Læknablaðið - 01.04.2022, Síða 22
186 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108
R A N N S Ó K N
hjartadrepi til samanburðar, en sá sjúkdómur var valinn vegna
þess hversu alvarlegur og bráður hann er. Auk þess gaf árið 2020
einstakt tækifæri til að skoða hvort mikill samdráttur í dreifingu
öndunarfærasýkinga eins og inflúensu gæti hugsanlega haft áhrif
á nýgengi hjartadreps, enda hefur verið sýnt fram á orsakatengsl
milli þessara sjúkdóma.5,6
Í viðbrögðum við farsóttum er mikilvægt að heildarhagsmunir
séu hafðir að leiðarljósi og að ofuráhersla á einn heilsufarslegan
þátt yfirskyggi ekki alla aðra, nema talið sé að slík nálgun skili
betri ávinningi fyrir þjóðina í heild. Um þetta hefur mikið ver-
ið deilt víða um heim, enda hafa almennar sóttvarnaráðstafanir
gríðarlega víðtæk áhrif á líf alls almennings.
Af þessum sökum er vert að velta fyrir sér hvort nýgengi
annarra sjúkdóma, ekki síst annarra smitsjúkdóma, hafi breyst í
heimsfaraldrinum og ef svo er, hvort þær breytingar séu raunveru-
legar eða skýrist af breyttum áherslum á greiningar (greiningar-
töf, of- eða vangreiningar).
Af okkar niðurstöðum má ráða að nýgengi lungnabólgu sem
leiddi til innlagnar og var ekki af völdum SARS-CoV-2 lækkaði
um fjórðung árið 2020 borið saman við meðaltal áranna 2016-2019.
Mesta lækkun nýgengis á hverja 1000 íbúa kom fram í eldri aldurs-
hópum og má ætla að sú lækkun endurspegli góðan árangur af
tilmælum sóttvarnayfirvalda um að vernda þá hópa sérstaklega
þar sem þeir fara hvað verst út úr COVID-19. Því er líklegra að
eldra fólk hafi fylgt sóttvarnareglum, forðast mannamót og tekið
persónulegar sóttvarnir eins og handþvott og grímunotkun alvar-
lega. Þessu til stuðnings má sjá á heimasíðu covid.is að uppsafn-
aður fjöldi staðfestra SARS-CoV-2 smita á hverja 1000 íbúa lækkar
með hækkandi aldri.9 Einnig má benda á að takmarkanir á heim-
sóknum á hjúkrunarheimili og spítala getur haft áhrif á þessar töl-
ur og að eldra fólk hafi almennt minna umgengist börn og barna-
börn sín, en algengt er að þau beri sýkingarvalda á borð við S.
pneumoniae í öndunarfærum án einkenna. Þá má benda á að í rann-
sókn Agnars Bjarnasonar og félaga, sem kannaði helstu meinvalda
samfélagslungnabólgu á Landspítala 2008-2009, var sýnt fram á
að í þeim tilfellum samfélagslungnabólgu þar sem sýklafræðileg
orsök lá fyrir var um þriðjungur vegna veirusýkingar.10 Því má
telja líklegt að lækkunin sem hér kemur fram endurspegli með-
al annars fækkun á lungnabólgu tengdri veirusýkingu, annarri
en SARS-CoV-2, enda virtust inflúensusýkingar hverfa með öllu
seinni hluta ársins líkt og gögnin okkar sýna.
Í byrjun faraldursins var mikið rætt um álag á heilbrigðiskerf-
ið. Í kjölfarið voru sett fram tilmæli til fólks um að leita ekki á
bráðamóttöku nema af brýnni nauðsyn. Út frá því spruttu vanga-
veltur um hvort um væri að ræða vangreiningu á tilfellum þar
sem fólk hefði forðast að sækja sér aðstoð vegna veikinda af ótta
við SARS-CoV-2-smit eða að vera byrði á heilbrigðisstofnunum
sem voru nú þegar undir miklu álagi. Þrátt fyrir það teljum við
að fólk hefði leitað til heilbrigðisstofnana, ef ekki vegna alvarleika
einkenna lungnabólgunnar þá vegna þess hve mikið þau líkjast
einkennum COVID-19. Einnig sýna gögnin fram á að ekki varð
aukning á greiningum umfram meðaltal eftir hápunkta COVID-19
faraldursins árið 2020, sem bendir til þess að ekki sé um vangrein-
ingu að ræða.
