Morgunblaðið - 05.11.2021, Blaðsíða 11
KAUPMANNAHÖFN
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Mér finnst þetta hafa gengið mjög
vel,“ segir Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingar og fulltrúi
Íslands í flokkahópi jafnaðarmanna á
þingi Norðurlandaráðs, sem lauk í
gær. „Í fyrsta lagi eru allir svo glaðir
að geta hist. Það er svo stór hluti af
þessu norræna samstarfi, samtalið á
milli einstaklinga,“ segir Oddný, sem
situr einnig í forsætisnefnd þingsins.
Hún segir allt öðruvísi að vinna svona
saman heldur en í gegnum fjarfundi,
sem séu oft ágætir þegar leysa þarf
úr ýmsum tæknilegum málum, en
stjórnmál þrífist best þegar fólk geti
talað saman augliti til auglitis.
„Í öðru lagi þurftum við að gera
upp hvernig norrænu ríkin brugðust
við í faraldrinum. Það voru vonbrigði
að það var ekki ráðist í ráðstafanir
eftir samráð heldur var hvert land
með sína eigin leið,“ segir Oddný.
Hún segir að þær raddir hafi
heyrst að í faraldrinum hafi sést að
norrænt samstarf sé ekki nógu gott
og haldi ekki þegar á reyni. „En ég
tel það ekki rétt, því samstarfið er svo
gott á svo mörgum sviðum, þótt
þarna hafi eitthvað brugðist,“ segir
Oddný.
Mikilvægar tillögur til úrbóta
Oddný vísar til þess að norræna
ráðherranefndin fékk Jan-Erik
Enestam, fyrrverandi varn-
armálaráðherra Finnlands, til þess að
gera tillögur til úrbóta, en þær voru
kynntar á þinginu í fyrradag.
„Þær voru allar á þann veg að nor-
rænu þjóðirnar ættu að vinna saman
að almannavörnum. Sjálf var ég með í
því að semja stefnuna um samfélags-
öryggi fyrir Norðurlandaráð sem var
samþykkt árið 2019, og tillögur hans
Jan-Eriks ríma mjög vel við það sem
við höfum talað um í ráðinu.“
Jan-Erik fjallaði m.a. um innviði
norrænu ríkjanna í tillögum sínum.
„Við stöndum frammi fyrir ógnum
sem ná þvert yfir landamæri, eins og
netárásir, loftslagsváin og svo heims-
faraldurinn sem við þekkjum, og við
verðum að standa saman gegn þeim
ógnum, og hann leggur því til sér-
staka innviðaráðherranefnd, þar sem
fjallað yrði bæði um efnislegu innvið-
ina, en einnig þá sem eru á netinu.“
Oddný segist vera mjög hrifin af
þeirri tillögu og vonar að hún verði að
veruleika.
Hugi betur að norðurslóðum
Um störf þingsins segir Oddný að
flokkahópur jafnaðarmanna, sem er
sá stærsti, og flokkahópur miðju-
manna, sem hefur næstflesta fulltrúa,
séu með traustan meirihluta og á
milli þeirra hefur ríkt ágætt sam-
starf. „Við höfum náð vel saman, og
ég get ekki kvartað undan því að
sjónarmið okkar hafi ekki náð fram
að ganga,“ segir Oddný, en hún er á
því að það þurfi þó að gera betur í
þeim málum sem snúa að samfélags-
örygginu, og hvernig samstarfið eigi
að vera í framtíðinni.
„En það er líka eitt stórmál sem við
þurfum að vinna betur í, en það eru
málefni norðurslóða og málefni fólks-
ins sem býr þar, og hvernig lofts-
lagsváin er að breyta búsetuskil-
yrðum þar. Þetta hefur áhrif á
mennina og dýrin og áhrif á efnahag-
inn og pólitíkina eins og umhverfið.“
Þá segir Oddný að það þurfi að
huga vel að því að það ríki friður á
norðurslóðum. „Við höfum horft upp
á voldug ríki eins og Kína, Bandaríkin
og Rússland, sem virðast vera spennt
fyrir að komast í auðlindirnar sem
verða aðgengilegar þegar ísinn
bráðnar. Við þurfum því að standa vel
með íbúum á norðurslóðum og vel-
ferð þeirra gegn þessum ágangi.“
Oddný segir að þessu tengt séu
málefni hafsins. „Líffræðilegur fjöl-
breytileiki hafsins, áhrif hlýnunar á
fiskimið og strauma, þetta eru stór-
mál og við Íslendingar ættum að vera
eins og grenjandi ljón þegar kemur
að hlýnun jarðar, því þetta hefur svo
mikil áhrif á okkur,“ segir Oddný og
bendir á þau skelfilegu áhrif á lífs-
afkomu þjóðarinnar ef fiskurinn
hætti að ganga í hafið í kringum land-
ið vegna súrnunar sjávar, að ekki sé
minnst á hvað myndi gerast ef Golf-
straumurinn hætti að gera Ísland
byggilegt.
