Morgunblaðið - 24.02.2022, Blaðsíða 48
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Ég hleyp nefnist einleikur sem frum-
sýndur verður í dag, 24. febrúar, í
Borgarleikhúsinu og það mjög svo
óvenjulegur einleikur því leikarinn
verður á hlaupum á hlaupabretti nær
allan tímann, í eina og hálfa klukku-
stund. Leikarinn er Gísli Örn Garð-
arsson sem áður hefur tekist á við
líkamlega erfið hlutverk, m.a. í Róm-
eó og Júlíu og Hamskiptunum, en þó
aldrei verið á hlaupum heila sýningu.
Leikstjóri sýningarinnar er Harpa
Arnardóttir og fjallar verkið um
karlmann í Reykjavík sem byrjar að
hlaupa eftir að hafa misst barn.
„Hann hleypur og hleypur og getur
ekki hætt. Hann getur ekki höndlað
sorgina með öðrum hætti, á hlaup-
unum finnst honum hann vera léttur,
frjáls og sterkur. Þannig getur hann
tjáð sig um missinn, ranglætið og
varnarleysið sem hrjáir hann,“ segir
á vef Borgarleikhússins en verkið er
upphaflega danskt, skrifað af Line
Mørkeby sem mun vera eitt fremsta
leikskáld Danmerkur. Textinn í
verkinu er sagður rytmískur, knapp-
ur og tilfinningaríkur og ferðalagið
óvenjulegt, átakanlegt og heillandi í
senn.
Reynsla dansks blaðamanns
Gísli átti hugmyndina að því að
verkið yrði sett upp hér á landi en
segist þó aldrei hafa séð það á sviði,
aðeins heyrt söguna að baki því.
„Danskur blaðamaður sem vinnur
hjá Politiken verður fyrir þessum
barnsmissi, skrifar um það bók og úr
henni verður þessi leikgerð,“ segir
Gísli. Blaðamaðurinn, Anders Leg-
arth Schmidt, tókst á við missinn
með hlaupum, líkt og maðurinn í
verkinu, og segir Gísli ekki svo óal-
gengt að fólk fari að hlaupa til að
vinna úr áföllum. „Hann segir að sex
tímum eftir missinn hafi hann verið
kominn út að hlaupa,“ segir Gísli frá.
Hann segir verkið líka nokkurs
konar óð til líkamans, sýna hversu
öflugur líkaminn sé og standi undir
okkur þegar mesta svartnættið sæki
á. „Þetta er mjög marglaga verk og
vel unnin leikgerð,“ segir Gísli og að í
verkinu sé m.a. komið inn á nokkuð
sem hlauparar þekki vel, að þegar
hugurinn verði frjáls fylgi því ákveð-
ið „kick“. Gísli segist ekki í hópi
hlaupara og hafa lítið verið fyrir
hlaup um ævina, þótt þau frekar leið-
inleg. En hlauparar þekki vel til
þessarar baráttu við hugann og leit-
ist við að komast í ákveðið ástand
þannig að hugurinn beri þá hærra.
Mikil áskorun
–Er þetta fyrsti einleikurinn sem
þú leikur í?
„Það má eiginlega segja það, já.
Þegar ég var að útskrifaðist lék ég í
verki með Vesturporti sem hét
Herra maður en þá var Hildur
Guðna með mér á sviðinu að spila á
selló. Síðan þá hefur hún unnið Ósk-
arinn en ég er enn þá að gera ein-
leik,“ segir Gísli og hlær.
–Það er dálítið langt síðan þú lékst
síðast á sviði. Var Elly síðasta verkið
sem þú lékst í í leikhúsi?
Gísli hugsar sig um. „Ég held að
það hafi hreinlega verið á Englandi
þegar ég var í leikriti sem hét Don
Juan. Ég held það, ég hoppaði inn í
Elly og eitthvað svoleiðis en hef ekki
leikið undir leikstjórn einhvers ann-
ars í háa herrans tíð,“ svarar hann.
–Það má þá segja að þetta sé þre-
föld áskorun fyrir þig: að snúa aftur
á svið eftir langt hlé, leika í einleik og
hlaupa allan tímann …
„Já, þetta er algjört rugl,“ svarar
Gísli og hlær og tekur undir með
blaðamanni að þetta sé dálítið galið.
