Morgunblaðið - 15.10.2021, Side 4
4 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. OKTÓBER 2021
Garðatorg 6 | s. 551 5021 | www.aprilskor.is
Copenhagen Shoes Embrace Quilted
17.990 kr.
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Sólheimajökull í Mýrdal hefur hopað
um alls ellefu metra síðasta árið.
Þetta kom í ljós nú í vikunni þegar
nemendur í 7. og 8. bekk Hvolsskóla
á Hvolsvelli fóru á vettvang og
mældu hop jökulsins, eins og hefð er
fyrir í skólastarfinu að sé gert.
„Þetta eru mjög lærdómsríkar ferðir
og fyrir nemendur er áhugavert að
sjá hvernig landið breytist stöðugt,“
segir Birna Sigurðardóttir skóla-
stjóri í samtali við Morgunblaðið.
Útkoman er misjöfn milli ára
Síðastliðin ellefu ár hafa nem-
endur í 7. bekk Hvolsskóla farið ár-
lega að Sólheimajökli. Mæld er fjar-
lægð jökulsporðs frá upplýsinga-
skiltinu sem fyrsti hópurinn setti
niður árið 2010. Á þeim tíma voru
318 metrar frá skilti að sporði. Nú er
fjarlægðin orðin 726 metrar og hopið
því orðið 408 metrar, eins og GPS-
mælingar sýna. Þetta er býsna mik-
ið, en útkoman er þó annars æði mis-
jöfn milli ára. Var 110 metrar milli
2017-2018 – samanber að frá 1931-
2010 hopaði jökullinn um 1.255
metra.
„Í fyrstu mælingaferð Hvolsskóla
2010 var jökulsporðurinn á þurru
landi en nú er stórt lón þarna fram-
an við. Því þarf að fara þetta á bát.
Þar nutum við nú eins og undanfarin
ár liðsinnis björgunarsveitarinnar
Dagrenningar hér á Hvolsvelli,“
segir Birna skólastjóri.
Á síðasta ári var, meðal annars
vegna sóttvarna, ekki mögulegt að
fara í formlega mælingaferð að Sól-
heimajökli. Krakkar úr þáverandi 7.
bekk, nú 8. bekk, fengu því að fara
með 7. bekk líðandi skólaárs, enda er
þetta leiðangur sem fæstir vilja
missa af. Með í ferðinni nú var Jón
Stefánsson, fyrrum kennari við
Hvolsskóla. Hann var upphafsmaður
þessa verkefnis, sem strax fékk
mikla athygli. Nefna má að fyrir
framtakið fékk Jón meðal annars
Náttúruviðurkenningu Sigríðar í
Brattholti frá umhverfisráðherra á
Degi íslenskrar náttúru árið 2019.
Einnig hefur tíðkast undanfarin ár
að bjóða erlendum ráðamönnum
sem koma í Íslandsheimsóknir að
skoða aðstæður við Sólheimajökul,
með tilliti til framvindu af völdum
hlýnunar andrúmsloftsins.
Umhverfismennt í samhengi
„Mælingaferðin að Sólheimajökli
var ævintýri krakkanna,“ segir Þór-
unn Óskarsdóttir, kennari við Hvols-
skóla og umsjónarkona jöklaverk-
efnisins. „Með því að fara á vettvang
eru mál sett í samhengi, til dæmis í
umhverfismennt. Krakkarnir sem
við fórum með voru mörg í unglinga-
vinnunni í sumar og minntust rign-
ingar og kulda. Gerðu sér því fyrir-
fram grein fyrir því að hop jökulsins
í sumar yrði ef til vill minna nú en
stundum áður, eins og kom á dag-
inn.“
Ljósmynd/Elísabeth Lind Ingólfsdóttir
Sólheimajökull Breytingarnar eru stöðugar og hraðar og frá ári til árs sést mikill munur á umhverfinu hér.
Sólheimajökull hopaði um
408 metra á ellefu árum
- Hvolsskólanemar mæla í Mýrdal - Lón þar sem var land
Fróðleiksferð Nemendur 7. bekkjar Hvolsskóla við upplýsingaskilti við Sól-
heimajökul. Fjarlægðin frá því að sporðinum sýnir hop jökulsins ár hvert.
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Málum sem komið hafa til kasta
starfsfólks sem veitir þjónustu í
Barnahúsi hefur fjölgað mikið á
undanförnum mánuðum. Voru
skýrslutökur fyrir dómi alls 213 á
fyrstu níu mánuðum yfirstandandi
árs eða 43% fleiri en á sama tímabili í
fyrra. Þær voru 149 á sama tímabili í
fyrra en til samanburðar voru þær
88 á fyrstu níu mánuðum ársins
2019.
Tvöfalt fleiri í ár
„Þá fjölgun sem má sjá á fyrstu
níu mánuðum ársins 2021, miðað við
sama tímabil áranna á undan, má
helst rekja til fjölgunar skýrslutaka
vegna kynferðislegs ofbeldis,“ segir í
umfjöllun á vefsíðu Barnaverndar-
stofu, sem birt hefur skýrslu um
fjölda mála á vegum stofunnar frá
áramótum til loka september í ár.
