Morgunblaðið - 02.12.2021, Blaðsíða 20
SVIÐSLJÓS
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Þau tíðindi bárust landsmönnum í
gær að veitingastaðnum Eldsmiðj-
unni yrði lokað eftir áramót. Eld-
smiðjan hefur verið starfrækt í 35
ár, frá 1986, og olli straumhvörfum í
skyndibitamenningu Reykjavíkur á
sínum tíma.
Ekki eru nema um fjórir áratugir
síðan Íslendingar kynntust pítsu-
menningu af einhverju viti. Frosnar
pítsur fengust í búðum um miðjan
áttunda áratuginn og í kjölfarið setti
veitingastaðurinn Halti haninn píts-
ur á matseðilinn. Það var þó ekki
fyrr en veitingastaðurinn Hornið
var opnaður árið 1979 sem alvöru-
línur voru lagðar í þessum fræðum
hér á landi. Árið eftir var svo Pizza-
húsið opnað á Grensásvegi en það
mun hafa verið fyrsti skyndibita-
staðurinn sem sérhæfði sig í pítsum.
Alger sprengja varð svo með til-
komu Eldsmiðjunnar árið 1986 og í
kjölfarið var fjöldi pítsustaða opn-
aður. Mikið var fjallað um þennan
nýja veitingastað við Bragagötu í
fjölmiðlum og þar kom fram að píts-
urnar væru bakaðar við opinn eld í
ítölskum pítsuofni „og afgreiddar í
handhægum umbúðum sem auð-
velda viðskiptavinum að taka þær
með sér heim“. Þá þótti vissara að
taka það fram að á Eldsmiðjunni
væru eingöngu seldar pítsur sem
búnar væru til á staðnum og að allt
hráefni væri ferskt, ekki væri not-
aður dósamatur í álegg.
Uppgangur og hrun
„Hægt er að fá 10 tegundir af
pítsum í Eldsmiðjunni og síðan er
einnig boðið upp á tíu tegundir af
áleggi. Svokölluð grunnpítsa kostar
235 kr. og síðan er hægt að bæta
áleggi á hana sem kostar frá 15-58
krónur. Ódýrast er spælegg en ekki
mun vera algengt að fólk panti sér
pítsu með spæleggi. Það er einnig
boðið upp á þistilhjörtu og capers
ofan á pítsurnar sem mun ekki vera
algengt,“ sagði í umfjöllun DV í
september 1986. Þar var þess jafn-
framt getið að þjónusta Eldsmiðj-
unnar miðaðist að mestu við að fólk
tæki pítsurnar með sér heim og því
hefðu sérstakar umbúðir verið
hannaðar sem gerðu það að verkum
að pítsurnar „gætu andað“.
Eins og áður sagði ýttu vinsældir
Eldsmiðjunnar af stað flóðbylgju og
nýir pítsustaðir spruttu víða upp. Í
umfjöllun í Morgunblaðinu í júlí árið
1988 var talað um að svo virtist sem
pítsufaraldur geisaði á Íslandi.
„Veitingastaðir sem hafa yfir pizzu-
ofnum að ráða eru nú orðnir nærri
tuttugu í Reykjavík og fjölgar enn,“
sagði í umfjöllun blaðsins. Meðal
pítsustaða sem tóku þátt í „faraldr-
inum“ voru Biggabar í Tryggva-
götu, Duus-hús í Fischersundi, El
Sombrero við Laugaveg, Marinós
pizza á Njálsgötu, Nes-pizza við
Austurströnd á Seltjarnarnesi, Sel-
bitinn á Eiðistorgi og Videomeist-
arinn við Seljabraut. Af þeim stöð-
um sem þarna voru upp taldir eru
aðeins þrír enn í rekstri auk Eld-
smiðjunnar sem brátt kveður. Það
eru Hornið, Ítalía og Pizza Hut.
Ekki leist öllum á blikuna við
þessar markaðsaðstæður árið 1988.
