Morgunblaðið - 03.08.2021, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. ÁGÚST 2021
Beðið Þessi svipsterki hundur beið pollrólegur fyrir utan verslun við Laugaveginn á dögunum
á meðan eigandinn gerði góð kaup. Síðan héldu þér áfram leið sinni um bæinn.
Eggert
Til þess að ná árangri í knatt-
spyrnu þarf góða liðsheild, aga,
leikskipulag, vinnusemi, stolt og
leikgleði. Hugrekki og ástríða gera
síðan gæfumunin. Ekki er nóg að
senda einn langan fram og sjá hvað
gerist, sem hefur verið leikkerfi
margra knattspyrnuliða sem reyna
að stytta sér leið. Góð sending á
slakan leikmann er slök sending og
þess vegna er mikilvægt að grunn-
atriði knattspyrnunnar, móttaka
og sending séu framúrskarandi,
annars verður þetta yfirleitt erfitt. Opinn sókn-
arbolti er einfaldlega besti möguleikinn til sig-
urs og árangurs, sem er líka skemmtilegur fyrir
áhorfendur. Mikilvægt er að stjórnmálamenn
og embættismenn landsins taki upp þessa sig-
urformúlu sem gæti bætt verulega rekstur ríkis
og sveitarfélaga. Ísland er einstakt land vegna
legu sinnar, menningar, íslenskrar tungu,
ómengaðrar náttúru, náttúruauðlinda og hæfi-
leikaríkra Íslendinga á mörgum sviðum. Styrk-
leikar landsins felast einnig í smæð landsins,
íbúafjölda og velmenntuðum Íslendingum á fjöl-
mörgum sviðum. Ísland er ríkulega búið nátt-
úruauðlindum sem eiga eftir að margfaldast í
verðmætum á þessari öld s.s. vatni, endurnýj-
anlegri orku, hreinum fiskafurðum, lífrænum
landbúnaði og hreinu lofti. Náttúra landsins er
einstök en íslensk víðerni og óviðjafnanleg nátt-
úrufegurð mun leiða til óendanlegrar eft-
irspurnar sem verður að stjórna með stefnu-
mörkun til lengri tíma með hagsmuni landsins
að leiðarljósi. Sóknarfæri landsins eru endalaus
í verðmætasköpun á næstu áratugum vegna
legu landsins og auðlinda sem eru eftirsókn-
arverð í heimi þar sem neyslan er stjórnlaus á
kostnað náttúrunnar og landgæða. Íslenska víð-
ernið, vatnið, endurnýjanlega orkan, íslenskar
laxveiðiár, jöklarnir, fossarnir, norðurljósin, ís-
lenski hesturinn, íslensku bláberin, íslensku
sundlaugarnar, og ylræktin eru einstök á
heimsvísu. Lífsstílsbreytingar, matvælaöryggi,
hollusta, vatnsskortur, lítil mengun og afurðir
lausar við sýklalyf og annað misjafnt eiga eftir
að búa til aukna eftirspurn eftir
matvælaöryggi, lífrænni og
hreinni matvælaframleiðslu. Ís-
lenskur sjávarútvegur og land-
búnaður hafa náð miklum ár-
angri og vaxið mikið á
undanförnum árum með nýsköp-
un og vöruþróun en fyrirtæki á
landsbyggðinni hafa verið í
fremstu röð. Mikilvægt er að ný-
sköpun taki mið af sjálfbærni og
umhverfisvernd og eðlilegt að
fiskeldi sé stundað á landi frekar
en í sjó þar sem firðir landsins
eru eyðilagðir með ófyrirsjáan-
legum afleiðingum fyrir íslenskar laxveiðiár og
lífríki fjarða í kringum landið.
Landsbyggðin er hinn óslípaði
demantur Íslands
Margar af helstu náttúruauðlindum og fram-
tíðarverðmætum Íslands eru á landsbyggðinni.
Landsbyggðin er hinn óslípaði demantur Íslands.
Íslenska víðáttan, hreina vatnið, hreint loft og
náttúra sem er einstök er hinn óslípaði demantur
Íslands horft til framtíðar. Mikilvægt er að þjóð-
garðar verði stofnaðir í umsjá bænda sem eru
varðmenn náttúrunnar og umgengni skipulögð.
Kraftinum af landsbyggðinni frá vinnusömum
bændum og sjómönnum sem lögðu grunn að Ís-
landi nútímans þarf að gefa tilheyrandi virðingu.
