Lögmannablaðið - 2022, Qupperneq 19
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 19
Þegar dómstólar beita reglunni þá eru viðurlögin fangelsi.
Frelsissvipting. Er það sambærilegt við það að missa ákveðið
starf? Eru það grundvallarmannréttindi að vera í ákveðnu
starfi? Þarf sönnunin að vera jafn ótvíræð?
Innan lögfræðinnar sjálfrar er ekki beitt jafnstrangri
sönnunarbyrði annars staðar og gert er í refsimálum. Það
getur gerst að sýknað sé í refsimáli en dæmdar skaðabætur
til handa brotaþola fyrir sama atvikið. Hvað þá með
brottvikningu úr starfi? Er rökrétt að gera sömu kröfur til
sönnunar þar og í refsimáli?
Stjórnendur fyrirtækja taka ákvarðanir um ráðningar og
uppsagnir út frá alls kyns ástæðum. Af hverju eiga þeir
í erfiðustu málunum, þar sem áhrifin á fyrirtækið eru
hvað mest, að vísa frá sér ábyrgðinni og láta annað kerfi,
dómskerfið, um ákvarðanatökuna? Er það ekki hlutverk
stjórnenda að taka erfiðar ákvarðanir? Er brottrekstur úr
starfi ekki viðskiptaleg ákvörðun?
Og af hverju líður mér ekki illa með þessa nálgun? Jú vegna
þess að samkvæmt upplýsingum frá sviðsstjóra ákærusviðs
lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þá sýna rannsóknir
að rangar sakargiftir eru einungis í 2-10% tilvika. Með
öðrum orðum þá segi þolendur satt í 90-98% tilvika. Það
að þolandi kæri ekki þýðir ekki að hann sé að ljúga. Það
að það sé ekki ákært þýðir ekki að þolandi sé að ljúga. Það
að það sé sýknað þýðir ekki heldur að þolandi sé að ljúga.
Er ég þá orðin hluti af „dómstól götunnar“? Kannski. Ég er
hins vegar að gera það sem mér er ætlað; að gæta hagsmuna
fyrirtækisins með ákvörðun sem er byggð á mjög sterkum
líkum. Ákvörðun sem ég ber ábyrgð á með mínu eigin
starfi. Ég myndi þó að sjálfsögðu fyrst ganga eins langt og
ég kæmist í upplýsingaöflun, til þess að komast til botns í
málinu, og velja viðbrögð í takt við alvarleika málsins. En
hvað er annars þessi „dómstóll götunnar“ annað en þolandi
sem segir sögu sína og aðrir sem sýna viðkomandi stuðning?
Ef einhverjum er nauðgað; karli, konu, öðru kyni, barni,
en það er enginn til vitnisburðar, skuldar viðkomandi þá
samfélaginu og geranda sínum að segja ekki frá því? Þegja
og bera harm sinn í hljóði? Hvernig samfélag erum við þá
að búa til?
Saklaus uns sekt er sönnuð er meginregla innan
dómskerfisins. Hún á að koma í veg fyrir að saklaus
einstaklingur sé dæmdur til refsingar. Heimspekin að baki
er sú að betra sé að 10 sekir menn gangi lausir en að einn
saklaus sé dæmdur. Auðvitað vill enginn dæma saklausan
mann. Mér finnst við þó alveg mega velta því fyrir okkur
að hin hliðin á teningnum er sú að eftir sitja 10 brotaþolar
án þess að fá leyst úr sínum málum, með þeirri sorg og
áfallastreitu sem því fylgir.
Kannski ertu ósammála þessari nálgun minni. Ég er ekki
alvitur. Ég vona samt að ef fyrirtæki leitar til þín, varðandi
ráðgjöf í þessum málum, þá sjáirðu heildarmyndina og alla
haghafa fyrirtækisins í ráðgjöf þinni.
Kær kveðja,
uppgjafarlögfræðingurinn
Umhverfisvæn og svansvottuð prentsmiðja - www.litlaprent.is