Lögmannablaðið - 2022, Page 36

Lögmannablaðið - 2022, Page 36
36 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 Hvar byrjaði lögmannsferillinn þinn? Þegar ég lauk námi þjóðhátíðarárið 1974 bauðst mér vinna hjá Þorvaldi Þórarinssyni lögmanni og þar kynntist ég Hilmari Ingimundarsyni lögmanni. Ég var hjá Þorvaldi þar til hann lést ári síðar og þá opnaði ég eigin lögfræðiskrifstofu, 1. júní 1975, í samstarfi við Hilmar. Við Hilmar vorum í samstarfi allt þar til hann féll frá í október 2010. Hvernig gekk starfið fyrstu árin? Vel. Á þessum tíma höfðu lögmenn einkarétt á að flytja mál í Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði en lögfræðingar máttu flytja mál úti á landi. Ég fór mikið út á land í fjárnámsferðir fyrir aðra lögmenn og fyrirtæki en á þessum tíma lauk flestum fjárnámum með árangri. Það kom jafnvel fyrir að ég tók flugvél á leigu til að fara á staðina en með því vannst tími og ég náði að undirbúa mig betur. Á þessum tíma var ég orðinn all umsvifamikill í innheimtumálum. Þar kom að því að Lögmannafélaginu fannst ég hafa óþarflega mikið umleikis enda ekki í félaginu þar sem lögmannsréttindi voru áskilin. Eftir athugasemdir Lögmannafélagsins við þóknanir til mín tók Borgardómur upp á því að lækka þær vegna réttindaleysis. Það varð til þess að Hilmar leppaði mig og ég aflaði mér réttindanna. Var erfitt að afla sér lögmannsréttinda? Já, það þurfti að flytja fjögur prófmál þar sem próf- dómarar voru viðstaddir. Það gat verið mjög erfitt að fá mál hjá lögmönnum. En þau prófmál sem ég flutti voru komin frá mér sjálfum. Eins var þegar ég tók hæstaréttarlögmannsprófið árið 1991. Þá hef ég látið ótal mörg mál frá mér til prófmanna og finnst ánægjulegt að hafa getið orðið öðrum til aðstoðar við öflun réttinda. Munurinn á að spila brigde eða vist Hefur eðli starfsins breyst síðan þú byrjaðir? Feykilega mikið. Dómstólarnir eru orðnir fjarlægari að forminu til. Í starfstöðvum dóma drukku dómarar, lögmenn og starfsfólk kaffi í bróðerni, ræddu málin og var þar oft lifandi málstofa. Menn treystu að dómsmálameðferð myndi batna þegar gagngerar breytingar voru gerðar á réttarfarslögum í upphafi 10. áratugs síðustu aldar. Dómararnir voru hins vegar enn þeir sömu og réttarfarsbætur náðu því ekki allar almennilega fram. Ég var umsvifamikill í sakamálum í mörg ár og þar er öðruvísi hugsunarháttur en í einkamálréttarfarinu. Reglurnar eru aðrar og ef hægt er að bera það saman við eitthvað er það svolítið eins og munurinn á að spila bridge eða vist. Þannig eymir enn í dag af rannsóknarréttarfari liðinna tíma. Þetta er sérstaklega áberandi þegar reynsluminni fulltrúar ákæruvaldsins flytja mál, þá hættir dómurum til að taka undir sig forræði sóknar, að mínu mati. Það er munur á að flytja mál fyrir dómi eða gegn dómi. Þá þykja mér dómsniðurstöður orðnar helst til ófyrirsjáan- legar í dag. Áður fyrr mátti segja með 90% vissu hver niðurstaða dómara yrði en nú virðist miklu ráða hvaða dómari á sæti í málinu. Dómarar eiga að taka mið af því um hvað menn deila, þeir eiga að rétta lögin og fjalla einungis um það sem menn leggja fyrir dóminn. Það grefur undan trausti ef að dómar eru ófyrirsjáanlegir. Þrátt fyrir þetta er bjart framundan og margir öflugir lögmenn starfandi. Varstu aldrei smeykur við skjólstæðingana? Nei, það var aldrei tilefni til þess. Menn átta sig ekki á því að þeir sem hafa lent í refsimálum eru oft mest „loyal“ skjólstæðingarnir. Þá er líka mikilvægt að muna að þegar maður neitar sök þá hefur verjandi ekki forsendur eða leyfi til að rengja hann og ber að halda hagsmunum hans fram að því virtu. Finnst þér að lögfræðingar hafi skyldur í samfélaginu? Já þeir eiga að hafa þær en það er ef til vill á undanhaldi. Sum mál virðast helst rekin fyrir lögmennina sjálfa. Ég hef alltaf verið með lögmannsstofu í miðbænum og þar hafa menn oft gengið inn af götunni í vandræðum sínum. Ég hef verið mikið í pro bono málum enda ekki dregnar tennur úr tannlausum túla. Þá er það breytt sem áður var að þegar fólk leitaði til lögmanna þá kom það jafnvel uppáklætt, í sparifötunum. Neyðarvörn lögmannsins Þegar þú lítur yfir ferilinn, eru einhver sérstök mál eftirminnilegri en önnur? Ég hef komið að mörgum stórum og erfiðum málum í gegnum tíðina sem eru bara eins og hvert annað verkefni. Hins vegar eru það oft litlu, „ómerkilegu“ málin sem fleyta réttarfarinu fram á við. Annars eru málin mörg og misjöfn. Ég var einu sinni að flytja mál í Borgarnesi þar sem piltar voru ákærðir fyrir lyfjaakstur. Lögreglumaður sem mætti sem vitni var spurður að því hvernig ökulagið hefði verið. Hann svaraði: „Þeir óku löturhægt en þurftu til þess allan

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.