Skessuhorn - 19.10.2022, Blaðsíða 14
MIÐVIKUDAGUR 19. OKTÓBER 202214
Ekki skortir menningu, fjör og
mannlíf í byggðakjörnum Vestur-
lands þennan mánuðinn. Ýmsar
hausthátíðir standa yfir þessa dag-
ana og nóg er um að vera.
Um næstu helgi er menningar-
hátíðin Norðurljósin í Stykkis-
hólmi og Haustfagnaður sauð-
fjárbænda í Dölum. Í vikunni þar
eftir hefjast svo Vökudagar á Akra-
nesi sem er tíu daga menningar- og
listahátíð. Þá lauk menningarhátíð-
inni Rökkurdögum í Grundarfirði
síðastliðið sunnudagskvöld en þar
var sneisafull dagskrá alla síðustu
viku. Blaðamaður tók púlsinn á
forsvarsmönnum þessara hátíða og
var það sammerkt með þeim öllum
að góð stemning og gleði væri ein-
kennandi í þeirra samfélagi.
Norðurljósin
menningarhátíð í
Stykkishólmi 20.
23. október
Norðurljósahátíð í Stykkishólmi
hefst fimmtudaginn 20. október
og stendur yfir alla helgina, hún
er nú haldin í sjötta sinn. Þar er
fjölbreytt úrval viðburða, t.a.m.
gestalistamenn í Gallerí Bragga,
Loppumarkaður í Tónlistarskól-
anum, Spilakvöld á Narfeyrarstofu,
Hrekkjavökustemning í Ásbyrgi og
Tónleikar með Mugison á Foss-
hótel Stykkishólmi. Enginn ætti
að vera svangur í bænum þessa
helgi: Litháenskt og pólskt smakk
verður á kaffihúsinu Sjávarborg,
Lionskonur selja grænmetissúpu
og brauð í Lionshúsinu á Frúarstíg,
Narfeyrarstofa kynnir til leiks nýjan
matseðil, sérstakur Norðurljósa-
hátíðarseðill er á Fosshótel Stykkis-
hólmi þessa helgi og tíu rétta
smakkseðill á Sjávarpakkhúsinu,
svo eitthvað sé nefnt.
Hátíðin er haldin annað hvert
ár í kringum fyrsta vetrardag en
hún datt upp fyrir árið 2020 vegna
óviðráðanlegra ástæðna. „Stemn-
ingin í bænum fyrir hátíðinni er
mjög góð. Það eru margir sem fá
gesti heim um helgina og svo eru
líka brottfluttir Hólmarar sem
líta hér við. Það er opnunarhátíð í
kirkjunni á fimmtudagskvöldið þar
sem verða til að mynda fjölbreytt
tónlistaratriði og veittar ýmsar
viðurkenningar. Það verða samt
nokkrir viðburðir fyrr um daginn
eins og Ljósahátíð,“ segir Hjördís
Pálsdóttir, formaður starfsnefndar,
en sú hátíð er samvinnuverkefni
nemenda leikskólans og nemenda
yngri bekkja grunnskólans þar sem
kveikt verður á kertum í krukku
og þeim raðað upp í stóran hring.
Markmiðið er að lýsa upp myrkrið
og eiga saman fallega stund í nafni
vináttu og kærleika.
Hjördís segir engan eigin-
legan hápunkt vera á hátíðinni en
tónlistar viðburðir hafi alltaf slegið
í gegn. Á laugardagskvöldið verða
tvennir stofutónleikar í Vinaminni
og aðrir tvennir tónleikar í gömlu
kirkjunni. Það má því segja að tón-
listin verði við völd það kvöldið.
Þá er Norska húsið 190 ára í ár,
þar er Byggðasafn Snæfellinga og
Hnappdæla staðsett og verður því
margt um að vera í safninu um
helgina. Þar verður hægt að skreyta
sinn eigin bolla á föstudaginn, á
laugardaginn verður þar pop up
verslun og á sunnudeginum verður
kaffikynning frá Kaffibrennslunni
Valeriu í Grundarfirði og kíkir spá-
kona í bollana að lokinni kynningu.
Dagskrána má sjá í heild sinni á
www.visitstykkisholmur.is
Haustfagnaður
Félags sauðfjárbænda
í Dalasýslu 21.
22. október
Félag Sauðfjárbænda í Dölum
efnir til Haustfagnaðar um kom-
andi helgi, 21.-22. október. Dag-
skráin er heldur minni í sniðum
núna en hún hefur verið, að síð-
ustu tveimur árum undanskildum.
Svavar Magnús Jóhannsson, for-
maður FSD segir ástæðuna vera þá
að félagið sé að þreifa fyrir sér eftir
heimsfaraldurinn. „Við erum bara
að prufa okkur áfram eftir Covid.
