Morgunblaðið - 30.12.2021, Blaðsíða 23
23
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. DESEMBER 2021
Á Íslandi er að
finna gnægð endur-
nýjanlegra orkulinda,
bæði vatnsafls og
jarðvarma. Þær hafa
haldið áfram að gefa
af sér orku um ára-
tugaskeið og nýting
þeirra hefur í öllum
aðalatriðum reynst
sjálfbær, þ.e. að ekk-
ert bendir til annars
en að næstu kynslóðir
muni njóta þeirra á svipað og við
höfum gert.
Orkunýtingin hefur skipt gríð-
arlegu máli við þróun íslensks
samfélags; auk orkufyrirtækjanna
sjálfra, eru rekin öflug fyrirtæki
sem nýta orkuna, gróðurhúsaáhrif
nýtingarinnar eru hverfandi, alls
kyns fyrirtæki í tækni, ráðgjöf,
sölu og þjónustu hafa sprottið
upp; mikill fjöldi fólks byggir af-
komu sína á störfum þessu tengd-
um og opinber rekst-
ur og þjónusta nýtur
góðs af skattgreiðsl-
unum.
Orkunýtingin hefur
þýtt að hér á landi er
losun gróðurhúsa-
lofttegunda miðað við
mannfjölda mikil en
ef miðað er við losun í
samhengi við lands-
framleiðslu hefur hún
dregist saman jafnt
og þétt undanfarna
áratugi. Þá þarf ætíð
að hafa í huga að
loftslagsspor orkuframleiðslunnar
er minna hér en víðast hvar í
heiminum.
Við stöndum frammi fyrir því að
vilja halda áfram að auka orku-
framleiðsluna bæði til að hraða
orkuskiptum innanlands og hugs-
anlega að framleiða orkuberandi
eldsneyti til útflutnings og draga
þannig úr losun gróðurhúsa-
lofttegunda. Einnig getur þetta
greitt fyrir annarri nýrri starf-
semi hér á landi hvort sem eru
gagnaver, fiskeldi á landi eða
ferðaþjónusta.
Lagaumhverfið hefur hins vegar
reynst snúið við að eiga. Ný nátt-
úruverndarlög frá árinu 2013 tak-
marka mjög allar framkvæmdir á
friðlýstum svæðum og banna þær
í þjóðgörðum nema þær sem
tengjast þjóðgarðinum sjálfum.
Skipulagslög, ný lög um mat á
umhverfisáhrifum áætlana og
framkvæmda og fleiri lagabálkar
gera að verkum að allar nýjar
virkjanir (og raflínur) þurfa að
fara í gegnum langt og flókið ferli
þar sem sveitarstjórnir og al-
menningur hefur mikið um að
segja hvort framkvæmdin geti
orðið að veruleika. Þessi lög eru
þó að mestu svipuð og almennt
gerist í Evrópu og hafa þróast
svipað og þar.
Sérstök eru þó lög um ramma-
áæætlun þar sem virkjanakostir
eru metnir og þeim raðað í vernd-
arflokk, biðflokk og nýtingarflokk.
Fyrstu árin var rammaáætlun á
sameiginlegu forræði iðnaðarráðu-
neytis og umhverfisráðuneytis en
með lögum frá 2011 var forræðið
fært á hendur umhverfis- og auð-
lindaráðuneytis. Í kjölfarið hefur
verið lögð megináhersla á vernd
náttúrunnar og hugsanleg nei-
kvæð umhverfisáhrif en mun
minna er lagt upp úr samfélags-
legum og efnahagslegum áhrifum
virkjana. Síðasta rammaáætlun
(önnur) var lögð fram af iðnaðar-
ráðherra og samþykkt á Alþingi
árið 2013 en vinna við hana hafði
staðið frá árinu 2004. Tillaga að
þriðju rammááætlun var tilbúin
2017 og sú fjórða er langt komin.
Þriðja áætlunin hefur ekki hlotið
afgreiðslu Alþingis og óvíst hvað
verður um þá fjórðu. Það verður
að muna að þegar samþykktir
hafa verið virkjanakostir í ramma-
áætlun eiga þeir eftir að fara í
gegnum ferlið sem lýst er í máls-
greininni hér að ofan.
Það blasir við að lagaumhverfi
nýrra virkjana er orðið allt of
flókið og að nauðsynlegt er að
endurskoða það. Fyrsta verkefnið
hlýtur að vera að endurmeta ferlið
við rammaáætlun meðal annars
með hliðsjón af lagabreytingum
sem átt hafa sér stað frá því lögin
um verndar- og orkunýtingar-
áætlun voru samþykkt.
Nýting endurnýjanlegra orku-
linda dregur úr losun og stuðlar
að sjálfbærri þróun íslensks sam-
félags og verður að taka mið af
efnahags- og félagslegum þörfum
okkar og komandi kynslóða ekki
síður en náttúru- og umhverfis-
vernd.
Eftir Halldór Benja-
mín Þorbergsson » Það blasir við að
lagaumhverfi nýrra
virkjana er orðið allt of
flókið og að nauðsynlegt
er að endurskoða það.
Halldór Benjamín
Þorbergsson
Höfundur er framkvæmdastjóri
Samtaka atvinnulífsins.
Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda
Hált á svellinu Skautasvell hafa víða verið sett upp fyrir jólin. Nova-svellið á Ingólfstorgi er mjög vinsælt en það verður áfram opið inn í nýtt ár, eða fram á sunnudagskvöld.
Ómar Óskarsson