefur
staðið sig gríðarlega vel í að
fylgja þeim þeim tilmælum og
reglum sem settar hafa verið en
eitthvað hlýtur að fara að láta
undan þar eins og annars staðar.
Þetta er ekki fólki bjóðandi leng-
ur og íslensk stjórnvöld, og heil-
brigðisráðuneytið þá sér-
staklega, hljóta að endurskoða
afstöðu sína til þess að banna
allar afreksíþróttir enn eina ferð-
ina.
BAKVÖRÐUR
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
ÞÝSKALAND
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálf-
ari og Eiður Smári Guðjohnsen að-
stoðarmaður hans voru báðir í ís-
lenska landsliðsbúningnum þegar
Ísland og Þýskaland börðust um sig-
ur í undanriðli EM haustið 2003.
Þá kom íslenska liðið í heimsókn
til Hamborgar, eftir 0:0-jafntefli lið-
anna á Laugardalsvellinum, og var í
öðru sæti riðilsins fyrir hreinan úr-
slitaleik þjóðanna.
Þýska liðið reyndist of sterkt,
sigraði 3:0 og fór á EM 2004 en
Skotar skutust uppfyrir Íslendinga í
lokaumferðinni og komu í veg fyrir
að Arnar og Eiður fengju tækifæri
til að fara í umspil með íslenska lið-
inu en þeir spiluðu báðir báða leiki
þjóðanna þetta haust.
Nú eru þessir gömlu samherjar og
jafnaldrar í nýjum hlutverkum og
stjórna íslenska liðinu gegn þýska
stórveldinu á hinum tiltölulega lát-
lausa MSV-leikvangi í þýsku borg-
inni Duisburg í kvöld. Ekki frammi
fyrir 51 þúsund áhorfendum eins og
í Hamborg fyrir átján árum, nú eru
allir leikvangar tómir og ljóst að
spilað hefði verið á stærri velli ef
ekki væri fyrir áhrif kórónuveir-
unnar.
Þriggja manna vörn í Hamborg
Hvernig stilla þeir íslenska liðinu
upp í þessum fyrsta leik undan-
keppninnar fyrir HM 2022? Fyrir
átján árum beittu landsliðsþjálf-
ararnir Ásgeir Sigurvinsson og Logi
Ólafsson leikaðferðinni 3-5-2 í báð-
um leikjum, með þeim árangri að
þýska liðið skoraði aðeins eitt mark
á fyrstu 150 mínútum leikjanna
tveggja og Ísland var nær sigri í
heimaleiknum á Laugardalsvelli.
Arnar lék sem varnartengiliður í
Hamborg, sömu stöðu og fyrirliðinn
Aron Einar Gunnarsson hefur skilað
svo listilega vel með íslenska liðinu á
undanförnum áratug. Eiður var að
vanda í fremstu víglínu og var hárs-
breidd frá því að jafna rétt áður en
Þjóðverjar komust í 2:0.
Arnar og Eiður gætu hæglega far-
ið í þriggja manna vörn með mið-
verðina Kára Árnason, Sverri Inga
Ingason og Ragnar Sigurðsson,
ásamt því að vera með bakverði á
köntunum og því í raun með fimm
manna varnarlínu.
Þó er kannski líklegra að við
sjáum einhverja útfærslu af 4-5-1
með tvo af þremur áðurtöldum mið-
vörðum, Hörð Björgvin Magnússon
sem vinstri bakvörð og Birki Má
Sævarsson hægra megin.
Nema Alfonsi Sampsted verði
skellt beint í djúpu laugina hægra
megin. Honum er ætlað hlutverk í
þessari landsleikjatörn fyrst hann er
ekki með 21-árs liðinu í Ungverja-
landi. Ari Freyr Skúlason kemur að
sjálfsögðu til greina sem vinstri bak-
vörður. Hörður leikur jafnan sem
miðvörður með CSKA og Arnari er
illa við að láta menn spila aðrar stöð-
ur en þeir eru vanir hjá sínu félags-
liði, eins og fram hefur komið.
Inni á miðjunni má þá búast við að
Aron Einar, Birkir Bjarnason og
Guðlaugur Victor Pálsson eigi að
loka á sóknaruppbyggingu Þjóð-
verja, með Albert Guðmundsson og
Arnór Ingva Traustason á könt-
unum. Jóhann Berg Guðmundsson
verður væntanlega á varamanna-
bekknum eftir að hafa verið tæpur í
vikunni. Rúnar Már Sigurjónsson er
einnig alltaf valkostur inn á miðjuna.
