Skessuhorn - 16.02.2022, Side 16
MIÐVIKUDAGUR 16. FEBRÚAR 202216
Guðríður Ringsted eða „Mystic
Manta“ gaf út sína fyrstu sóló plötu
30. janúar síðastliðinn. Guðríður,
eða Dúdda eins og flestir kalla hana,
starfar sem hjúkrunarfræðing
ur á Brákarhlíð í Borgar nesi en á
að baki áhugaverðan tónlistarferil
með Worm Is Green þar sem hún
var söngkona hljómsveitarinnar og
fór meðal annars í tónleikaferðalög
um Bandaríkin og Kína. Fyrir rúm
um tveimur árum byrjaði Dúdda
að semja sitt eigið efni undir lista
mannanafninu „Mystic Manta“
með það að markmiði að gefa út
sína fyrstu plötu sem varð svo að
veruleika í lok janúar síðastliðinn.
Platan heitir No Room for Blame
or Shame og er aðgengileg á öllum
helstu streymis veitum.
Stutt í hljóðfærin á
bernskuheimilinu
„Ég hef verið umvafin tónlist allt
mitt líf. Pabbi minn Gunnar Ring
sted er tónlistarmaður. Hann og
mamma mín, Jenný Lind Egils
dóttir, hlustuðu mikið á allskonar
tónlist, allt frá ljúfum tónum Bach,
upp í krassandi gítarsóló Sant
ana. Það voru alltaf hljóðfæri ná
lægt á bernskuheimili mínu,“ seg
ir Dúdda um æskuminningar sínar.
„Ég söng mikið sem barn og pabbi
spilaði undir og tók stundum upp.
Ég á til dæmis gamlar upptökur á
kassettu þar sem ég er að syngja
frumsamin lög, þriggja, fjögurra
og fimm ára gömul,“ bætir hún við.
En þegar Dúdda varð unglingur þá
fór hún að þróa og tileinka sér sinn
eigin tónlistarsmekk. „Ég man eft
ir fyrstu kassettunni minni sem ég
hlustaði óspart á með vasadiskóinu
mínu, það var Roxette, Look Sharp!
Ég man líka þegar ég keypti fyrstu
vinyl plöturnar mínar í sportvöru
deild Kaupfélags Borgfirðinga en
það voru Todmobile og Risaeðlan.
Nirvana Nevermind og Prodigy
Experience voru hins vegar með
fyrstu geisladiskunum sem ég eign
aðist.“
Worm Is Green
Á framhaldsskólaárunum þróað
ist Dúdda meira út í rafræna tónlist
og triphop, henni fannst það fram
andi, heillandi og spennandi. „Ég
hlustaði mikið á Björk, Portishead,
Massive Attack og í gegnum skóla
félaga mína kynntist ég drum´n
bass heiminum, Roni Size var þar í
uppáhaldi. Þessir skólafélagar urðu
líka bestu vinir mínir og með þeim
varð hljómsveitin Worm Is Green
til,“ rifjar Dúdda upp.
Þetta voru fjórir Skagastrák
ar sem voru með henni í Worm Is
Green; þeir Árni Teitur Ásgeirs
son, Vilberg H. Jónsson, Þor
steinn Hannesson og Bjarni Hann
esson. „Við upplifðum nokkur ár
með miklum ævintýrum og svaka
tónleikaferðum um heiminn með
Worm Is Green. Á þessum árum
var ég líka að streða við að klára há
skólanám. Ég þurfti að fresta nám
inu mínu á ákveðnum tímapunkti
um ár vegna tækifæra í boði Worm
Is Green en það voru tvær stórar
tónleikaferðir um Bandaríkin. Ég
vissi að þessi tækifæri myndu ekki
bjóðast á hverjum degi en það væri
alltaf hægt að fara í skóla seinna. Ég
lét því til leiðast og ferðaðist víða
um Bandaríkin í margar vikur. Ég á
miklar og skemmtilegar minningar,
ljósmyndir og ferðasögu í dagbók
út frá þeim ferðalögum. Eftir öll
þessi ævintýri útskrifast ég loks sem
hjúkrunarfræðingur árið 2008 en
þá fór líka að hægjast á ferðalögum
og tónleikahaldi. Síðast var farið til
Kína árið 2013,“ segir Dúdda um
sögu Worm Is Green.
Keypti sér fiðlu og fór
að semja tónlist
Árin hafa liðið hratt og Worm Is
Green hefur gefið út þó nokkuð
mikið efni í rúmlega 20 ár og má
þá helst nefna fimm breiðskífur.