Við erum að fara rólega af stað
með þetta og ætlum að sjá hvernig
mætingin verður og hvort fólk sé
ef til vill enn þá hrætt við Covid.“
Haustfagnaður FSD er árlegur við-
burður og í ár samanstendur dag-
skráin af heimsóknum á Sauð-
fjárbú þar sem fólki gefst kostur á
að líta augum best dæmdu lamb-
hrúta Dalasýslu. Þá verður upp-
skeruhátíð og verðlaunaafhending
þar sem veitt verða verðlaun fyrir
bestu lambhrútana, bestu ærnar
og bestu gimbrarnar. Hljómsveitin
Allt í einu leikur svo fyrir dansi á
laugardagskvöldið og langt fram á
nótt. „Hápunktur helgarinnar er
klárlega uppskeruhátíðin þar sem
við veitum verðlaun í fjölmörgum
flokkum.
Vinsælir viðburðir eins og
Íslandsmót í rúningi og Sviða-
veisla verða ekki haldin í ár. „Það
var tekin ákvörðun um að prófa að
halda Íslandsmótið í öðrum lands-
hlutum. Það var farin að vera heldur
dræm mæting meðal keppenda svo
nú verður mótið haldið á öðrum
stað til að sjá hvort mætingin verði
betri,“ segir Svavar. - En hvað með
sviðaveisluna? „Við höfum alveg
fengið nokkrar kvartanir yfir því að
það sé ekki sviðaveisla því það hefur
alltaf verið frekar vinsæll viðburður
hjá okkur. En mætingin var samt
farin að slappast svo við erum jafn-
vel að skoða það að hafa sviðaveislu
annað hvert ár núna. En það er
ekkert ákveðið. Annars eru nokkrir
búnir að spyrja hvort það verði þá
ekki svið í boði á uppskeruhátíð-
inni,“ segir Svavar og hlær. Það
verði þó ekki á boðstólum þar að
sinni.
Svavar segir góða stemningu vera
fyrir ballinu á laugardagskvöldið,
það sé þó nokkuð af fólki búið að
melda sig á það nú þegar. Hann
hvetur fólk til að koma á ballið,
skemmta sér og hafa gaman.
Vökudagar á
Akranesi 27. október
– 6. nóvember
Vökudagar er menningar- og lista-
hátíð sem haldin er á Akranesi dag-
ana 27. október – 6. nóvember.
Hátíðin hefur verið haldin á Akra-
nesi um árabil og fer stækkandi með
hveru ári að sögn Sigrúnar Ágústu
Helgudóttur, verkefnastjóra Vöku-
daga. „Það er ótrúlega góð þátt-
taka í ár. Þetta er tíu daga hátíð þar
sem eru auglýstir opnir viðburðir
eins og tónleikar, uppistands-
sýningar og myndlistarsýningar.
Margir listamenn taka þátt með
sýningum eða opnum vinnustofum
og allir leik- og grunnskólarnir í
bænum taka þátt með einhverjum
hætti,“ segir Sigrún en hún segir
Vökudaga vera eins konar hápunkt
listamanna á Akranesi en það eru
margir listamenn sem vinna statt
og stöðugt að verkum til þess að
sýna á hátíðinni.
Í Covid skapaðist sú hefð að hafa
listagöngu á setningu Vökudaga,
27. október. Það heppnaðist einkar
vel og sá viðburður virðist kominn
til að vera. „Þetta er að vinda upp
á sig en nú eru 15 listamenn með
opnar sýningar og vinnustofur
þetta kvöld og fólk getur rölt þar á
milli. Það hefur skapast mjög góð
stemning í bænum fyrir þessum
viðburði,“ segir Sigrún. Á setningu
Vökudaga eru líka veitt hin árlegu
menningarverðlaun Akraness. Þar
er það menningarmálanefnd, með
samþykki bæjarstjórnar, sem velur
úr tilnefningunum og formaður
nefndarinnar afhendir verðlaunin.
Tónlistarhátíðin Heimaskagi
og viðburðurinn Veturnætur
hafa vakið mikla lukku á Vöku-
dögum síðustu ár. „Veturnætur
er viðburður sem byggðasafnið í
Görðum stendur fyrir og Auður
Líndal hefur haldið utan um síðustu
ár. Þetta er hryllingsvölundarhús
sem er opið á Hrekkjavöku, 31.
október, það hefur vakið mikla
lukku en í fyrra mættu þangað 2500
manns,“ segir Sigrún. Heimaskagi
er aftur á móti tónlistarhátíð sem
Óli Palli heldur utan um. Þar er
fjöldinn allur af tónlistarmönnum
sem koma á Akranes og spila fyrir
fólk í heimahúsum. Þá eru ákveðnir
íbúar í bænum sem opna heimili sitt
fyrir gestum og tónlistarmönnum
eina kvöldstund, þann 5. nóvem-
ber. Fyrstu tónlistarmennirnir stíga
á stokk klukkan 20:00 og þeir síð-
ustu enda um klukkan 23:00. Þeir
sem eru hvað duglegastir að ganga
á milli húsa geta því séð fjölmörg
atriði.