Valið gæti staðið á milli hans og
Guðlaugs Victors.
Jón Daði og Hannes?
Væntanlega verður Hannesi Þór
Halldórssyni treyst áfram sem aðal-
markverði landsliðsins í þessum erf-
iða útileik fyrst keppinautarnir tveir
fá jafn lítið að spila með sínum liðum
á Englandi og í Grikklandi og raun
ber vitni.
Jón Daði Böðvarsson er síðan lík-
legastur til að hefja leik sem fremsti
maður, enda veitir ekki af framherja
með mikla yfirferð og vinnslu gegn
svona andstæðingum.
En Arnar gæti hæglega komið á
óvart með öðruvísi uppstillingu og
liðsvali. Ekki síst þar sem hann þarf
ekki aðeins að hugsa um leikinn í
kvöld, heldur líka hvernig álaginu
verður dreift á leikmannahópinn í
þremur leikjum á sjö dögum. Þótt
Lars Lagerbäck sé með í ráðum eig-
um við ekki eftir að sjá óbreytt lið
Íslands leik eftir leik, eins og t.d. á
EM í Frakklandi fyrir fimm árum.
Leitað í smiðju Ásgeirs og Loga?
- Arnar og Eiður stóðu í Þjóðverjum
2003 og þreyta nú frumraun í Duisburg
Morgunblaðið/ÞÖK
Samherjar Eiður Smári Guðjohnsen, Kári Árnason og Arnar Þór Viðarsson
voru samherjar í landsliðinu 2005 og eru núna allir í Duisburg.
Tyrkir fengu í gærkvöld fljúgandi
start í undankeppni heimsmeist-
aramóts karla í knattspyrnu þegar
þeir lögðu Hollendinga að velli, 4:2,
í fyrsta leik G-riðilsins í Istanbúl.
Þessi tvö lið eru líklegust, ásamt
Norðmönnum, til að berjast um að
komast í lokakeppni HM 2022 í Kat-
ar. Burak Yilmaz skoraði þrennu
fyrir Tyrki, sem komust í 3:0, og
Hakan Calhanoglu skoraði eitt
mark. Davy Klaassen og Luuk de
Jong skoruðu seint í leiknum,
minnkuðu muninn í 3:2, áður en Yil-
maz gulltryggði sigur Tyrkja.
Þrenna Yilmaz
gegn Hollandi
AFP
Þrenna Burak Yilmaz á fullri ferð í
leiknum gegn Hollendingum.
Tryggvi Snær Hlinason hefur verið
útnefndur besti leikmaður 20. um-
ferðar spænsku A-deildarinnar í
körfuknattleik fyrir frammistöðu
sína með Zaragoza í sigurleik liðs-
ins gegn Fuenlabrada.
Sá leikur fór fram um miðjan jan-
úar en umferðinni lauk ekki fyrr en
í þessari viku vegna frestana á
leikjum.
Tryggvi skoraði 24 stig í leikn-
um, tók níu fráköst og átti tvær
stoðsendingar en skotnýting hans í
leiknum var hvorki meira né minna
en 92 prósent.
Tryggvi bestur
í 20. umferðinni
Ljósmynd/FIBA
Öflugur Tryggvi Snær Hlinason átti
stórleik gegn Fuenlabrada.
UNGVERJALAND
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Í annað skiptið í sögunni er íslenska
21-árs landsliðið í fótbolta mætt í
lokakeppni Evrópumótsins. Íslenska
liðið, undir stjórn Davíðs Snorra
Jónassonar, er mætt til Györ í Ung-
verjalandi þar sem það mætir Rúss-
um síðdegis í dag en síðan Dönum á
sunnudag og Frökkum á miðviku-
dag.
Tvær af þessum þjóðum halda síð-
an áfram keppni í sumar þegar þau
átta lið sem komast áfram úr riðla-
keppninni leika um Evrópumeist-
aratitilinn í Ungverjalandi og Slóv-
eníu.
