Morgunblaðið - 25.09.2021, Side 22
22 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. SEPTEMBER 2021
ÚR BÆJARLÍFINU
Björn Björnsson
Sauðárkróki
Fyrsta haustlægðin ruddist yfir
Skagafjörð eins og aðra hluta lands-
ins upp úr síðustu helgi og að morgni
þriðjudags var Tindastóllinn, sem og
önnur fjöll í firðinum, hvítur niður
undir byggð, og í framhaldinu hefur
vikan verið úrkomusöm og köld. Á
trjám og runnum sáust vart fölnað
lauf, en nú hefur orðið á nokkur
breyting.
- - -
Vissulega eru kosningar til Al-
þingis, þær sem nú fara fram, ekki á
hefðbundnum vor- og kosningatíma,
en það er ekki það eina sem óvenju-
legt er þegar ráða skal stórum mál-
um til lykta eins og kjöri til setu á
löggjafasamkomu þjóðarinnar.
- - -
Hér í Skagafirði hefur verið
fremur hljótt um þennan merka við-
burð, varla að hinn almenni íbúi
minnist á hann og þeir frambjóð-
endur sem hingað koma hafa ekki
farið fram með neinu offorsi. Í byrj-
un viku höfðu þó framsóknar- og
sjálfstæðismenn riggað upp kosn-
ingaskrifstofum en í vikunni hefur
heldur verið að færast fjör í leikinn,
þótt flest sé nú heldur dauflegra en
áður var.
- - -
En þess utan hefur bæjarlífið
innan og utan þéttbýlis verið býsna
blómlegt og öflugt.
Að sögn Sigfúsar Inga sveitar-
stjóra er stöðug en vissulega fremur
hæg fjölgun í sveitarfélaginu. Í vik-
unni voru Skagfirðingar nákvæm-
lega 4.100. Þá voru á milli 50 og 60
íbúðir á mismunandi byggingarstigi
í smíðum. Um er að ræða allmörg
einbýlis- svo og par- og fjölbýlishús,
og sagði Sigfús ljóst að vinna þyrfti
að skipulagi nýrra gatna, bæði á
Sauðárkróki og í Varmahlíð þar sem
spurn eftir byggingalóðum er um-
fram framboð.
- - -
Samstarfsnefnd hefur verið
sett á laggirnar og hefur þegar hafið
störf, um sameiningu Sveitarfé-
lagsins Skagafjarðar og Akra-
hrepps, og er nefndinni ætlað að
skila niðurstöðum sem fyrst, þannig
að um þær verði unnt að kjósa fljót-
lega í byrjun næsta árs.
- - -
Þá er um þessar mundir verið
að leggja lokahönd á gerð aðal-
skipulags og væntir sveitarstjóri
þess að því verði lokið á þessu ári. Þá
er unnið að nýju deiliskipulagi Sauð-
árkrókshafnar og verður það vænt-
anlega samþykkt innan skamms. Er
þar gert ráð fyrir verulega bættri
aðstöðu smábátaeigenda, svo og reit
fyrir aðstöðuhús þeim tengdum. Þá
er gert ráð fyrir nýrri löndunar-
aðstöðu við suðugarð, nánast við hlið
svæðis þar sem ætluð er bygging
nýs fiskmarkaðar sem þar mun rísa.
- - -
Að sögn Dags Þ. Baldvinssonar
hafnarstjóra er nú í október von á
nýkeyptum dráttarbáti frá Skot-
landi, en lengi hefur verið unnið að
leit og kaupum á heppilegu tæki til
þessara nota. Sagði Dagur að flutn-
ingaskipafélögin sem sigla til Sauð-
árkróks að jafnaði tvisvar í viku, en
ekki síður stjórnendur stóru togar-
anna, hefðu lengi bent á að ekki væri
vansalaust að ekki væri slíkur bátur
til staðar á Sauðárkróki
- - -
Hér er um að ræða 20 metra
langan og 7 metra breiðan bát,
byggðan 2007 af Damen-gerð með
togkraft um 28 tonn. Sagði Dagur
þetta mikið framfara- og öryggismál
fyrir höfnina.
Þá sagði Dagur að á næsta ári
yrði stálþil við Norðurgarð endur-
nýjað en veruleg þörf var orðin á því
verki, og er samanlögð lengd þilsins
um 270 metrar.
