Lögmannablaðið - 2022, Síða 24
24 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22
Dýrmætt sjálfstætt dómsvald
Áður en þú byrjar hina sögulegu umfjöllun um aðdraganda og
stofnun Hæstaréttar ferð þú nákvæmlega yfir skilgreiningu á
réttarríkinu og sækir þar í heimildir okkar helstu lagaspekinga.
Þurftir þú, sagnfræðingurinn, að lesa þig mikið til um réttarríkið?
Eins ferðu yfir dómsvaldið frá dögum þjóðveldisins, af hverju
fannst þér mikilvægt að lesendur fengju yfirsýn yfir dómsvald
frá upphafi byggðar?
„Hvað forsöguna varðar þá finnst mér mikilvægt fyrir mig
sem höfund og líka fyrir lesendur að þekkja meginlínurnar
í forsögunni vegna þess að það dýpkar skilning okkar á
aðalatriðinu: Sögu Hæstaréttar Íslands. Þannig áttum
við okkur vonandi betur á því hversu dýrmætt sjálfstætt
dómsvald er og getum betur lagt sjálfstætt mat á mikilvægi
þess, t.d. þegar stjórnmálamenn vísa til fortíðar en fara
jafnframt frjálslega með staðreyndir eins og stundum vill
gerast.
Varðandi réttarríkið og önnur mikilvæg lögfræðileg hugtök
í þessari sögu þá las ég mér til um þau, reyndi að styðjast
við a.m.k. tvær heimildir varðandi hvert og eitt hugtak,
lét þó oftast íslenskar heimildir nægja svo framarlega sem
þær byggðu á erlendum heimildum að einhverju leyti.
Það er mikilvægt að skoða þessi hugtök í íslensku eða
norrænu samhengi. Þegar ljóst var að slík hugtök kæmu
fyrir í meginköflum verksins eða skiptu máli til skilnings
á efni þeirra, þá reyndi ég að útskýra þau í kafla II, á eftir
innganginum, til þess að hafa ekki of mikið af þess háttar
skýringum í meginköflunum.“
Flokks- eða stéttadómstóll?
Ætla mætti að Íslendingar hefðu fagnað þessu óskabarni hins
fullvalda ríkis en því var ekki að heilsa. Greina má fálæti og
tortryggni í ýmsum samtímaheimildum og Hæstiréttur varð
pólitískt bitbein. Af hverju telur þú það hafa stafað? Var hann
„skakkt settur á laggirnar“ og gerður að „flokksdómi“ eins og
Magnús Torfason sagði á Alþingi árið 1932?
„Fálætið og tortryggnin komu ekki síst til af því að hæsta-
réttar dómararnir voru taldir þjóna íhaldinu. Þar með
væri Hæstiréttur eins konar flokks- eða stéttadómstóll og
almenningur gæti varla vænst réttlætis á þeim bæ. Þannig var
að minnsta kosti orðræða forystumanna Alþýðuflokksins og
róttækari arms Framsóknarflokksins sem Jónas Jónsson frá
Hriflu fór fyrir. Að sumu leyti var þessi tortryggni skiljanleg
enda lágu rætur hennar dýpra. En Jónas og fleiri gerðu meira
úr þessu en efni stóðu til og ólu þannig á tortryggni sem átti
ekki alltaf rétt á sér. Mér finnst fullyrðing Magnúsar hæpin
nú þegar ég hef skoðað þetta og reyndar var honum bent á
það með rökum að þetta stæðist ekki skoðun.“
Ófriður á upphafsárum
Kaflinn um tímabilið frá 1920-1935 kallar þú baráttuna
um Hæstarétt, og fjallar þar um pólitísk hitamál sem vörðuðu
dómstólinn. Var sjálfstæði Hæstaréttar ógnað strax í upphafi af
pólitísku valdabrölti?
„Pólitískur ófriður í kringum Hæstarétt á upphafsárum
hans var auðvitað óheppilegur. Þá þegar fóru að heyrast stef
sem áttu eftir að óma hærra nokkrum árum síðar, t.d. um
að það þyrfti að hreinsa til í Hæstarétti. Þegar fram í sótti,
sérstaklega eftir að Jónas frá Hriflu varð dómsmálaráðherra
árið 1927, magnaðist þessi óróleiki svo mikið að sjálfstæði
réttarins var ógnað. Þarna þarf að hafa í huga stöðu þeirra
sem harðast gengu fram og þau hagsmunaöfl sem þar
voru að baki. Í aðra röndina var þetta valdabrölt, hluti af
víðtækari baráttu um nýfengið vald á pólitíska sviðinu en
einnig á viðskiptasviðinu og víðar í hinu unga fullvalda
ríki. Hæstiréttur lendir þarna milli á milli steins og sleggju.
Það er því ekki tilviljun, að mínum dómi, að þegar sambúð
samvinnumanna og Framsóknarmanna annars vegar og
kaupmanna og íhaldsins hins vegar varð friðsamari eftir
miðjan fjórða áratuginn, þá skapaðist loks tiltölulega góður
friður um Hæstarétt.“
Sjálfstæði dómsvaldsins
Stjórnmál og afskipti stjórnmálamanna koma víða við sögu
í þessum aldarspegli. M.a. fjallar þú um hugmyndir Björns
Bjarnasonar dómsmálaráðherra um endurskoðun dómstólalaga
árið 2003 þar sem ætlunin var m.a. að láta ráðherra skipa forseta
Hæstaréttar. Finnst þér afskipti stjórnmálamanna hafa verið of
mikil í kringum dómsvaldið og myndir þú telja að Hæstiréttur
hafi á einhverjum tímapunkti verið pólitískur?
„Ég myndi frekar segja viðleitni Björns Bjarnasonar, því
ég tel nokkuð ljóst að þetta hafi verið að undirlagi Davíðs
Oddssonar. Þessi flétta þeirra minnir svolítið á það þegar
Jónas frá Hriflu lagði fram fimmtardómsfrumvarpið. Þá
var Jónas ekki bara dómsmálaráðherra heldur í reynd
valdamesti maður landsins. Björn var dómsmálaráðherra
á sínum tíma og Davíð valdamesti maður landsins.
Já, mér finnst afskiptin stundum hafa verið á neikvæðum,
óuppbyggilegum og pólitískum forsendum. Mér finnst
hæpið að halda því fram að Hæstiréttur hafi á einhverju
tímabili verið pólitískt verkfæri eða beinlínis þjónað
tilteknum pólitískum öflum en ætla heldur ekki að þræta
fyrir að pólitík hafi aldrei litað dóma réttarins í hundrað
ára sögu hans. Almennt séð hef ég þá tilfinningu eftir að
hafa skrifað sögu Hæstaréttar að rétturinn hafi leitast við að