Læknablaðið - 01.04.2022, Qupperneq 15
L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 179
R A N N S Ó K N
fæðingar kvenna án slíkrar greiningar mátti sjá að framköllun
fæðinga var mun algengari meðal þeirra sem höfðu sykursýki
(tafla II). Konur með sykursýki fæddu sjaldan eftir 41 viku eða
lengri meðgöngu, sérstaklega þegar sykursýki var til staðar fyrir
meðgöngu. Af börnum mæðra með fyrirverandi sykursýki fæddist
kringum fjórðungur stór miðað við meðgöngulengd (LGA) og 11%
voru þungburar. Hlutfall LGA meðal kvenna með meðgöngu-
sykursýki var 10,6% samanborið við 4,7% í hópnum án sykursýki
en munur á þungburafæðingum milli þessara hópa var tæplega
eitt prósent. Fæðingaráverkar greindust hjá um 1% barna mæðra
með meðgöngusykursýki og mæðra án sykursýki (ekki tölfræði-
lega marktækur munur milli þessara hópa), en 3,8% barna mæðra
með sykursýki fyrir meðgönguna voru greind með fæðingará-
verka, sem var marktækt algengara en meðal barna mæðra án
sykursýki. Nýburagula var algengari meðal barna mæðra með
sykursýki en barna mæðra án sykursýki.
Tíðni þungburafæðinga virtist lækka yfir rannsóknartímabilið
(mynd 1) en minni breyting varð á hlutfalli barna sem voru stór
miðað við meðgöngulengd. Framköllun fæðinga meðal kvenna
án sykursýki varð tíðari frá og með miðju rannsóknartímabilinu
(mynd 2). Árið 1997 voru framkallaðar fæðingar meðal kvenna
með sykursýkigreiningu hverfandi hluti af öllum fæðingum en
jukust svo verulega upp úr 2014. Meðal nýgengishlutfall þung-
burafæðinga á tímbilinu 1997-2004 var 6,5% miðað við 4,6% á
tímabilinu 2012-2018 (tafla III). Þegar greiningin var endurtekin
með lagskiptingu eftir meðgöngulengd sást lækkandi tíðni þung-
burafæðinga meðal fæðinga frá og með áætluðum fæðingardegi
(40+0). Marktæk lækkun sást á tíðni þungburafæðinga fyrir 2012
þegar greiningarskilmerki fyrir meðgöngusykursýki voru hert
(tafla III).
Hættan á þungburafæðingu þegar fæðingar voru framkallaðar
eftir 37 vikur miðað við biðmeðferð var þar næst metin (tafla IV),
en einungis voru notuð gögn fyrir fæðingar 2012-2018. Framköllun
fæðinga frá og með áætluðum fæðingardegi minnkaði hættuna á
þungburafæðingum miðað við biðmeðferð og sú áhættulækkun
virtist óháð sykursýki.
Umræða
Hættan á þungburafæðingu jókst með aukinni meðgöngulengd
og aðeins lítill hluti þungburanna átti mæður með sykursýki.
Tíðni þungburafæðinga fór lækkandi síðastliðna tvo áratugi á
meðan tíðni framkallana jókst. Þungburafæðingum fækkaði að-
allega meðal kvenna sem gengu fram yfir áætlaðan fæðingardag.
Framköllun fæðinga minnkaði líkur á þungburafæðingu en slík
verndandi áhrif virtust óháð sykursýki.
Greiningum meðgöngusykursýki hefur fjölgað verulega
undanfarinn áratug, sem rekja má til hertra greiningarskil-
merkja, en nýtt verklag um þetta var birt á Landspítala árið 2012.17
Breytingarnar voru í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar, en
nýju skilmerkin16 byggðu á niðurstöðum HAPO-rannsóknarinn-
ar sem birtist árið 2009 (Hyperglycemia and Adverse Pregnancy
Outcome) og sýndi fram á línuleg tengsl á milli hækkandi blóð-
sykursgilda í sykurþolsprófi og líka á keisaraskurði, blóðsykur-
falli nýbura og fæðingu stórra barna.14 Á niðurstöðum þessarar
rannsóknar sást að minnihluti þungbura áttu mæður sem greind-
ar voru með einhverja tegund sykursýki. Á Íslandi er boðið upp
á skimun fyrir meðgöngusykursýki meðal þungaðra kvenna sem
hafa einn eða fleiri eftirfarandi áhættuþátta: 40 ára eða eldri, offita,
saga um meðgöngusykursýki, fyrri þungburafæðing, skert sykur-
þol, ættarsaga um sykursýki í fyrsta ættlið og kynþáttur annar
en hvítur.17 Í sumum löndum er öllum þunguðum konum boðin
skimun fyrir meðgöngusykursýki og hérlendis gæti verið fróðlegt
að meta tíðni ógreindrar meðgöngusykursýki meðal kvenna sem
ekki býðst skimun og fylgja því svo eftir hvort þær fæða þungbura.