- - -
Unnið hefur verið við endur-
bætur á sjóvarnargörðum, á vegum
sveitarfélagsins, við Skarðseyri með
rúmlega eins metra hækkun nyrst
en alls var endurhlaðinn og lagfærð-
ur um 450 metra kafli, en þessi garð-
ur skemmdist mikið í áhlaupaveðri
fyrir nokkrum misserum sem olli
miklu tjóni.
Þá hefur Vegagerðin lokið
varnargarði við Strandveg sem er
þjóðvegur í þéttbýli og var það fyrir-
tækið Víðimelsbræður sem önn-
uðust bæði verkin.
- - -
Í sumar hefur Vegagerðin nánast
lokið við að leggja nýtt malarlag á
allan Skagaveg, sem var orðinn
verulega illa farinn, svo og á Dals-
plássið frá Steinsstaðahverfi og að
innsta bæ, en þá var viðhaldsfé til
malarvega uppurið.
Á næsta ári verður 5,6 km lang-
ur kafli af Reykjastrandarvegi
byggður upp, breikkaður og lagður
bundnu slitlagi út fyrir Fagranesá,
þar sem byggð verður nýtt og öflugt
ræsi. Mun þetta gjörbreyta aðstöðu
þeirra sem reka ferðaþjónust á
svæðinu, meðal annars Drangeyj-
arferða en gert er ráð fyrir verklok-
um fyrir árslok 2022.
- - -
Fyrirtækið Borgarverk hefur í
sumar unnið að lagfæringum á Þver-
árfjallsvegi, sem orðinn var mjög illa
farinn eftir mikla umferðaraukningu
undanfarinna ára. Um var að ræða
styrkingu frá vegamótum Skagaveg-
ar að Illugastöðum þar sem fram fór
sementsfræsing á slitlagi, breikkun
lítillega en síðan nýtt yfirborðslag á
um 5 km kafla. Á Laxárdalsheiðinni
var yfirborðslag fræst, löguð sig-
hvörf sem komin voru í veginn, en
síðan lagt nýtt slitlag. Er fram-
kvæmdum að ljúka þessa dagana.
- - -
Eitt af fjölmörgum verkum
sem Steypustöð Skagafjarðar er um
þessar mundir að hefja, er plæging
aðalstrengs frá Skeiðsfossvirkjun að
Ketilási í Fljótum sem tengist þar
við aðalstreng raflínunnar til Siglu-
fjarðar, en þá er öll línan þangað
komin í jörð, þannig að raforka til
bæjarins ætti að vera örugg, en rysj-
ótt veðurfar hefur oft á tíðum gert
Siglfirðingum skráveifu.
- - -
Fjölbrautaskóli Norðurlands
vestra er nú kominn í fullan gang
en skólastarf þar sem og í mörgum
öðrum skólum hefur ekki gengið
hnökralaust síðustu misseri. En nú
bregður svo við eftir nokkra lægð, að
heimavist skólans er fullsetin og
nemendur alls 660 og er það mesti
nemendafjöldi til þessa.
Einnig er það nýmæli að nem-
endur í iðn- og starfsgreinum eru
rúmlega helmingur, sem ekki hefur
heldur gerst áður og má það þakka
mjög góðu orðspori sem af skólanum
fer.
- - -
Ingileif Oddsdóttir skólameist-
ari segist fagna því að unga fólkið sé
farið að koma aftur og sækja mjög í
verkgreinarnar, skólinn sé að eflast
og vaxa og þá sérstaklega vegna
góðrar verkgreinakennslu. Sagði
Ingileif að kennarar við skólann
væru 50 en starfsfólk alls um 70.
- - -
Þrátt fyrir að skammdegi fari nú
verulega að nálgast og jafnvel vetr-
artíð, eru Skagfirðingar alltaf bjart-
sýnir og oftar en ekki hafa nú haust-
in verið góðviðrasöm hér um slóðir,
og svo bara í næstu viku hafa allir
sigrað í kosningunum, bara misjafn-
lega stórt, svo ekki er neinu að
kvíða.
Framkvæmdagleði í Skagafirði
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Sauðárkrókur Unnið hefur verið við endurbætur á sjóvarnagarði við Strandveg, meðfram þjóðveginum.