Ótrúleg tækifæri eru víða á landsbyggðinni og
bíða eftir því að frumkvöðlar og fólk sem vill láta
að sér kveða nýti þau. Landsbyggðin er í raun ís-
lenski fjársjóðurinn horft til framtíðar. Íslenski
fjársjóðurinn mun ávaxast vel horft til framtíðar
vegna þess að eftirspurn eftir vatni, orku, hreinu
lofti, náttúrfegurð, hreinum og lífrænum mat-
vælum á eftir að margfaldast og hækka í verði
vegna mikillar eftirspurnar. Þess vegna er mik-
ilvægt að stjórnvöld móti framtíðarsýn fyrir
landsbyggðina í þeim málaflokkum þar sem verð-
mæti auðlinda landsins á eftir að aukast verulega
og getur skapað mestu framtíðarverðmæti Ís-
lands horft til næstu 50 ára. Virðing og umgengni
við íslenska fjársjóðinn þarf að aukast og öll um-
ræða að verða með meiri fagmennsku. Stefnu-
mörkun og framtíðarsýn þurfa að taka mið af
langtímasjónarmiðum. Framsækin stefnumótun
í samgöngumálum og menntamálum er eitt af
mikilvægustu verkefnum á næstu árum þannig
að landsbyggðin verði álitlegur kostur fyrir ein-
staklinga og fyrirtæki þar sem blómlegt atvinnu-
líf getur þrifist. Mörg fyriræki á landsbyggðinni
eru í eigu aðila sem eru snarpir, með skýra fram-
tíðarsýn og happafengur fyrir viðkomandi
byggðarlög. Vonandi fara fleiri Íslendingar að
gera sér grein fyrir þeim ótrúlegu möguleikum
sem liggja í íslenskri náttúru.
Eftir Albert Þór Jónsson
»Mikilvægt er að nýsköpun
taki mið af sjálfbærni og
umhverfisvernd og eðlilegt að
fiskeldi sé stundað á landi frek-
ar en í sjó þar sem firðir lands-
ins eru eyðilagðir með ófyrir-
sjáanlegum afleiðingum fyrir
íslenskar laxveiðiár og lífríki
fjarða í kringum landið.
Albert Þór Jónsson
Höfundur er viðskiptafræðingur, með MCF í
fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á
fjármálamarkaði.
Ísland er einstakt!
Löngum hefur mönnum þótt
þeir lifa á óvenjulegum tímum en
sjaldan hefur það þó verið í líkingu
við það sem mannkynið sem heild
stendur nú frammi fyrir. Veiran
sem nú upptekur fjölmiðlaumræð-
una og hugi flestra, er hreinir smá-
munir miðað við þá brekku lofts-
lagsógna sem framundan er.
Aðdragandinn er langur ef grannt
er skoðað: Manngerð breyting
andrúmsloftsins hefur gerst allt frá
upphafi iðnbyltingar, augljós þeim
sem höfðu augun opin fyrir hálfri öld eða fyrr
(Vistkreppa eða náttúruvernd. Mál og menning
1974, s. 26-30). Þrátt fyrir fögur fyrirheit með
Parísarsamkomulaginu 2015 hefur vandinn vaxið
síðan hröðum skrefum og mörg hamfaramet ver-
ið slegin. Skógareldar svíða landflæmi í öllum
heimsálfum, hitamet eru hvarvetna slegin með
allt að 54 gráðum C að hámarki í Norður-
Ameríku, yfir 40% af yfirborði íshellu Grænlands
eru að þiðna og freðmýrarnar gefa ört eftir.
Sökudólgurinn er hömlulaus iðnvæðing með
jarðefnaeldsneyti, alþjóðavæðing viðskipta og
eyðing óbrotinnar náttúru samhliða margföldun
á íbúafjölda jarðar.
Þjóðverjar vakna við vondan draum
Flóðin miklu með skriðuföllum og manntjóni í
vestanverðu Þýskalandi fyrir fáum vikum vöktu
þarlenda af vondum draumi. Í þessu háþróað-
asta landi Mið-Evrópu spyrja menn sig nú
stuttu fyrir kosningar hvernig í ósköpunum gat
þetta gerst? Vikuritið Der Spiegel segir í for-
ystugrein 24. júlí sl. undir fyrirsögninni „Enda-
lok öryggis“ (Das Ende der Sic-
herheit): „Í veröld sem í
fyrirsjáanlegri framtíð verður
aldrei jafn örugg og við vorum
vön, er verst að skella skollaeyr-
um við óörygginu. Jafnvel besta
löggæsla mun ekki vernda okkur
fyrir afleiðingum loftslagsbreyt-
inganna.“ Og vikuritið Die Zeit
ályktar í leiðara á forsíðu 22. júlí:
„Það er enga vörn að hafa nema
við breytum fyrir alvöru nátt-
úrueyðandi efnahags- og neyslu-
stefnu okkar. … Við verðum að
breyta lífsháttum okkar: Vín-
yrkju, bílaumferð, umróti og eyð-
ingu tegunda, landbúnaði, neysluháttum, hús-
byggingum og mörgu öðru.“
Loftslagsbreytingarnar og viðbrögð við þeim
munu setja mark sitt á kosningabaráttu næstu
vikna í Þýskalandi og enduróma jafnframt inn-
an Evrópusambandsins.