Dagskrá Vökudaga er að taka á
sig lokamynd og verður hún borin
út í hús á Akranesi strax eftir helgi
auk þess sem hún verður auglýst
í Skessuhorni. Í ár er dagskráin
með öllum upplýsingum átta blað-
síðna bæklingur og getur það gefið
íbúum til kynna hve margir við-
burðir eru í boði. Inni á vefnum
www.skagalif.is er líka hægt að sjá
yfirlit yfir viðburði hátíðarinnar.
Afstaðnir Rökkurdagar
í Grundarfirði
Menningarhátíðin Rökkurdagar
er árlegur viðburður í Grundar-
firði og hefur verið síðan 2001.
Hátíðin er alltaf haldin í október
eða nóvem ber, þegar rökkrið
læðist að og segir Þuríður Gía
Jóhannes dóttir starfsmaður Menn-
ingarnefndar Grundarfjarðarbæjar
að tilgangur hátíðarinnar sé einna
helst að stytta fólki stundirnar og
ýta undir samveru í þessum dimmu
mánuðum. „Við hvetjum fólk til
að setja seríur í glugga, fara saman
út að ganga og njóta samveru með
fólkinu í kringum sig því þessi tími
árs getur verið erfiður fyrir suma.
Það má segja að með hátíðinni
séum við að leita að ljósinu í rökkr-
inu og eiga góðar stundir saman,“
segir Þuríður.
Hátíðin hefur síðustu ár staðið
allt frá viku og upp í þrjár, en í ár
var dagskráin þétt pökkuð niður
á eina viku. Þar voru ýmiss konar
listviðburðir, ljósaganga vonar,
kyrrðarstund í Kirkjugarðinum,
karókí-kvöld og Rökkursund þar
sem spilaðir voru ljúfir tónar í
sundlaug Grundarfjarðar. Þur-
íður segir hátíðina hafa gengið vel
fyrir sig og að bæjarbúar séu virkir
í að taka þátt og búa til viðburði.
„Nemendur í grunnskólanum voru
með Rökkurquiz sem var mjög vel
sótt, þetta var svona fjölskyldu-
stund og flottir vinningar í boði.
Svo var UMFG með skemmtilegan
fyrirlestur um hamingju í vinnu og
lífi.“ Það sem hafi þó staðið upp úr
var viðburðurinn Bjór og Sálmar,
sem haldinn var nú í fyrsta sinn.
„Það var Aðalsteinn Þorvaldsson
sem sá um viðburðinn með Lindu
Maríu og Mána organista. Það var
fullt af fólki sem mætti á Kaffi59,
fékk sér bjór og hlustaði eða söng
með þegar spilaðir voru þekktir
sálmar og það myndaðist mjög góð
stemning,“ segir Þuríður en dag-
skráin endaði svo á bleikri messu
í Grundarfjarðarkirkju síðasta
sunnudag.
gbþ
Líflegt haust í landshlutanum
Opin söngstund í Tónlistarskólanum á
Norðurljósahátíðinni 2018.
Ljósm. Norðurljósin
Norðurljósahátíðin er haldin í Stykkishólmi um helgina. Ljósm. Norðurljósin
Hér er Jón Ingi Ólafsson að stýra
hrútauppboði á hrútasýningu á
Haustfagnaði 2018.
Ljósm. úr safni/ sla.
Það verður engin sviðaveisla á
Haustfagnaðinum í ár, en hér er
mynd frá sviðaveislu í íþróttahúsinu á
Laugum í Sælingsdal á Haustfagnaði
2015.
Á Vökudögum 2021 var sett upp hryll-
ingsvölundarhús í Hafbjargarhúsinu á
Breið. Uppvakningar og draugar tóku
þar á móti gestum sem þangað þorðu.
Nemendur Vallarsels stóðu sig frábær-
lega á tónleikum sínum á Vökudögum
2021.
Það var þétt setið á Kaffi59 þegar við-
burðurinn Bjór og Sálmar var í gangi á
Rökkurdögum. Ljósm. þgj
Listasýning í Sögumiðstöð á Rökkur-
dögum. Ljósm. þgj
Ljósaganga vonar er fastur liður á Rökkurdögum. Ljósm. þgj.