Morgunblaðið - 08.11.2021, Blaðsíða 28
Í upphafi var gert ráð fyrir að hús-
mæðraskóli fyrir Borgfirðinga yrði
byggður í Reykholti og starfaði í
tengslum við héraðsskólann. Sú stað-
setning rataði inn í lög um hús-
mæðrafræðslu í sveitum.
Samband borgfirskra kvenna
beitti sér fyrir stofnun skólans og
skipaði undirbúningsnefnd undir for-
ystu Geirlaugar
Jónsdóttur í
Borgarnesi.
Nefndin stóð fyr-
ir fjáröflun og
vann að staðar-
vali. Konurnar
komust fljótlega
að þeirri niður-
stöðu að Reykholt
væri ekki heppi-
legur staður og studdist í því efni
ekki síst við álit Ungmenna-
sambands Borgarfjarðar sem taldi
að slíkt sambýli við stóran héraðs-
skóla væri líklegt til að glepja um
fyrir nemendum. Mikill áhugi var
einnig á Akranesi að skólinn yrði
reistur þar og hétu Haraldur Böðv-
arsson útgerðarmaður og Ingunn
Sveinsdóttir, kona hans, góðum fjár-
framlögum, ef honum yrði valinn
staður þar. Þrátt fyrir það var Akra-
nesi ýtt út af borðinu þar sem meiri-
hluti kvenfélagskvenna vildi eindreg-
ið að skólinn yrði byggður í sveit.
Hvaðan er fallegasta útsýnið?
Fleiri buðu fram land og fjár-
styrki, ef skólanum yrði valinn stað-
ur í þeirra sveitarfélagi. Vildu skil-
yrða fjárframlög því hvar skólinn
yrði reistur. Stafholtstungnahreppur
bauð Veggjalaug (Varmaland) fram
sem skólastað, kvenfélagið 19. júní í
Andakílshreppi bauð fram Þórdísar-
holt í Bæjarsveit og síðar bættist
Lundareykjadalshreppur við og
bauð fram lóð í Brautartungu. Fór
fram opin samkeppni á milli sveitar-
félaganna þriggja um skólastaðinn.
Við eigendaskipti jarðarinnar
Stafholtsveggja vorið 1941 eignaðist
Stafholtstungnahreppur landspildu
við hverinn Veggjalaug. Með fylgdu
hitaréttindi fyrir opinberar bygg-
ingar sem þar kynnu að verða reist-
ar. Jósef Björnsson, oddviti á Svarf-
hóli, bauðst þegar í stað til að gefa
þetta land undir húsmæðraskóla.
Hreppsnefndin tók fram að hún
myndi að auki beita sér fyrir því að
hreppurinn legði fram álitlega fjár-
upphæð til skólans. Hreppsnefndin
hafði í byrjun ársins lýst kostum
Stafholtsveggjahvers í þessu skyni
og talið hann langbesta kostinn:
„Landslag er fegurst þarna og mætti
þó laga það mikið með litlum kostn-
aði, til dæmis með skógrækt í brekk-
unni fyrir ofan. Á hálsinum ör-
skammt fyrir innan hverinn er einn
víðsýnasti staður héraðsins, sjást
þaðan 60 bæir. Þegar búið verður að
leggja veg eftir Laugamýrinni, um
það til tvo kílómetra, eru samgöngur
þarna betri en nokkurs staðar ann-
ars staðar í héraðinu á heitum stað.
Hverinn er hinn ákjósanlegasti, einn
þeirra vatnsmestu í héraðinu, geng-
ur sennilega næst Deildartunguhver,
sjóðandi heitur og má nota jafnt til
suðu og hitunar. Miklar líkur benda
til að með vatninu frá honum megi
framleiða rafurmagn en það er vitan-
lega órannsakað mál.“
Oddviti Lundarreykjadalshrepps
bauð land í Brautartungu ásamt rétt-
indum til hitaveitu, vatnsveitu, raf-
veitu og innlends byggingarefnis, allt
án endurgjalds. Jarðhiti er mikill í
Brautartungu og oddvitinn sagði að
hússtæði væri hlýtt og sérstaklega
gott og umhverfið þurrt og þokka-
legt. Samgöngur við héraðið ágætar
og sérstaklega nefnt að með Uxa-
hryggjavegi myndi staðurinn tengj-
ast Suðurlandi betur á næstu árum.
Eigendur Varmalækjar í Anda-
kílshreppi, Jón og Sigurður Jak-
obssynir, staðfestu munnlegt loforð
sitt til kvenfélagsins 19. júní um að
gefa byggingar- og ræktunarlóð
undir væntanlegan húsmæðraskóla
ásamt jarðhita. Hreppsnefnd Anda-
kílshrepps skoðaði staðinn, svokallað
Þórdísarholt, og mælti eindregið
með staðsetningu þar. Lýstu hrepps-
nefndarmenn kostum hans fjálglega,
meðal annars svo: „Af Þórdísarholti
er óvenjulega víðsýnt. Þaðan sjást öll
fegurstu fjöll héraðsins, Snæfellsjök-
ull, Fagraskógarfjall, Grímsstaða-
múli, Vikrafjall, Baula, Eiríksjökull,
Okið, Langjökull, Skarðsheiði og
Hafnarfjöll, auk annarra minni fjalla.