Svifasein og óviss stefnumörkun
Á ársfundi loftslagssamningsins COP-26 í
Glasgow mun í nóvember næstkomandi reyna á
samkomulag um leikreglur varðandi losun og
bindingu. Mörg ríki hafa að undanförnu gefið út
yfirlýsingar um róttæka stefnu til að draga úr
losun CO2 á komandi árum. Hvort þær skili sér í
reynd er óvíst og háð samfélagsbreytingum eigi
að takast að ná yfirlýstum markmiðum frá París
2015. Spurningin snýst ekki einvörðungu um út-
rýmingu kola og olíu sem orkugjafa heldur einn-
ig og ekki síður um gjörbreytta landnotkun og
umgengni við náttúruleg vistkerfi frá því sem nú
er. Ágangurinn á lítt snortin vistkerfi hefur verið
gegndarlaus og heldur áfram með vaxandi
þunga. Dæmi um það er Amasón-skóglendið sem
hefur þegar rýrnað til muna og kóralrif eru á
hröðu undanhaldi og munu hverfa við hækkun
meðalhita að 3o gráðum C. Röskun náttúrulegra
skóglenda á meginlandi Evrópu er hörmunga-
saga og af henni ættum við Íslendingar að læra
þegar áhersla er nú m.a. lögð á bindingu gróð-
urhúsalofts með skógrækt. Þar ættu náttúrulegir
birkiskógar að njóta forgangs.
Fátækleg umræða hérlendis
Umræða hérlendis um loftslagsbreytingar
hefur lengi verið afar takmörkuð, ekki síst á
vettvangi stjórnmálaflokka og Alþingis. Flestir
flokkar taka að vísu í orði undir að hamla þurfi
gegn hlýnun andrúmsloftsins en þegar til kast-
anna kemur um hlut Íslands er fátt um svör hjá
flestum. Sannleikurinn er sá að við Íslendingar
erum með einna hæsta losun gróðurhúsalofts á
mann í Evrópu og afar hægt gengur að ná henni
niður. Gróðurríki landsins er víða í tötrum eftir
rányrkju um aldir. Enn viðgengst ofbeit sauð-
fjár og hrossa á stórum svæðum og orkuyfirvöld
úthluta á færibandi rannsóknaleyfum til virkj-
ana undir 10 megavöttum að afli. Þessu tengist
nýleg þátttaka Íslands á orkupakka ESB nr. 3,
en með henni hafa þýðingarmiklar ákvarðanir í
orkumálum verið framseldar til ESB og yfir-
þjóðlegra stofnana á þess vegum. Það mál varð-
ar ekki síst náttúru- og umhverfisvernd, og allt
er í óvissu um framhald og afleiðingar þeirrar
stefnu.
Bæta þarf náttúrufræðikennslu
Náttúrufræðikennsla hefur lengi verið horn-
reka í íslensku skólakerfi, og endurspeglast það
með áberandi hætti í málflutningi margra full-
orðinna, þar á meðal kjörinna fulltrúa og sér-
fræðinga. Afar brýnt er að hér verði breyting á,
ekki síst til að efla skilning á áhrifum loftslags-
breytinga og viðbrögðum við þeim. Þar þarf
æskufólk að öðlast sem besta innsýn á grunn-
skólastigi, einnig með skipulegum ferðum á
vegum skólanna út í íslenska náttúru. Þetta eru
þær kynslóðir sem takast þurfa á við nýjar og
afar erfiðar áskoranir af völdum loftslagsbreyt-
inga. Traust menntun kennara á þessu sviði er
að sjálfsögðu undirstöðuatriði.
Gífurleg áhrif á norðurslóðir
Áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum
verða einna mest á norðlægum slóðum, í Norð-
ur-Íshafi og löndunum umhverfis. Þannig er tal-
ið að hlýnun verði þar allt að tvöfalt meiri en
annars staðar, meðalhækkun hitastigs um 3-5
gráður C á landi og enn meiri í sjó. Jöklar hér-
lendis munu að mestu hverfa næstu tvær ald-
irnar, ef fram heldur sem horfir, og bráðnun
Grænlandsjökuls og Suðurskautsjökla valda
mikilli hækkun sjávarborðs. Jafnframt má bú-
ast við miklum veðurfarsbreytingum með auk-
inni úrkomu og stormum. Við þetta bætist súrn-
un sjávar með tilheyrandi áhrif á lífríki, þar á
meðal fiskistofna. Þessar aðstæður gera það
einboðið að við Íslendingar leggjum okkar lóð á
vogarskálina til að draga sem verða má úr
loftslagsvánni. Hér duga engin vettlingatök.
Eftir Hjörleif
Guttormsson » Sökudólgurinn er hömlu-
laus iðnvæðing með jarð-
efnaeldsneyti, alþjóðavæðing
viðskipta og eyðing óbrotinnar
náttúru samhliða margföldun
íbúafjölda jarðar
Eftir Hjörleif
Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.
Loftslagsógnin vex hröðum skrefum