Morgunblaðið - 02.12.2021, Side 53
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Umhverfisvæn Guðríður Gunnlaugsdóttir stofnaði Barnaloppuna þann 12.
maí árið 2018. Frá þeim tíma má áætla að búðin, sem selur notaðan barna-
fatnað og dót, hafi sparað yfir 20 þúsund tonn í losun koltvíoxíðs (CO2).
Elínrós Líndal
elinros@mbl.is
„Við búum alltaf til jóladagatal með
alls konar jólatengdum viðburðum í
Barnaloppunni í desember. Þótt það
sé erfitt að segja til um úrvalið á til-
teknum tímapunkti í búðinni þá er
von á fallegum fatnaði á börnin fyrir
þá sem vilja styðja við hringrásar-
hagkerfið og kaupa það sem hefur
verið keypt af öðrum áður,“ sagði
Guðríður og útskýrir hvernig Barna-
loppan virkar.
„Í búðinni er mikið vöruúrval þar
sem finna má bæði fatnað og dót
fyrir börn. Við erum með bása sem
einstaklingar leigja út til að selja
vörur sem þeir eiga og vilja koma
áfram á aðra.
Vöruúrvalið breytist frá degi til
dags með nýjum leigjendum.“
Það eru að meðaltali 20 til 30 nýir
leigjendur í Barnaloppunni á degi
hverjum og samtals fjögur til fimm
þúsund endurnýttar vörur sem hægt
er að velja úr.
„Leigjendur eru duglegir að koma
við og fylla á básana sína eða skipta
út vörum og því er mikil endurnýjun
í gangi frá degi til dags,“ segir Guð-
ríður.
Allir eiga erindi í Barnaloppuna
Það er án efa spennandi að fylgj-
ast með því hvað leynist í pokum
þeirra sem eru að selja í Barnalopp-
unni.
„Eftir að við stækkuðum við okk-
ur í upphafi þessa árs þá bættust við
fleiri básar, í raun þriðjungi fleiri,
svo vöruúrvalið er meira í ár. Við er-
um alveg að verða fullbókuð fyrir
jólin og því vitum við að úrvalið
verður svakalegt eins og vanalega í
þeim 313 básum sem nú eru í búð-
inni. Það er líka gaman að sjá hvað
leigjendur eru orðnir sjóaðir í að
selja fyrir jólin og vita nákvæmlega
hvað selst vel og útbúa oft alls kyns
jólaþema í básunum. Í fyrra var
áberandi mikið af leikföngum til sölu
og voru jólasveinarnir duglegir að
kíkja til okkar og finna alls kyns
smádót. Við seldum einnig mikið af
spari- og jólalegum fatnaði. Þetta er
áhugaverð þróun og virkilega gaman
að sjá hversu margir kaupa end-
urnýttar vörur og gjafir fyrir jólin.“
Hvernig myndir þú lýsa við-
skiptavinum ykkar?
„Ég myndi segja að við værum
með alla flóruna af viðskiptavinum.
Okkar upplifun er sú að það séu allir
til í að endurnýta og/eða spara pen-
ing, alveg sama hvaða titil viðkom-
andi hefur í þjóðfélaginu, hvort sem
það er heimsfræg söngkona, ein-
stæður faðir, amma, flóttamaður,
unglingur eða hver sem er. Við for-
eldrar eigum það sameiginlegt að
eiga börn sem vaxa hratt úr grasi og
því frábær kostur að kaup allt á einu
bretti fyrir börnin hjá okkur og end-
urnýta í leiðinni á skemmtilegan
hátt.“
Engin skömm fólgin
í að gefa notaða gjöf
Af hverju ætti barnafólk að koma
til ykkar að versla um jólin?
„Ef við hugsum um hvert við
stefnum í loftslags- og umhverf-
ismálum þá er klárlega málið að
koma til okkar og taka þannig bein-
an þátt í að sporna við þessari
svakalegu neyslu sem fer fram
sérstaklega yfir hátíðarnar. Jörðin
er bókstaklega að fyllast af rusli og
þar kemur að við getum ekki sent
ruslið okkar úr landi til urðunar. Ég
verð samt að segja að það er frá-
bært að sjá hvað kauphegðun lands-
manna hefur breyst síðustu ár og
hvað endurnýting er orðin stór hluti
af íslensku samfélagi.“
Allir sem versla og selja hjá
Barnaloppunni eru að taka þátt í
hringrásarhagkerfinu að hennar
sögn.
„Því eru fyrirtæki eins og okkar
gríðarlega mikilvæg. Í hvert skipti
sem neytendur velja að kaupa not-
aða vöru draga þeir beint úr fram-
leiðsluþörf á nýrri vöru og nýta
þannig hráefni jarðarinnar betur.
Á hverju ári hefur stórlega bæst
við verslun hjá okkur í kringum jól-
in og við vitum til þess að það er
orðið mun algengara að gefa og
þiggja notaðar gjafir og ekki bara
um jólin heldur almennt. Við-
skiptavinir okkar eru stoltir af því
að gefa gjafir úr versluninni, sem er
gaman að sjá. Fólk nýtir sér einnig
umhverfisvæna innpökkunarborðið
okkar.“
Fallegur rauður litur
vinsæll á jólunum
Eruð þið með mikið af merkja-
vörum eða meira vörur í einföldum
stíl fyrir börnin á jólunum?