Íbúðir Bygging nýrra íbúða er langt komin í gamla Barnaskólanum.
„Gæsaveiðin virðist ekki vera farin
mikið af stað. Ég er þó búinn að fá
slatta af heiðagæsavængjum. Mér
sýnist að sumir hafi fengið ágætlega
af heiðagæs,“ sagði Arnór Þórir Sig-
fússon, vistfræðingur hjá Verkís.
Hann hefur lengi tekið við vængjum
af veiddum gæsum og öndum og not-
að þá til að kanna ungahlutfall í veið-
inni hvert haust. „Nú er ég byrjaður
að fá helsingjavængi og grágæsin er
aðeins að byrja að koma. Venjulega
byrjar grágæsaveiðin ekki mikið
fyrr en seinni partinn í september.
Reynsla mín er sú.“
Enginn skortur á heiðagæs
Arnór sagði að sér sýndist að
mönnum hafi gengið betur við heiða-
gæsaveiðar sunnan heiða en norðan.
Langvarandi þurrkar voru fyrir
norðan í sumar og margar tjarnir
sem gæsaskyttur hafa setið við
höfðu þornað upp. „Það á að vera
nóg af heiðagæs og enginn skortur á
henni. Stofninn er það stór að hann
þolir vel veiðar,“ sagði Arnór.
Talningar benda til þess að grá-
gæsastofninn hafi minnkað í seinni
tíð, að sögn Arnórs. Hann sagði að
verið sé að skoða hvort eitthvað sé að
aðferðafræðinni eða hvort fækkunin
sé raunveruleg. Efla á rannsóknir á
grágæsastofninum til að komast að
því. Skoða á útbreiðslusvæði grá-
gæsa á Bretlandseyjum en tölur um
fjölda grágæsa þar hafa verið tals-
vert rokkandi. Grunur leikur á að
talningaskekkjur geti haft áhrif þar
á.
„Það getur líka verið að það sé um
fækkun að ræða. Mönnum sem lengi
hafa fylgst með gæsum finnst til
dæmis að grágæsum hafi fækkað á
Austurlandi,“ sagði Arnór. En hvað
veldur fækkun ef um hana er að
ræða?
Mikill veiðiþungi á grágæs
„Það er spurning. Einn þáttur get-
ur verið veiðin. Veiðiþunginn er gríð-
arlega mikill. Hér eru veiddar um 40
þúsund grágæsir á ári að meðaltali
samkvæmt veiðiskýrslum. Það hafa
verið taldar 70-80 þúsund gæsir á
vetrarstöðvunum undanfarin ár eftir
að við Íslendingar erum búnir að
veiða úr stofninum. Bretar veiða svo
líklega eitthvað yfir tíu þúsund gæs-
ir. Ef þetta er lagt saman þá erum
við kannski að skjóta þriðjung úr
stofninum á hverju ári. Grágæsin
hefur staðið undir þessu álagi með
gríðarlega mikilli ungaframleiðslu.
Þess vegna er mikilvægt að fylgjast
með því.“
Annað sem getur hafa haft áhrif á
viðgang grágæsa er að heiðagæsin
hefur verið í mikilli sókn og sótt í
auknum mæli niður á láglendið eins
og í Skagafirði. Hún gæti hafa ýtt
grágæsinni í burt. Það er þó ekki al-
gilt. Arnór þekkir t.d. vel til í Svarf-
aðardal og Eyjafirði og segir að þar
sé mikið af grágæs.
Arnór óskar eftir því að veiðimenn
hirði annan vænginn af veiddum
gæsum og öndum og hafi samband
við hann í gegnum netfangið ats-
@verkis.is eða í síma 843-4924.
Einnig er hann á Facebook. Þá er
hægt að senda honum vængi, Arnór
Þórir Sigfússon, Verkís, Ofanleiti 2,
103 Reykjavík. gudni@mbl.is
Spurning hvort grágæsum fækkar
- Vængir veiddra gæsa gefa upplýsingar um ungahlutfall - Mikilvægt að veiðimenn skili vængjum
Ljósmynd/Arnór Þórir Sigfússon
Heiðagæs Gulur hringur er um vængþökurnar sem segja til um aldur.
Örin bendir á dvergvængsfjöður sem einnig er notuð við greininguna.