Lögmannablaðið - 2022, Page 12

Lögmannablaðið - 2022, Page 12
12 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 ítrekað að við mat á skýrslum virtist ofuráhersla á neitun sakbornings en önnur sönnunargögn höfðu minni þýðingu, t.d. sálfræðiskýrslur eða vitnisburður annarra. Í sumum tilvikum voru vitni að atburðum en skýrslur voru ekki teknar af þeim og þær ekki taldar hafa þýðingu. Samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu hefur íslenska ríkið jákvæðar skyldur að vernda fólk. Í því felst m.a. að hafa skilvirkt réttarkerfi sem stuðlar að því að refsa fyrir kynferðisbrot og heimilisofbeldi, líkt og önnur afbrot. Vikið var að málum MDE er varða konur, sbr. t.d. máli nr. 33401/02, Opuz gegn Tyrklandi, og máli nr. 41261/147, Volodina gegn Rússlandi, en samkvæmt 14. gr. sáttmálans er bannað að mismuna á grundvelli kynferðis. Einnig var vikið að skyldu ríkja til að rannsaka heildstætt og skilvirkt, sbr. t.d. mál nr. 39272/98, M.C. gegn Búlgaríu. Í málunum sem nú eru fyrir MDE taldi dómstóllinn tilefni til að kalla eftir svörum íslenska ríkisins og kvennanna á tilteknum spurningum. Af spurningunum má ráða að dómstólinn sé að velta fyrir sér hvort íslenska ríkið hafi viðhaft skilvirka rannsókn í málunum og hvort í þeim felist kynbundin mismunun. Við undirbúning máls kvennanna gáfu atvik í það minnsta tilefni til að ætla að það væri talsverð gjá milli þess sem er í orði og á borði; hvað væri refsivert og hvað yrði raunverulega um málin. Málin sýna einnig að það er mikill fjöldi sem treystir ekki kerfinu vegna þess að það hefur að einhverju leyti ekki virkað sem skyldi. Möguleg afleiðing þess ef að réttarkerfi nær ekki almennilega utan um brot er sú að fólk taki málin í sínar hendur. Því þarf augljóslega að skoða hvað er hægt að gera og hvort það þurfi að forgangsraða og endurhugsa þessi mál. Ef ofuráhersla er á neitun geranda samanborið við það að skoða öll gögn máls heildstætt þá er augljós hætta á að mál komist ekki fyrir dóm. Brotin eiga sér oftast stað bak við luktar dyr og það er nauðsynlegt að líta til annarra gagna og skoða málin heildstætt í samræmi við skyldur Mannréttindasáttmála Evrópu. Mega þolendur skila skömminni? Dr. Margrét Einarsdóttir velti því upp hvort þolendum kynbundins ofbeldis sé heimilt að tjá sig um brot og nafngreina ofbeldismenn sína. Í nýlegri rannsókn á ofbeldi gegn konum, „Áfallasaga kvenna“, kom í ljós að 40% íslenskumælandi kvenna hafi orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi. Einungis lítill hluti kvenna sem verða fyrir broti kæra og einungis brot af því sem er kært fer í ákærumeðferð. Þolendur sitja því uppi með oft á tíðum alvarlegar afleiðingar ofbeldisins en gerendur halda áfram með líf sitt eins og ekkert hafi í skorist. Það er upp úr þessu sem MeToo sprettur. Í nýju bylgjunni eru konur farnar að koma fram undir nafni og annað hvort nafngreina þær gerendur sína eða í það minnsta gefa skýrt til kynna um hvern er að ræða. Í málum þar sem þolendur tjá sig um gerendur vegast á stjórnarskrárvarinn réttur til tjáningarfrelsis annars vegar og réttur geranda til friðhelgi einkalífs hins vegar. Inntak 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að hver maður skuli eiga rétt til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, felur í sér að handhafar ríkisvaldsins megi ekki lýsa yfir sekt nema að viðkomandi hafi verið sakfelldur í refsimáli fyrir lögmætum dómstól. Ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram tekur ákvæðið eingöngu til handhafa ríkisvaldsins en ekki til einkaaðila. Sönnunarstaðan í kynferðisbrotamálum er yfirleitt mjög erfið. Til að þolanda sé hins vegar heimilt að tjá sig um ofbeldi mega ummælin ekki vera tilhæfulaus og þau verða að vera sögð í góðri trú. Þetta má ráða af dómaframkvæmd MDE og dómaframkvæmd hérlendis, sbr. t.d. dóm Landsréttar í máli nr. 34/2020 og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 404/2017. Þá staðfesti nýlegur dómur MDE í máli nr. 41987/13, Tölle gegn Króatíu, að ofbeldi gegn konum sé efni sem á ríkt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu. Dómurinn gagnrýndi króatíska dómstóla fyrir að horfa eingöngu á það hvort maður, sem var opinberlega sakaður um heimilisofbeldi af forstöðukonu kvennaathvarfs, hefði verið sakfelldur fyrir slíkt brot. Það var mat dómsins að forstöðukonan hafi haft réttmætar ástæður til að ætla að maðurinn hefði beitt konu sína heimilisofbeldi og var króatíska ríkið því talið hafa brotið gegn tjáningarfrelsi forstöðukonunnar. Þolendur hafa samkvæmt framansögðu rúmt svigrúm til að tjá sig opinberlega og er heimilt að skila skömminni. Svigrúm þriðja aðila til að tjá sig um ofbeldi er takmarkaðra. Í dómi MDE í máli nr. 24703/15, Egill Einarsson gegn Íslandi, var talið að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs Egils með tilteknum ummælum er vörðuðu kynferðisofbeldi á lokaðri Facebook síðu. Helsti munur á málsatvikum málsins, samanborið við mál Tölle, er að forstöðukona kvennaathvarfsins var í miklu samskiptum við þolandann og fékk upplýsingar um málið beint frá henni. Það er hins vegar varasamara út frá friðhelgi einkalífs að aðili, sem hefur engar upplýsingar beint frá aðilum málsins heldur eingöngu les um það í fjölmiðlum, komi

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.