„Maður velur sér ekki alltaf auðveld-
ustu leiðina og það er kannski líka
áskorunin í þessu sem höfðar til mín,
þetta er allt ógeðslega erfitt og vand-
meðfarið og maður óttast þetta á
mörgum „levelum“ að fara inn í þetta
og það kannski ýtir á mann.“
Verbúð og Covid töfðu hlaup
Gísli er spurður að því hvort hann
sé virkilega á hlaupum allan tímann í
verkinu.
„Ja, sko, að einhverju leyti. Auð-
vitað er alls konar blæbrigðamunur á
því en þetta hverfist samt í kringum
það,“ svarar hann. Hann sé vissulega
á brettinu allan tímann, í um 90 mín-
útur. Brettið sýnir þó ekki kílómetr-
ana sem hlaupnir eru, að sögn Gísla,
þar sem það er knúið áfram af hlaup-
aranum, ólíkt þeim rafstýrðu sem
fólk notar í líkamsræktarstöðvum.
„Það leit einhvern veginn best út og
svo var mér sagt eftir á að það væri
30-40% erfiðara að hlaupa á þannig
bretti,“ segir Gísli og hlær. Í hverri
sýningu muni hann hlaupa um 10 til
12 kílómetra, takk fyrir.
–Þú hefur þá væntanlega verið að
æfa þig að hlaupa í nokkra mánuði?
„Ég missti af þeim glugga,“ svarar
Gísli kíminn. Hann hafi vissulega
ætlað að undirbúa sig með hlaupum í
nokkra mánuði fyrir sýningu en Ver-
búðin hafi tekið mun meiri tíma frá
honum en hann hafi reiknað með og
auk þess hafi hann fengið Covid-19
og orðið fjári veikur. „Ég lauk því
bara í janúar og tók þetta svolítið
bara á hnefanum,“ útskýrir Gísli.
Orka og þakklæti
–Þetta er mjög óvenjuleg sviðsetn-
ing, maður á hlaupabretti og þessi
hlaup munu væntanlega hafa einhver
áhrif á áhorfendur. Þeir gætu jafnvel
orðið þreyttir og móðir af því að
horfa á þig, eða hvað? Hefurðu spáð í
það?
„Ég veit það ekki, átta mig ekki
alveg á því. Við höfum verið með ein-
hver rennsli þar sem fólk úr leikhús-
inu hefur verið að kíkja og svona og
ég upplifi þetta þannig að fólk fyllist
einhvers konar orku og kannski
þakklæti yfir því hvað líkaminn okk-
ar er geggjaður. Við gleymum hon-
um svolítið, erum oft svolítið skorin
af við hálsinn, höfuðið ræður rosa-
lega miklu í lífi okkar en ég held að
maður upplifi hvað þetta er miklu
samtengdara.
Við erum búin að missa svolítið
tenginguna, einhvern tíma vorum við
veiðimenn sem hlupu um og þurftum
að halda líkamanum við alla daga en
núna komumst við upp með að fara
ekkert allt of vel með hann. Ég held
því, eins og ég sagði áðan, að þetta sé
óður til líkamans á einhvern jákvæð-
an hátt. Ég held að það sé ekki eins
erfitt og það hljómar að horfa á
þetta.“
Krefst mikillar einbeitingar
–Nú tala leikarar oft um að ein-
leikur sé mjög erfitt form og mun
erfiðara en að leika á móti ein-
hverjum. Þú færð engin viðbrögð eða
hjálp frá annarri manneskju á svið-
inu. Það er auðvitað erfitt fyrir í
þessu verki en hefur það ekki líka
áhrif á leikinn að þú ert alltaf á brett-
inu, ýmist að ganga eða hlaupa?