Inflúensa orsakast af samnefndri RNA-veiru sem leggst fyrst
og fremst á öndunarfæri og veldur árstíðabundnum faröldrum, en
smitleiðir hennar eru svipaðar og hjá SARS-CoV-2. Árið 2020 varð
tvöföldun í fjölda sýna þar sem leitað var að inflúensu. Ástæð-
an fyrir þessum aukna fjölda voru nýjar verklagsreglur sem sett-
ar voru fyrir COVID-19-skimun á Landspítala en auk prófs fyrir
SARS-CoV-2 var einnig skimað fyrir öðrum öndunarfæraveirum.
Mesta aukningin í sýnatöku varð í mars og september þegar
COVID-19-smitum fór fjölgandi í samfélaginu.
Athyglisvert er að inflúensa greindist ekki á landinu frá maí
2020 þrátt fyrir þessa miklu aukningu í sýnatöku. Fækkun á inflú-
ensutilfellum á Íslandi í COVID-19 faraldrinum er ekki einsdæmi
en inflúensa hvarf nánast um allan heim. Margar erlendar rann-
sóknir greina jafnframt frá fækkun á öðrum þekktum öndunar-
færaveirum á borð við RS-veiru, adenoveiru, rhinoveiru, parain-
flúensu og metapneumoveiru.11-13
Líklega má rekja ástæðu fækkunar á inflúensu hérlendis til
fækkunar á tilfellum á heimsvísu, fækkunar erlendra ferðamanna
sem og ferða Íslendinga út fyrir landsteinana sem talið er að beri
veiruna hingað til lands ár hvert.14 Einnig er líklegt að samkomu-
takmarkanir og persónubundnar sóttvarnir á borð við handþvott
og grímunotkun hafi haft áhrif á þessa fækkun.
Áhugavert er að sjá að fjöldi greininga vegna bráðs hjartadreps
dróst saman um 11,8%. Það er í samræmi við aðrar rannsóknir frá
Bandaríkjunum og Frakklandi sem þó sýndu enn meiri fækkun,
eða 20-38%.15,16 Þá má velta fyrir sér hvort þessi munur útskýrist
af harðari samfélagsaðgerðum þar miðað við það sem var í gildi
hérlendis, en sem dæmi var komið á útgöngubanni í Frakklandi.
Mesta fækkunin hérlendis átti sér stað þá mánuði er faraldurinn
stóð sem hæst, eða í mars og apríl, og seinni hluta ársins, eða frá
ágúst til desember. Þá var einnig fækkun á bráðum hjartaþræðing-
um árið 2020 en þeim fækkaði um 23% miðað við það sem hefði
mátt búast við í meðalári (tafla 1). Út frá því má velta fyrir sér hvort
þessi fækkun skýrist af vangreiningum vegna faraldursins eða
hvort um raunfækkun hafi verið að ræða. Til þess að komast nær
skýringunni á því má skoða umframdánartíðni og rýna í óútskýrð
dauðsföll. Raungögn sýna með óyggjandi hætti að umframdánar-
tíðni á Íslandi á árinu 2020 var lítil sem engin.17 Fjölmargar rann-
sóknir hafa sýnt tengsl öndunarfærasýkinga á borð við inflúensu
við aukna tíðni bráðs hjartadreps og verður því að telja líklegt að
tölurnar endurspegli raunfækkun í okkar þýði.5,18-21
Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýndi að COVID-19 var áhættu-
þáttur fyrir brátt hjartadrep þar í landi og má ætla að sambærileg
áhrif væru mótvægi gegn fyrrgreindum verndandi áhrifum hér á
landi, ekki síst seinni hluta ársins.22 Niðurstöðurnar minna þannig
á mikilvægi bólusetninga gegn bæði inflúensu og COVID-19, enda
vernda þær ekki aðeins gegn sjúkdómunum sjálfum heldur einnig
fylgikvillum þeirra.8,23,24 Blóðsýkingar af völdum iðrabaktería (til
dæmis Enterobacterales-tegundir) eiga oft uppruna sinn í þvag-
færum og meltingarfærum, en margar spítalasýkingar orsakast
einnig af iðrabakteríum. Allnokkur fjölgun á blóðsýkingum með
Enterobacterales-tegundum varð meðal 80-89 ára en ástæður þess
eru óljósar og væri áhugavert að kanna nánar. Hugsanlegt er að
blóðsýkingarnar hafi þróast í kjölfar vægari sýkinga sem voru
ó- eða vanmeðhöndlaðar þar eð viðkomandi leitaði sér ekki að-
stoðar eða fékk ekki fullnægjandi afgreiðslu.
Í Talnabrunni Embættis landlæknis frá desember 2020 kom fram
að fjöldi útleystra sýklalyfja lækkaði og komum á heilsugæslu fækk-
aði umtalsvert árið 202025 sem kann að styðja þessa tilgátu. Nánari
skoðun á sjúkraskrám gæti varpað ljósi á skýringarnar. Hvað sem