Hvítá og Grímsá sjást liðast um hér-
aðið og falla í Borgarfjörð. Blunds-
vatn liggur niðri og prýðir og útsýn-
ið. [...] Frá Þórdísarholti sjást bæir
frá flestum byggðum Borgarfjarðar,
ofan Skarðsheiðar.“ Þá hét hrepps-
nefndin 10 þúsund krónum til hús-
mæðraskóla á þessum stað. Sjálfsagt
má líta á lýsingu á útsýninu sem svar
við lýsingu á útsýni Stafholts-
tungnamanna frá Hverahnúk. Fé-
lagsheimilið Brún var síðar byggt á
Þórdísarholti.
Sérfræðingar kallaðir til
Umræðan einskorðaðist við þessa
þrjá staði þegar leið á árið 1941 og
kom fram á 1942. Allir eru þeir með
jarðhita og fengjust að gjöf. Hús-
mæðraskólanefndin óskaði eftir út-
tektum og álitum ýmissa sérfræð-
inga við staðarvalið, út frá ýmsum
forsendum, meðal annars skipulags-
málum, möguleikum til rafmagns-
framleiðslu og ræktunar enda gert
ráð fyrir búrekstri fyrir skólann.
Niðurstöður sérfræðinganna urðu á
ýmsan veg og ekki afgerandi.
Guðjón Samúelsson, húsameistari
ríkisins, heimsótti Veggjalaug og
Þórdísarholt til að skoða umhverfið í
sambandi við uppdrátt skólahúss.
Forsætisráðherra hafði tekið vel í að
láta gera teikningar af skólahúsi og
fjárhagsáætlun. Hann tók þó dauft í
þá hugmynd að hægt yrði að hefjast
handa um byggingu skólans á næst-
unni, eða á meðan stríðið stæði yfir.
Eftir miklar umræður á fundi í
húsmæðraskólanefndinni 24. apríl
1942 var gengið til atkvæða. Ákveðið
var fyrir fram að ef enginn einn stað-
ur fengi meirihluta yrðu greidd at-
kvæði að nýju. Veggjalaug fékk fjög-
ur atkvæði, Þórdísarholt tvö,
Brautartunga eitt og Reykholt eitt.
Veggjalaug fékk sem sagt helming
atkvæða en ekki hreinan meirihluta.
Í seinni atkvæðagreiðslu fengu
Veggjalaug og Þórdísarholt jafn
mörg atkvæði og í þeirri fyrri en eitt
atkvæði var autt og einn fundar-
maður greiddi ekki atkvæði. Hafði
Veggjalaug þar með hlotið meiri-
hluta greiddra atkvæða. Var ríkis-
stjórninni send rökstudd tillaga um
þá niðurstöðu.
Klappað fyrir árangri
Geirlaug Jónsdóttir kynnti nið-
urstöðu nefndarinnar á aðalfundi
SBK í lok maímánaðar árið 1942.
Upplýsti hún að búið væri að breyta
húsmæðraskólalögunum á Alþingi
og Veggjalaug sett sem skólastaður í
Borgarfirði í stað Reykholts. Fjár-
öflun hafði gengið vel. Sýslunefndir
Mýra- og Borgarfjarðarsýslu höfðu
lofað 15 þúsund krónum hvor nefnd,
Ungmennasamband Borgarfjarðar
fimm þúsund kr. og Kaupfélag Borg-
firðinga 10 þúsund kr., auk þess sem
búist var við að fjáröflun SBK myndi
skila 20 þúsund krónum þegar happ-
drætti lyki.
Aðalfundarfulltrúar voru ánægðir
með starf nefndarinnar og þökkuðu
henni með því að standa upp í heið-
ursskyni undir dynjandi lófataki.
Húsmæðraskóli Borgfirðinga reis
á Varmalandi og var tekinn í notkun
haustið 1946. Hann var rekinn af ríki
og Mýra- og Borgarfjarðarsýslum og
síðar ríkinu einu, á meðan næg að-
sókn var. Skólanum var slitið í síð-
asta skipti vorið 1986. Í húsnæði hús-
mæðraskólans er nú rekið glæsilegt
sveitahótel undir heitinu Hótel
Varmaland.
Húsmæðraskóla valinn staður við Veggjalaug
Ljósmynd/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Skólastarf Nemendur úr saumahópi í vefstofu húsmæðraskólans með Helgu Vilhjálmsdóttur handavinnukennara. Helga heldur á Jósef Rafnssyni.
Ljósmynd/Bjarni Helgason
Húsmæðraskóli Borgfirðinga Skólahúsið var nokkurn veginn tilbúið þegar skólastarf hófst haustið 1946 en eftir var að ganga frá umhverfi þess.
Bókarkafli | Nokkrir staðir voru skoðaðir þegar Húsmæðraskóla Borgfirðinga var valinn staður í byrjun fimmta áratugs síðustu
aldar. Landsvæði við hverinn Veggjalaug í Stafholtstungum varð fyrir valinu, síðar nefnt Varmaland. Saga húsmæðraskólans, barna-
skólans, garðyrkjunnar á Laugalandi og önnur starfsemi á staðnum er rakin í nýútkominni bók Helga Bjarnasonar, Við Veggjalaug.
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. NÓVEMBER 2021