Deilt um fjármálin
Eitt af helstu hitamálum þingsins
voru fjármál Norðurlandaráðs og
norrænu ráðherranefndarinnar.
Oddný segir að til þess samstarfs
leggi ríkin fram sameiginlegan sjóð
upp á 20 milljarða íslenskra króna.
Þar af borgi Íslendingar á bilinu 3-
400 milljónir króna. „Það sem við höf-
um verið að deila um, þingmennirnir
og ráðherrarnir, eru framlögin til
mennta- og menningarmála. Stað-
reyndin er sú, að frá árinu 1995 hafa
fjárframlögin til norræns samstarfs
dregist saman jafnt og þétt ár frá
ári,“ segir Oddný. Hún bætir við að í
fjögurra ára framtíðarsýn norrænu
ráðherranefndarinnar sé gert ráð
fyrir að fjármunir þurfi að renna til
loftslagsmála. „Og við erum sammála
því, en þau vilja taka peninginn sem
þarf í þessi mikilvægu verkefni frá
mennta- og menningarverkefnunum.
Þar erum við öll í forsætisnefndinni,
þvert á allar flokkslínur, mjög ósam-
mála þeirri stefnu, því að í gegnum
menntaverkefnin og menningarverk-
efnin eru sterkustu tengslin milli íbú-
anna á Norðurlöndum, ekki síst
æskulýðsins. Um leið og við veikjum
það starf, veikjum við norræna sam-
kennd.“
Á þessu þingi náðist að koma í veg
fyrir skerðingu á framlögum ríkjanna
til menningar- og menntamála, en
Oddný segir að það hafi tekist með
því að færa til fjármagn sem heims-
faraldurinn hafi komið í veg fyrir að
nýttist. „Eftir stendur að enn eru
áform um niðurskurð á árinu 2023,
sem við þurfum að standa áfram sam-
an gegn.“
Norðurlöndin efst á öllum listum
Spurð um styrk norræns samstarfs
segir Oddný að Norðurlöndin séu efst
á öllum listum yfir hvar best sé að
búa. „Norræna módelið um velferð
fyrir alla, um heilbrigðan vinnumark-
að, um ábyrga hagstjórn, hefur stað-
ist tímans tönn og pólitíska ágjöf, og
það skiptir okkur miklu máli að
standa saman vörð um það og gildi
þess. Það er jafnrétti, það eru mann-
réttindamál og mannúðin og mildin
sem einkenna þessi lönd.“
Oddný segir að það allra mikilvæg-
asta í samstarfinu sé traustið milli
íbúa landanna. „Það gerir okkur
kleift að ná bestum árangri í sam-
skiptum. Það er horft til Norður-
landanna sem heild í alþjóðlegu sam-
starfi um allan heim. Það er litið til
okkar, og við erum sterkari saman,
ég er sannfærð um það og við eigum
að rækta norrænt samstarf miklu
betur en við höfum gert. Annað væri
bara skaði fyrir samfélagið,“ segir
Oddný að lokum.
Gott að geta hist og rætt mál
Steinunn Þóra Árnadóttir, þing-
maður VG og fulltrúi Íslands í flokka-
hópi norrænna vinstri grænna, tekur
undir með Oddnýju um mikilvægi
þess að hittast í eigin persónu. „Mað-
ur finnur það á öllum, bæði félögun-
um í eigin flokkahópi, en ekki síður
hinum sem maður hefur starfað með í
nefndum og er ekki endilega sam-
mála pólitískt, hvað öllum finnst það
gott að geta hist og geta bæði rætt og
tekist á um málin bæði formlega og
óformlega,“ segir Steinunn Þóra.
Hún segir að flokkahópur vinstri
grænna sé ánægður með margt á
þinginu, en í gær var t.d. samþykkt
tillaga frá hópnum um aukið samstarf
Norðurlandanna í bóluefnamálum.