Fram kemur að skýrslutökur í
Barnahúsi vegna kynferðislegs of-
beldis eru tvöfalt fleiri í ár en á sama
tímabili á seinasta ári. Er staðan
sögð vera sú að nú, þegar tölur fyrir
fyrstu níu mánuði ársins eru teknar
saman, komi í ljós að skýrslutökur
vegna kynferðislegs ofbeldis voru
samtals 133 á fyrstu níu mánuðum
yfirstandandi árs og þegar orðnar
15,6% fleiri en allt árið 2020.
Heildarfjöldi skýrslutaka frá ára-
mótum til loka september vegna lík-
amlegs ofbeldis og heimilisofbeldis
er orðinn svipaður og samanlagður
fjöldi slíkra mála á árunum 2018 og
2019. Á seinasta ári voru líka óvenju
margar skýrslutökur vegna líkam-
legs og heimilisofbeldis. Voru
skýrslutökur í Barnahúsi 27 á fyrstu
níu mánuðum ársins 2019, 76 á sama
tímabili í fyrra og hefur svo fjölgað í
80 frá janúar til september í ár.
Flestar skýrslutökurnar í Barna-
húsi á þessu ári vörðuðu kynferðis-
legt ofbeldi, eða 62,4% allra skýrslna
sem teknar voru. „Þá voru skýrslu-
tökur vegna kynferðisofbeldis 82,2%
fleiri á fyrstu níu mánuðum ársins
2021 samanborið við sama tímabili
árið 2020. Skýrslutökur fyrstu níu
mánuði ársins 2021 er vörðuðu lík-
amlegt og heimilisofbeldi voru 80,
sem er svipaður fjöldi skýrslutaka og
á sama tímabili 2020 en vert er að
taka fram að árið 2020 voru óvenju
margar skýrslutökur vegna líkam-
legs ofbeldis, miðað við árin á und-
an,“ segir í skýrslunni.
Eru þegar orðnar 56,4% fleiri
en yfir allt árið 2018
Þróunin hefur verið sú á undan-
förnum mánuðum að strax á fyrri
helmingi þessa árs voru skýrslutök-
ur vegna kynferðislegs ofbeldis
orðnar fleiri en allt árið 2018, allt ár-
ið 2019 og nálgast það að vera jafn
margar og allt árið 2020.
„Nú, þegar tölur fyrir fyrstu 9
mánuði ársins eru teknar saman, má
sjá að skýrslutökur vegna kynferð-
islegs ofbeldis á fyrstu níu mánuðum
ársins 2021 eru 56,4% fleiri en allt
árið 2018, 26,7% fleiri en allt árið
2019 og 15,6% fleiri en allt árið
2020,“ segir þar.
Stórfjölgun í Barnahúsi vegna ofbeldis
- Skýrslutökur í Barnahúsi vegna kynferðislegs ofbeldis voru tvöfalt fleiri frá janúar til september en á
sama tímabili í fyrra - Skýrslutökum vegna líkamlegs og heimilisofbeldis hefur einnig fjölgað mikið
Fjöldi skýrslutaka í Barnahúsi
Fyrstu níu mánuði áranna 2018-2021 Kyn barna sem sóttu
þjónustu í Barnahúsi
fyrstu níu mán. 2021
200
150
100
50
0
Heimild: Barnaverndarstofa
2018 2019 2020 2021
91 88
149
213
32
59
27
61
76
73
80
133
Drengir 30%
Stúlkur 70%
Vegna kynferðislegs ofbeldis
Vegna líkamlegs- og
heimilisofbeldis
Ný viðbygging Gamla Garðs, elsta
stúdentagarðs Félagsstofnunar
stúdenta, var vígð í gær. Vígslu-
athöfnin fór fram í nýjum sam-
komusal Gamla Garðs, sem hefur
fengið heitið Stúdentabúð.
Þar afhjúpuðu Isabel Alejandra
Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ, og
Björn Bjarnason, forseti SHÍ þegar
Félagsstofnun stúdenta var stofnuð
árið 1968, listaverkið „Góða nótt
ferðalangur“ eftir Helga Þórsson
myndlistarmann, útfært af Rúnu
Kristinsdóttur, sem tileinkað er
hagsmunabaráttu stúdenta í 100 ár.
Auk þeirra Isabel og Björns fluttu
Guðrún Björnsdóttir, framkvæmda-
stjóri FS, Dagur B. Eggertsson
borgarstjóri og Jón Atli Benedikts-
son háskólarektor ávörp.
Nýja húsið er samsett úr tveimur
álmum með tengigangi en þar eru 69
einstaklingsherbergi með sér bað-
herbergi og deila íbúar með sér sam-
eiginlegri aðstöðu, eldhúsum, setu-
stofum, samkomusal o.fl. Ístak sá
um framkvæmd verksins.
Gamli Garður reis upphaflega árið
1934, en hann var teiknaður af Sig-
urði Guðmundssyni húsameistara
ríkisins. Viðbyggingin nú var hönn-
uð af Andrúm arkitektum, og var
lögð áhersla á að byggingin félli vel
að eldra húsinu, öðrum nærliggjandi
byggingum við Hringbraut og Aðal-
byggingu Háskóla Íslands.
Ný viðbygging
Gamla Garðs vígð
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gamli Garður Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, flutti ávarp.