Tíðni þungburafæðinga hefur aukist í sumum löndum heims
og hefur það verið rakið til aukningar á offitu og tengdum vanda-
málum eins og sykursýki.8,15,22 Lækkuð tíðni þungburafæðinga
sem lýst er í þessari rannsókn á sér samsvörun í þróun þungbura-
fæðinga í Bandaríkjunum.7,23 Erfitt er að gera grein fyrir ástæðum
þessa með vissu en niðurstöðurnar benda þó til að lækkandi tíðni
þungburafæðinga gæti skýrst af styttingu á meðgöngulengd í þýð-
inu vegna aukningar framkallana frá og með áætluðum fæðingar-
degi.
Það virðist rökrétt að stytting meðgöngu með framköllun
fæðingar muni leiða til fækkunar á börnum sem náð hafa 4,5 kg við
fæðingu. Tíðni framkallana meðal kvenna sem voru með sykur-
sýki jókst frá 2014 en tíðni þungburafæðinga byrjaði að lækka fyrir
þann tíma. Í þessari rannsókn er erfitt að leiðrétta að öllu leyti
fyrir mögulegum áhrifum sykursýki á lækkandi tíðni þungbura-
fæðinga þar sem vangreind meðgöngusykursýki var sennilega til
staðar í umtalsverðum mæli fyrir 2012. Hins vegar má benda á
að þegar tengsl framköllunar miðað við biðmeðferð voru skoðuð,
einungis fyrir fæðingar eftir 2012, bentu niðurstöður til þess að
framköllun fæðinga væri verndandi gegn þungburafæðingum og
að þau tengsl væru óháð sykursýki sem greind var samkvæmt nú-
verandi skilmerkjum. Af ofansögðu þykir líklegt að heildaráhrif
framkallana á tíðni þungburafæðinga tengist að miklu leyti fækk-
un fæðinga eftir 41+0 meðal annars hraustra kvenna.
Þekkt er að meðferð við meðgöngusykursýki (næringarráð-
gjöf með eða án lyfjagjafa) dregur úr þungburafæðingum og
ýmsum fylgikvillum þess.24 Hins vegar er gagnsemi framköllun-
ar fæðinga framyfir biðmeðferð með tilliti til fylgikvilla mæðra
eða nýbura ekki jafn augljós af fyrri rannsóknum.25 Það kann að
vera að framköllun fæðinga vegna meðgöngusykursýki og/eða
gruns um stórt barn samkvæmt ómskoðun fækki axlarklemmu og
fæðingaráverkum nýbura en í fyrri rannsóknum er slíkum ávinn-
ingi oft lýst með aukingu annarra fylgikvilla eins og nýburagulu.26
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að framköllun fæðinga
minnkaði hættuna á þungburafæðingum óháð sykursýki, en
jafnframt sást að fæðingaráverkar voru algengari meðal nýbura
sem áttu mæður með sykursýki fyrir meðgönguna. Niðurstöð-
ur virðast því styðja að konur með fyrirverandi sykursýki skuli
hafa forgang hvað varðar framköllun á fæðingu fram yfir konur
í eðlilegri meðgöngu en óvissa ríkir enn um gagnsemi framköll-
unar fyrir 41+0 vegna meðgöngusykursýki, sérstaklega ef ekki er
þörf á lyfjameðferð.25,26 Taka ber fram að í þessari rannsókn var
gagnsemi framköllunar með tilliti til fylgikvilla mæðra eða ný-
bura ekki metin og fæðingarþyngd gæti verið slæmur mælikvarði
á líkamsbyggingu nýbura sem talin er skipta máli fyrir hættuna
á axlarklemmu við fæðingu.27 Því er þörf á stórum slembiröðuð-
um íhlutandi rannsóknum til að meta hvort framköllun fæðinga
strax eftir áætlaðan fæðingardag kvenna með meðgöngusykursýki
verndar nýbura gegn fæðingaráverka.