„Mér líst ekki vel á það sem ég sé
gerast á markaðnum hér í dag, það
minnir mig um of á uppganginn og
hrunið á myndbandaleigumark-
aðnum fyrir nokkrum árum,“ sagði
Elías Snorrason, eigandi Eldsmiðj-
unnar, við Morgunblaðið af þessu
tilefni. Hann var þó sáttur við við-
tökurnar sem Eldsmiðjan hafði
fengið og sagði að salan hefði fljót-
lega sprengt allar hans fjárhags-
áætlanir eftir að staðurinn var opn-
aður. Svo góðar voru viðtökurnar að
þegar Kringlan var opnuð í ágúst
1987 var Eldsmiðjan einn fimm mat-
sölustaða á veitingatorgi hennar. Þá
var heimsendingarþjónusta opnuð
hinum megin við Bragagötuna.
Kaup á pítsum voru orðin hluti af
breyttum lífsstíl Íslendinga. „Eitt af
því sem er „in“ núna er að kaupa
tilbúinn kvöldmat, einkum um helg-
ar. Þá er ekki sama hvar verslað er.
Allir sem fylgjast eitthvað með bæj-
arlífinu kaupa að sjálfsögðu pizzu í
Eldsmiðjunni. Og vita hvar Eld-
smiðjan er,“ sagði til að mynda í
Helgarpóstinum í september 1987.
Ætluðu að opna tíu staði
Tímamót urðu í rekstri Eldsmiðj-
unnar árið 2007 þegar veitingarisinn
FoodCo keypti þennan litla en vin-
sæla veitingastað sem vart annaði
eftirspurn í litla húsnæðinu við
Bragagötu. FoodCo boðaði stórsókn
og tilkynnti að allt að tíu nýir Eld-
smiðjustaðir yrðu opnaðir á höfuð-
borgarsvæðinu. Þau markmið náð-
ust aldrei en þegar mest lét voru
fjórir stórir staðir í rekstri auk lítils
staðar á bensínstöð N1 við Ártúns-
höfða. Því útibúi var lokað vorið
2019 eftir þriggja ára rekstur. Árið
2020 var Eldsmiðjunni á Dalvegi í
Kópavogi lokað og fljótlega í kjöl-
farið var Eldsmiðjunni á Laugavegi
lokað. Þá tilkynntu Gleðipinnar,
sem urðu til með sameiningu Food-
Co og veitingastaða í eigu Jóhann-
esar Ásbjörnssonar og fleiri, að
staðnum á Bragagötu yrði lokað
tímabundið og því borið við að fækk-
un ferðamanna hefði sett strik í
reikninginn við reksturinn.
Upprunalegi staðurinn við Braga-
götu var aldrei opnaður aftur og því
stóð Eldsmiðjan við Suðurlands-
braut ein eftir. Stefnt er að því að
baka þar ofan í áhugasama fram á
næsta ár þegar annar pítsustaður
verður opnaður í húsnæðinu.
Hrinti af stað faraldri fyrir 35 árum
- Eldsmiðjunni verður brátt lokað eftir 35 ára starfsemi - Brautryðjandi í kaupum Íslendinga á til-
búnum kvöldmat - Enginn dósamatur í álegg og pítsurnar „gátu andað“ - Aukin umsvif misráðin
Morgunblaðið/Unnur Karen
Búið spil Eldsmiðjan við Suðurlandsbraut verður opin fram á nýtt ár. Nýr staður tekur þar við næsta vor.
Frumkvöðull Morgunblaðið fjallaði um opnun Eldsmiðjunnar í ágúst 1986.Heimsent Alvörubíll til verksins.Upphaf Eldsmiðjan við Bragagötu.
20 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. DESEMBER 2021
malbikstodin.is | 864 1220 | Flugumýri 26 | Mosfellsbær
VIÐ ERUMSÉRFRÆÐINGAR Í
MALBIKUN
Malbikunarframkvæmdir eru okkar sérsvið. Við tökum að
okkur malbikun á bílastæðum, stígum, götum, vegum og hvar
sem þarf að malbika. Við tryggjum fyrirtaks þjónustu sem
svarar ýtrustu gæða- og öryggiskröfum. Hafðu samband.
withMemory
Foam
KRINGLAN - SKÓR.IS
-
SKECHERS