Bændablaðið - 28.04.2022, Side 36
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. apríl 202236
Svo hljóðaði auglýsing er birtist á
síðu Morgunblaðsins í júlílok árið
1968 - en þá hafði poppkornsát
verið að ryðja sér til rúms í
nokkurn tíma.
Um það bil fjórum árum síðar gaf
þýska grúppan The Fantastic Pikes
út plötuna The Synthesizer Sound
Machine – með laginu Popcorn, en á
umslaginu gefur að líta bikiníklædda
konu sitjandi í poppkornshrúgu.
Poppkorn var á þessum árum (og
er reyndar enn) afar vinsælt fyrir
skynfærin, augu, eyru og munn
og man blaðamaður vel eftir þeirri
gleði sem fyllti hjartað er foreldrarnir
skrúfuðu tónlistina í botn og buðu
upp á poppkorn í kjölfarið. Lagið
var þó víst upprunalega samið af
Gershon Kingsley nokkrum og kallað
heimsins fyrsti singull raftónlistar.
Lagið Poppkorn hefur síðan
haldið velli og verið flutt af aragrúa
tónlistarmanna enda afar grípandi.En
poppkorn á nú reyndar lengri sögu en
spannar lífstíma blaðamanns.
Ævafornar minjar poppkornsáts
Í náttúruminjadeild Smithsonian-
safns Bandaríkjanna má finna
sýni er fundust við uppgröft
fornleifafræðinga í Suður-Ameríku.
Um ræðir maískólfa, hýði og stilka
frá því fyrir 6700–3000 árum síðan
og er þetta elsta sýni er fundist hefur.
Á uppgraftarsvæðum fornleifanna
mátti svo finna merki þess að íbúarnir
hefðu meðal annars neytt maíssins í
formi poppkorns.
Loftslag svæðanna, nálægt
borgunum Paredones og Huaca
Prieta, er afar þurrt og nánast án
regns – en slíkar aðstæður gera það
kleift að fornleifar geta varðveist í
afar langan tíma, sem útskýrir þessar
leifar útblásins maísins. Poppkorn
var að auki stór hluti menningar
Suður-Ameríkuþjóða, þá sérstaklega
hjá indíánaþjóðflokki Asteka sem
notuðu það í tilbeiðsluathöfnum auk
þess að bera höfuðfat, hálsmen og
skraut gerðu úr poppkorni.
Til gamans má geta þess að ekki
fyrir löngu fannst fjögur þúsund ára
gamall maís í Nýju-Mexíkó sem
hægt var að poppa! Ekki fylgdi þó
sögunni hvernig bragðaðist. Aðrar
sagnir herma að evrópskir landnemar
er hófu búskap í Bandaríkjunum
forðum daga hafi eitthvað misskilið
stöðuna og fengið sér poppkorn til
morgunverðar. Þá í skál, með rjóma,
ávöxtum og helst sykri. Ekki er vitað
hvort um íslenska landnema hafi
verið að ræða.
Gegn krabbameini, til skreytinga,
möguleikarnir eru endalausir
Poppkorn, sem er í raun trefjaríkt
heilkorn maísplöntunnar, er annars
afar hollt ef þess er neytt eitt og sér. Í
því er afar mikið af andoxunarefninu
pólýfenól sem þykir gagnast vel í
baráttu við krabbamein en það
má einnig finna í rauðvíni, dökku
súkkulaði, ávöxtum og grænmeti svo
eitthvað sé nefnt.
Þess má geta að til eru um 25
tegundir af maískorni en er sá maís
sem poppast eitt afbrigði þess. Hlaut
hann nafn sitt vegna hljóðsins sem
myndast er maísbaunin springur.
Hún inniheldur um 14% vatns
sem breytist smám saman í gufu
eftir því sem hitinn eykst. Vegna
harða hýðisins sem umlykur hana
ummyndast sterkja hennar við
hitun, þenst út og veldur því að hún
„poppar“ með hvelli.
Vinsælt þótti og þykir enn, alveg
frá árunum í kringum 1800, að nýta
svo poppkorn í hátíðaskreytingar,
enda bæði bjart og fagurt auk
þess að vera skemmtilega lagað.
Poppkornsauglýsingar skutu þó ekki
upp kollinum fyrr en í kringum 1840
í Bandaríkjunum, og náðu hámarki í
kringum 1860 er þýskir innflytjendur
fundu upp á hinum skemmtilegu
sætindum er kallaðar eru Cracker
Jack. Þá er poppkornið sykur- og
karamelluhúðað og sett í bréfpoka
ásamt jarðhnetum.
Slagorð fylgdi í kjölfarið sem
uppfinningamönnunum fannst
tilvalið að fá einkaleyfi á en það
hljóðar svo: „The more you eat,
the more you want!“ Að auki þótti
móðins að kalla upp yfir sig „Thats
a crackerjack!“ ef mönnum fannst
eitthvað af framúrskarandi gæðum.
Síðar, yfir ártugina, hafa svo
allar þjóðir heimsins tekið sig til
og blandað ýmsu í poppkorn sitt,
nú eða húðað það utan. Má þar
helst nefna ostapopp, en einnig
er vinsælt að blanda í pokann
rúsínukúlum, karamellukúlum, strá
lakkrís, chili eða hvítlauksdufti yfir,
kókosflögum, truffluolíu nú eða úða
það sítrónusafa svo eitthvað sé nefnt.
Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
SAGA MATAR&DRYKKJA
Sigrún Pétursdóttir
sigrunpeturs@bondi.is
Popcorn, áttunda lag plötunnar, eldist afar vel og hefur glatt mörg hjörtu.
Hér má sjá maískólf þann er fannst í S-Ameríku við uppgröft fornleifafræðinga.
Vinsældir poppkornsins jukust mikið þegar bíómyndirnar komu til sögunnar og kvikmyndahúsin tóku að selja popp. Mynd / Unsplash
„Thats a crackerjack!“