„Hún fékk mjög breiða samstöðu í
nefndinni, þótt hún væri afgreidd
með breytingartillögum,“ segir Stein-
unn, en sú tillaga var samþykkt með
traustum meirihluta á sjálfu þinginu.
Þá hafi flokkahópurinn lagt fram
tillögu um farmflutninga með lestum.
„Því það skiptir máli í þessari grænu
umræðu að hafa flutningana einnig á
sem umhverfisvænstan hátt, en lest-
arsamgöngum á Norðurlöndum hef-
ur farið aftur, því aðrir samgöngu-
mátar, t.d. flug, hafa unnið á.“
Steinunn Þóra nefnir sem dæmi að
fyrir nokkrum árum hafi flokkahóp-
urinn staðið að tillögu sem fékkst
samþykkt um að auka aðgengi að
næturlestum á milli höfuðborga
þeirra ríkja sem tengist á meginland-
inu. „Þar sem það er hægt, þá séu
greiðar samgöngur með lestunum.“
Steinunn Þóra segir að sér finnist
jákvætt hvað umhverfismál séu nú
komin á odd umræðunnar, þar sem
VG hafi frá upphafi talað fyrir auk-
inni áherslu á umhverfismál.
„Og mér finnst það jákvætt að ráð-
herranefndin hefur nú sett fram þá
framtíðarsýn, að Norðurlöndin eigi
að vera grænasta, sjálfbærasta og
samþættasta svæði heims árið 2030,
en þá er spurning hvernig því verður
hrint í framkvæmd.“
Steinunn Þóra vísar þar til deiln-
anna um fjárhagsáætlunina. „Fram-
lög þjóðríkjanna sem taka þátt í
þessu samstarfi hafa staðið í stað, og
voru m.a.s. skorin niður fyrir um ára-
tug.“ Steinunn Þóra nefnir þar áform
um að færa fjármagn frá mennta- og
menningarmálum yfir í umhverfis-
málin. „Við Norðurlandaráðsmegin
höfum lagt áherslu á að það þurfi að
vera meira samtal þarna, því við vilj-
um ná árangri í grænu málunum, en
það má ekki verða á kostnað menn-
ingarsamstarfsins. Það þarf því að
vinna þetta betur, því við teljum að
menningarmálin og umhverfismálin
geti verið heild sem vinnur saman.“
Steinunn Þóra segir að hún hafi
spurt norrænu samstarfsráðherrana
í fyrradag hvort ekki væri hægt að
passa að það sem kallað er „det
folkelige“ á skandinavísku héldi
áfram.
„Því þessi þátttaka almennings í
samstarfinu er það sem fólk tekur
mest eftir, við getum nefnt Nordjobb
fyrir unga fólkið eða norrænu húsin.
Við verðum að halda vel utan um
það, því ég held að menningin sé lím-
ið í norrænu samstarfi, og það þarf
að halda til þess að ná sameig-
inlegum árangri í grænu málunum.
Þetta eru því ekki andstæður, heldur
þarf bara að útfæra þetta betur.“
Eigum að rækta samstarfið betur
- Þingi Norðurlandaráðs var slitið í gær - Skipti miklu máli að geta haldið þingið - Gert upp við
viðbrögð norrænu ríkjanna í faraldrinum - Tekist á um fjármál til mennta- og menningarmála
Ljósmynd/Norðurlandaráð
Umræður Þing Norðurlandaráðs var vel heppnað að mati þingmanna og þótti þeim gott að geta loksins hist.
Oddný G.
Harðardóttir
Steinunn Þóra
Árnadóttir
11
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. NÓVEMBER 2021
Sölustaðir: Apótek, heilsuhús og heilsuhillur stórmarkaða Nánar á artasan.is
Hair Volume
– fyrir líflegra hár
Hair Volume inniheldur jurtir og
bætiefni sem sem eru mikilvæg fyrir
hárið og getur gert það
líflegra og fallegra.
Aldrei haft jafn þykkt hár
„Eftir að hafa misst allt hár í krabbameinsmeðferð byrjaði ég að
taka Hair Volume frá New Nordic. Eftir 4-6 vikur fór hárið að vaxa
aftur og ég hef aldrei haft jafnt löng augnhár, þykkar augabrúnir
og þykkt hár eins og núna og það hvarflar ekki að mér að hætta að
taka þetta bætiefni inn.“ Edda Dungal
Norðurlandaráðsþing