Fyrir fram ættu Frakkar að vera
með sterkasta liðið í riðlinum, enda
með marga þekkta leikmenn innan-
borðs. Það þyrfti því ekki að koma á
óvart þótt Ísland, Rússland og Dan-
mörk myndu slást um að fylgja þeim
í átta liða úrslitin. Það undirstrikar
enn mikilvægi leiksins í dag en ósig-
ur gegn Rússum myndi þýða að ís-
lensku strákarnir væru með bakið
upp við vegg fyrir leikinn gegn Dön-
um á sunnudag.
Að sama skapi væri sigur í dag
gegn mjög reyndu rússnesku liði það
veganesti sem þeir þyrftu á að halda
fyrir sunnudagsleikinn sem þá yrði
heldur betur áhugaverður.
Agaðir og skipulagðir Rússar
Eins og fram kom í blaðinu í gær
er rússneska liðið að stórum hluta
einum til tveimur árum eldra en það
íslenska. Davíð Snorri þjálfari sagði
í gær að Rússar væru agaðir og
skipulagðir með skýrt leikplan. Fyr-
irliðinn Jón Dagur Þorsteinsson
sagði á fréttamannafundi liðsins að
markmiðið væri ekki bara að vera
með heldur að komast upp úr riðl-
inum og taldi liðið eiga góða mögu-
leika í öllum leikjunum.
Það kemur betur í ljós í dag en
Davíð Snorri gæti teflt upp svona
byrjunarliði:
Mark: Patrik Gunnarsson (Silke-
borg).
Vörn: Róbert Orri Þorkelsson
(Breiðabliki), Ísak Óli Ólafsson
(SönderjyskE), Ari Leifsson
(Strömsgodset), Hörður Ingi Gunn-
arsson (FH).
Miðja: Stefán Teitur Þórðarson
(Silkeborg), Alex Þór Hauksson (Ös-
ter), Willum Þór Willumsson (BATE
Borisov).
Kantar/sókn: Jón Dagur Þor-
steinsson (AGF), Sveinn Aron Guð-
johnsen (OB), Ísak Bergmann Jó-
hannesson (Norrköping).
Aðrir sem spiluðu mikið í und-
ankeppninni haust eru Brynjólfur
Willumsson (Kristiansund), Valdi-
mar Þór Ingimundarson (Ströms-
godset), Andri Fannar Baldursson
(Bologna), Kolbeinn B. Finnsson
(Dortmund), Þórir Jóhann Helgason
(FH) og Kolbeinn Þórðarson (Lom-
mel).
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fyrirliði Jón Dagur Þorsteinsson
leikur með AGF í Danmörku.
Lykilleikur gegn Rússunum í dag
- Barátta við Rússa og Dani um sæti í átta liða úrslitum?
Eitt
ogannað
_ Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í
handknattleik, hefur verið ráðinn þjálf-
ari Barein á nýjan leik. Þetta staðfesti
handknattleikssamband Barein á sam-
félagsmiðlum sínum í gær en Aron
tekur við þjálfun liðsins af Halldóri Jó-
hanni Sigfússyni. Aron þekkir vel til
hjá Barein en hann var ráðinn þjálfari
liðsins árið 2018 og kom liðinu meðal
annars á Ólympíuleikana í Tókýó en
hætti með liðið til þess að einbeita sér
að þjálfun Hauka.
_ Leiknir úr Reykjavík hefur fengið til
sín kólumbíska knattspyrnumanninn
Andrés „Manga“ Escobar og samið
við hann út komandi keppnistímabil.
Escobar er 29 ára gamall sóknar- eða
kantmaður sem hefur komið víða við á
undanförnum árum. Hann var lengi
samningsbundinn Dinamo Kiev í Úkra-
ínu en lék aldrei með liðinu og var lán-
aður til margra félaga.
_ Knattspyrnudeild Tindastóls hefur
samið við hægri bakvörðinn Dom-
inique Bond-Flasza. Hún er landsliðs-
kona frá Jamaíka og lék einn leik fyrir
liðið á HM 2019. Tindastóll leikur í úr-
valsdeild í fyrsta skipti í sögunni í ár.
_ Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur
samið við ástralska sóknarmanninn
Oliver Kelaart. Kelaart, sem er 22 ára
gamall, spilaði síðastliðið sumar með
Kormáki/Hvöt í 4. deildinni hér á landi
og skoraði 11 mörk í 14 leikjum.