Bændablaðið - 28.04.2022, Qupperneq 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. apríl 2022 7
Skemmtilegar blómaskreytingar
settu svip sinn á Reyki.
LÍF&STARF
Lesendur fengu í síðasta vísnaþætti
örlitla nasasjón af vísnagerð
Bjarna Stefáns Konráðssonar.
Hollráð er að gera Bjarna betri skil í
þessum þætti. Haukur Halldórsson
frá Sveinbjarnargerði, þá formaður
Stéttarsambands bænda, skrapp til
Bahama ásamt konu sinni Bjarneyju.
Birtist mynd af honum í dagblaði þar sem
hann var umkringdur fáklæddum konum
á baðströnd Bahama. Bjarni Stefán orti
þá þessa limru:
Á dögunum hélt til Bahama,
þar heillað’ann glæsileg dama.
Hún fór úr að neðan
og frýsaði á meðan
svo formanni stóð - ekki á sama.
Eitt sinn stóð Bjarni Stefán framan
við lyftu Bændahallarinnar og var þar
í samræðum við mann inni í lyftunni.
Þórólfur Sveinsson, varaformaður Bænda
samtakanna, kom þar að, en í því lokaðist
lyftan svo Þórólfur sá aldrei viðmælanda
Bjarna Stefáns. Því spurði Þórólfur: „Ertu
nú farinn að tala við lyftur, Bjarni minn?“
Bjarni Stefán orti af þessu tilefni:
Bjarni er býsna vel giftur
en brjóstviti mest öllu sviptur,
sem hrakandi fer
því fávitinn er
farinn að tala við lyftur.
Næstu vísu nefnir Bjarni Stefán
„Mannasiðir“. Efnistök stökunnar vekja
einmitt upp vangaveltur um handabandið,
sem á Covidtímum hefur nánast verið
bannað:
Að heilsa með handabandi
er helvíti góður siður
og það væri mikið miður
ef myndi hann leggjast niður.
Um Hrafnkel Karlsson, bónda á Hrauni í
Ölfusi og stjórnarmann í Bændasamtökum
Íslands, orti Bjarni Stefán:
Í Ölfusinu er alltaf nóg
af illum fnyk og dauni,
við búandhokur baukar þó
og býr á Litla-Hrauni.
Gísli Rúnar Konráðsson frá Frostastöðum,
bróðir Bjarna Stefáns, er auðvitað
frjósamur vísnagerðarmaður líkt og margir
þeirrar ættar. Ugglítið myndu margir vilja
bera þetta einstaka skopskyn sem þessi
vísa Gísla geymir og ort var á ættarmóti
Frostastaðaættarinnar:
Kynjagripi ættin hefur alið
og ekki gott við þvílíku að gera.
En frændur sína fær víst enginn valið
þó fjarskyldari sumir mættu vera.
Það sykrast til mín vísur frá Ingólfi
Ómari Ármannssyni. Nú er sá hraðkvæði
Skagfirðingur genginn vorinu á vit í næstu
tveimur vísum:
Vonir kvikna, vaknar þrá
vetrarkyljur þagna.
Kvaka þrestir kvistum á
komu vorsins fagna.
Vekur lýði vorsins tíð,
verma þíðar stundir.
Brumar víðir, brosir hlíð
blómum skrýðast grundir.
Í hús mín barst nýlega vísnakver eftir Svein
Skagfjörð Pálmason. Sveinn er fæddur á
Reykjavöllum í Skagafirði, og hefur ort
þétting af lausavísum um dagana. Sveinn
hefur verið mjög virkur í sönglífi, og
margar af stökum hans tengjast kórstarfi
og kórferðalögum. Á þorrablóti skagfirsku
söngsveitarinnar var eitt sinn efnt til
spurningakeppni. Sveinn var spurður hvort
takmarka ætti barneignir:
Öll þau takmörk eigi vil,
sem ástarleiki þvinga.
Best væri þó að búa til
bara Skagfirðinga.
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
296MÆLT AF
MUNNI FRAM
Vilmundur Hansen, blaðamaður Bænda-
blaðsins og garðyrkjufræðingur, hlaut
Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2022
sem afhent voru á opnu húsi Garðyrkju -
skólans að Reykjum á sumardaginn fyrsta.
Vilmundur, sem er fyrrum nemandi
skólans, hefur m.a. haldið utan um Facebook
síðuna vinsælu, Ræktaðu garðinn þinn, sem
er vettvangur þar sem hægt er að afla sér
upplýsinga um allt sem tengist ræktun. Auk þess
hefur Vilmundur skrifað bækur og óteljandi
greinar á þessum vettvangi um ræktun. Hann
hlaut hvatningarverðlaunin fyrir ötula miðlun
þekkingar og fræðslustarf.
Af sama tilefni hlaut Björn Bjarndal
Jónsson skógfræðingur, garðyrkjufræðingur
og búfræðingur, heiðursverðlaun garðyrkjunnar.
Björn hefur unnið að afurðamálum Skógræktar
um langt árabil og verið í fararbroddi við að
vekja athygli á mikilvægi brunavarna í skógrækt
á Íslandi. Hann hefur ritað bókarkafla og fjölda
greina í bækur, blöð og tímarit um skógrækt í
víðum skilningi. Samhliða störfum sínum hefur
hann sinnt stundakennslu við Garðyrkjuskólann
á Reykjum og Landbúnaðarháskóla Íslands á
Hvanneyri og er vinsæll kennari.
Þá voru Kirkjugarðar Reykjavíkurprófasts
dæma sæmdir titlinum Verknámsstaður
garðyrkjunnar 2022. Hjá kirkjugörðunum
starfa garðyrkjufræðingar allt árið en
starfsemin spannar allt frá trjá og blómarækt
til grafartöku og umhirðu um minnismerki. Kári
Aðalsteinsson, garðyrkjustjóri kirkjugarðanna,
tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd. Forseti
Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti þeim
Vilmundi, Birni og Kára verðlaunin.
Ingibjörg Sigmundsdóttir, sem átti
og rak Garðyrkjustöð Ingibjargar, hlaut
umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar sem
bæjarstjórinn, Aldís Hafsteinsdóttir, afhenti.
Hefð er fyrir því að Garðyrkjuskólinn á
Reykjum opni hús sín á sumardaginn fyrsta.
Fjölmennt var sem endranær og gátu gestir
kynnst starfsemi skólans, virt fyrir sér hina
ýmsu anga ræktunar, blómaskreytinga og
skrúðgarðyrkju auk þess að kaupa afurðir á
markaðstorginu. /ghp
Opinn dagur Garðyrkjuskólans að Reykjum á sumardaginn fyrsta:
Vilmundur handhafi Hvatningar-
verðlauna garðyrkjunnar 2022
Vilmundur Hansen ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem færði honum verðlaunin.
Björn Bjarndal hefur tekið þátt í og stýrt fjölda
samstarfsverkefna, bæði á innlendum, norrænum
og evrópskum vettvangi. Hann hlaut heiðurs-
verðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands.
Gestir gátu fræðst um býflugnarækt.
Kári Aðalsteinsson, garðyrkjustjóri
kirkjugarðanna, tók við verðlaunum
fyrir Verknámsstað garðyrkjunnar.
Börnin gátu grillað sykurpúða.
Starfsfólk og nemendur skólans seldu
íslenskt grænmeti á markaðstorginu.
Guðríður Helgadóttir var glæsileg að vanda og setti hátíðardagskrána.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri
Hveragerðis, og Olga Lísa Garðarsdóttir,
skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.