„Nú síðustu ár eru það aðallega ég
og Árni sem vinnum saman í WIG,
hann semur og ég syng. Hann byrj
aði hins vegar að pressa á mig fyr
ir nokkrum árum að gera mína eig
in músík. Ég hafði alltaf eingöngu
verið söngkona í Worm Is Green,
ekki laga eða textahöfundur. Ég
hélt hreinlega að ég kynni það ekki
og reyndi það þess vegna ekki,“
segir Dúdda hreinskilin.
Eftir að Árni fór að ýta nokkrum
sinnum á Dúddu um að búa til
sína eigin tónlist, þá fór hún að
semja laglínur á píanó, skrifaði
nótur og hljóma í litla stílabók af
og til en gerði lítið meira en það.
„Ég keypti mér síðan ódýra fiðlu
á netinu og fór að rifja upp gamla
takta þar en ég lærði á fiðlu í Tón
listarskóla Borgarfjarðar í níunda
og tíunda bekk. Eldri sonur minn,
Hörður Gunnar, sem er næstum
jafn gamall og hljómsveitin Worm
Is Green, hafði í nokkur ár verið
að leika sér með tónlistarforritið
Fruity Loops. Hann var líka alltaf
að reyna að kenna mér á það og var
ég farin að geta samið lagabúta í því
forriti. Hörður Gunnar hefur líka
samið mikið efni sjálfur og er nú í
hljómsveitinni E.C. Þeir hafa gefið
út nokkur lög sem finnast á helstu
streymisveitum eins og Spotify og
eru, þó ég segi sjálf frá, mjög góð.
Þar eiga þeir til dæmis lagið Free
sem hefur fengið mikla spilun en
það væri nú kannski efni í aðra
blaðagrein,“ segir hún létt í lund.
Fékk upptökugræjur
í jólagjöf
Það var síðan jólin 2020 sem að
maðurinn hennar Dúddu, Gunnar
Halldórsson, gaf henni nýjar upp
tökugræjur að boltinn fór að rúlla
almennilega. „Ég byrjaði að semja
fullt af nýjum lögum og klára göm
ul demo úr stílabókinni minni í
byrjun janúar 2021. Ég setti fram
það markmið að gefa út mína eigin
plötu á árinu, allavega byrja á einu
eða tveimur lögum. Ég gaf því út
þrjár smáskífur árið 2021 og samdi
mörg demo á árinu. Nú í byrjun
janúar 2022 er loksins komin til
búin breiðskífa en Árni vinur minn
hjálpaði mér mikið með að mastera
og mixa öll lögin. Hún ber titilinn
„No Room for Blame or Shame“.
Lögin fjalla mikið um tilfinningar
og bara lífið almennt,“ segir hún
um fyrstu sóló plötuna sína.
Dúdda er í fullu starfi sem hjúkr
unarfræðingur í Brákarhlíð með
fram tónlistinni og það hefur al
veg litað hennar sköpun. „Sérstak
lega hafa undanfarin tvö ár ver
ið krefjandi og lærdómsrík. Ég
sæki líka mikið í sköpunarkraftinn
í náttúrunni og stundum í gegn
um draumana mína. Það má líka
segja að þessi plata sé ákveðið upp
gjör við fortíðina en verandi orðin
„miðaldra“ þá er það ákveðinn
tímapunktur þar sem maður lítur
yfir farinn veg. Ég horfi hins vegar
spennt fram í tímann, tilbúin að
skapa og semja meira. Tónlistin
nærir sál mína og ég tel það vera
mjög mikilvægt að allir hafi eitt
hvað til að næra sig á heilbrigð
an hátt. Hvort sem það er tón
list, náttúran, hreyfing eða bara
að prjóna peysu. Sama hvað, bara
að það haldi manni í ákveðnu
heilbrigðu jafnvægi til að takast á
við lífið almennt,“ segir Dúdda
að endingu. Hægt er að hlusta á
tónlistina hennar Dúdda undir
listanafninu Mystic Manta á öllum
helstu streymisveitum eins og til
dæmis Spotify.
glh
Dúdda á sviði í Shanghai, Kína 2013 með hljómsveit sinni Worm Is Green.
Ljósm. Bing Wen.
„Ég hef verið umvafin tónlist allt mitt líf“
–rætt við tónlistarkonuna Guðríði Ringsted sem nýlega gaf út sína fyrstu sóló plötu
Guðríður Ringsted er Mystic Manta.
Plötuumslag „No Room for Blame or Shame“.