„Við erum með mikið af alls kon-
ar merkjavöru hjá okkur allan árs-
ins hring og merkjavaran hefur
aukist með árunum. Það er alltaf
gaman að sjá nokkur nöfn inni í
flíkunum og það sjáum við mikið í
þessum gæðavörum sem koma inn.
Þannig vitum við að vörurnar eru
notaðar mörgum sinnum.“
Hvað er í tísku ef marka má vör-
urnar ykkar núna?
„Ég myndi segja að það væru
ljósir litatónar en svo yfir jólin
dökkna litirnir í barnafötunum. Þá
verða flíkur í rauðu, grænu og bláu
meira áberandi.“
Ástæðu þess að Guðríður stofnaði
Barnaloppuna má rekja til búsetu
hennar erlendis.
„Við fjölskyldan bjuggum í Dan-
mörku í tæp sjö ár og kynntumst
þar „loppe“-mörkuðum í alls konar
myndum. Okkur fannst fátt
skemmtilegra en að kíkja á loppe og
röltum oft endilanga Kaupmanna-
höfn í leit að flottum mörkuðum.
Við kynnumst svo Barnaloppunni í
Danmörku síðasta haustið okkar úti
árið 2017. Við prófuðum að selja
vörur þar í tvær vikur sem gekk
mjög vel. Eitt kvöldið þegar við vor-
um að hjóla heim eftir að hafa tekið
básinn okkar niður í Barnaloppunni
í Valby spyr maðurinn minn hvort
við ættum ekki bara að opna svona
verslun heima á Íslandi. Barnalopp-
an var opnuð 12. maí 2018 með
pomp og prakt. Fljótlega eftir sum-
arfrí varð fullbókað hjá okkur og
þannig hefur eftirspurnin verið til
dagsins í dag.“
Hafa sparað yfir 20.000 tonn í
losun koltvíoxíðs (CO2)
Fataiðnaðurinn hefur mikil áhrif
á heimsbyggðina og hefur samtal
um ábyrgð iðnaðarins og
hringrásarhagerfið átt sér stað víða.
„Það er mjög mikilvægt að við
gefum hlutunum framhaldslíf og
endurnýtum. Samkvæmt nýjustu
rannsóknum eru 8% af heildarlosun
koltvíoxíðs (CO2) á jörðinni til-
komin vegna textílneyslu og er hún
því ein mest mengandi atvinnugrein
á heimsvísu. Þetta er meiri losun en
millilandaflug og sjóflutningar til
samans. Það má því með sanni
segja að endurnýting, betri nýting
og endurvinnsla skipti gríðarlega
miklu máli í stóra samhenginu.
Margt smátt stuðlar að stórum
breytingum. Við teljum einnig
kauphegðun Íslendinga hafa breyst
töluvert eftir að við opnuðum þar
sem fleiri velja að kaupa notaðar
vörur en áður.“
Áttu börn sjálf og hvernig klæðir
þú þau upp á fyrir jólin?
„Já ég á tvær dætur, sem eru tólf
og sjö ára. Við kaupum 99% af
þeirra fatnaði í Barnaloppunni. Ég
keypti nú nýverið jóladressið á þá
yngri í Loppunni og svo fær sú eldri
að velja sér eitthvert fallegt dress
þar líka.
Annars finnst okkur jólanáttfötin
best og því ekki síður mikilvægt að
finna falleg náttföt á þær.“
Í lok ársins 2019 reiknuðu um-
hverfisverkfræðingar á vegum Eflu
út sparnað á kolefnissporum við að
versla í Barnaloppunni.
„Þessi rannsókn var byggð á töl-
fræðilegum upplýsingum á seldum
vörum og niðurstaðan var sú að
sparast hafa yfir 5.000 tonn af losun
koltvísýringsígilda út í umhverfið.
Það jafnast á við útblástur 2.500
bíla á einu ári. Þessar tölur jafn-
gilda einnig fullum klæðnaði á 80
þúsund íslensk börn, miðað við átta
flíkur og tvö leikföng á hvert barn.
Raunhæft er að ætla að þessi tala
hafi líklegast fjór- eða fimmfaldast
síðan þá með meiri innkaupum og
vakningu í samfélaginu.
Í dag áætlum við að Barnaloppan
hafi sparað yfir 20.000 tonn í losun
koltvíoxíðs (CO2).“
Gjafir sem
gleðja
umhverfið
Guðríður Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri
hvetur alla til að muna eftir umhverfinu á jólunum.
Hún segir úrvalið í Barnaloppunni mikið á jólunum
og þar megi finna fallegar gjafir í jólapakkann.
Kaupa allt notað Yngri dóttir Guðríðar hefur fengið jóladressið sitt í Barna-
loppunni en sú eldri á eftir að velja sitt dress. Það verður úr nægu að velja.
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. DESEMBER 2021
Trönuhrauni 8 – 565 2885 | Bíldshöfða 9 – 517 3900 | stod.is
Hnéhlífar
&spelkur
í miklu úrvali
Við veitum þér stuðning