„Jú, maður þarf að hafa rosalega
vel kveikt á öllum skilningarvitum
því annars dett ég bara af brettinu,“
segir Gísli og hlær. „Ég er búinn að
strippa þetta alveg niður og bara
lappirnar sem halda mér uppi. Þann-
ig að jú, ég þarf að hafa rosalega ein-
beitingu í gegnum þetta. Þetta er
ekkert rosalega auðvelt, sko.“
–Svo má ekki gleyma því að verkið
fjallar ekki bara um hlaup heldur
miklu alvarlegra mál, sorgina. Er
engin hætta á að hlaupin dragi at-
hyglina að einhverju leyti frá alvöru
umfjöllunarefnisins?
„Ég hugsa að það sé allt í lagi.
Fyrir þá sem koma er þetta örugg-
lega forvitnilegt bara, hvernig þér
líður af því að horfa á þetta því ég
átta mig ekki alveg á því sjálfur. Ég
hugsa að það sé alls konar, ef þig
langar að sjá þetta af því ég er að
pínast á þessu bretti þá er það gott
og blessað en svo ferðu á endanum út
með einhverja upplifun sem er, held
ég, sambland af ýmsu. Að því leyti
held ég að þetta sé öðruvísi en margt
annað,“ svarar Gísli. Hann telji að
verkið muni spila á marga strengi
sem séu ekki endilega fyrirsjáan-
legir.
Sá skrítni á Ægisíðunni
Gísli er spurður að því hvort hann
hafi lært textann á hlaupum og segist
hann ekki hafa gert það. „Ég hef ver-
ið að labba um Ægisíðuna eins og
skrítni gaurinn með handritið að
þylja upp textann. Þetta hafa verið
óteljandi göngutúrar með handritið í
hendi að þylja upp. Ég hef verið að
labba í kuldagallanum og séð fólk
taka sveig framhjá mér,“ segir Gísli
sposkur. Að því ferli loknu hafi þau
Harpa farið að vinna sýninguna í
rýminu, leikhúsinu. „Hún byrjar að
leggja hana alla og gera og græja og
þá læri ég sýninguna á brettinu.
Þetta er bara eins og allt, krefst járn-
aga á meðan á þessu stendur.“
Þekkir Øystein
Gísli er að lokum spurður út í
spennandi verkefni sem bíður hans
erlendis, leikstjórn á nokkrum þátta
þriðju seríu hinna vinsælu norsku
Exit sem segja af siðspilltum við-
skiptajöfrum og eiginkonum þeirra.
Tökur þáttanna eru hafnar, segir
Gísli, og að hann vaði í verkefnið
fljótlega eftir að sýningar hefjast á
Ég hleyp. „Aðalhöfundurinn og -leik-
stjórinn, Øystein Karlsen, er svona
maðurinn með þetta og ég tek ein-
hverja þætti,“ útskýrir Gísli og seg-
ist þekkja Karlsen mjög vel. „Við
leituðum svolítið til hans þegar við
vorum að gera Verbúðina, báðum
hann að gefa okkur komment á hand-
rit og fyrstu þættina og í rauninni
bauð hann mér að koma og að vera
með sér í liði þarna,“ segir Gísli og
líkt og hinn almenni Íslendingur hafi
hann séð fyrri þáttaraðir og sé mikill
aðdáandi þeirra.
–Er eitthvað fleira fram undan á
árinu hjá þér sem má tala um?
„Nei, í rauninni ekkert. Ég hlakka
bara til að stinga hausnum upp úr
vatninu og ná aðeins andanum. Það
er auðvitað alls konar í farvegi en ég
þarf bara aðeins að ná lendingu aft-
ur.“
Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
Þrekraun Gísli á hlaupabrettinu í sýningunni Ég hleyp. Hann segist lítinn tíma hafa haft til hlaupaæfinga.
Marglaga verk og óður til líkamans
- Gísli Örn Garðarsson hleypur í einleiknum Ég hleyp - Maður sem missir barn og tekst á við áfallið
með því að hlaupa - „Maður velur sér ekki alltaf auðveldustu leiðina,“ segir Gísli um þessa áskorun
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. FEBRÚAR 2022
Fiskislóð • Bíldshöfði • Smáratorg • Helluhraun • Baldursnes
www.gaeludyr.is
Með kaupum á 100 lítra+ fiskabúrum
fylgir afsláttarkort sem veitir 20% afslátt
af öllu í fiskadeild í 30 daga