Morgunblaðið - 29.09.2022, Síða 35

Morgunblaðið - 29.09.2022, Síða 35
MINNINGAR 35 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. SEPTEMBER 2022 ing þín og takk fyrir allar góðu samverustundirnar. Eyvindur Ölnir og Arnaldur Sölvi Kristjánssynir. Frænkan mín kæra fallin er frá, fyrirmynd kvenna sem rétt vilja fá. Kraftmikil ætíð með kjarkaða lund kona með vilja að opna öll sund. Aldrei of seint auðnu að fá, aldrei of seint réttlæti’ að ná. Kærleikur hennar til kvenna var skýr, kjarki þær fyllti er dagur reis nýr. Gæfusöm var hún og gleðina bar, glóðina kveikti, því sjálfstraust var svar. Vængjaðar lyftu sér vegsemdar til, þetta er „veröld sem ég vil“. (SGS) Guð blessi minningu Sigríðar Th. Erlendsdóttur. Sigríður Th. Guðmundsdóttir. Sigga, Lóa og Rúna. Þrjár systur á Barónsstígnum, fæddar á 4. áratug síðustu aldar. Þegar amma Jó kallaði á þær var það alltaf í þessari röð jafnvel þótt hún ætlaði bara að kalla á mömmu okkar, Rúnu. Sigga frænka sagðist hafa horft í gegnum skráargatið á svefnherbergishurðinni þegar mamma og tvíburabróðir hennar, Óli, fæddust. Æ síðan var hún kletturinn í lífi mömmu. Við systkinin nutum einnig góðs af, enda leit hún á okkur sem sín börn og við litum á hana sem mömmu númer tvö. Sigga var hafsjór af fróðleik, gat rakið ættir fólks langt aftur og aldrei kom maður að tómum kofunum hjá henni. Þegar Sigga frænka var á miðjum aldri, búin að ala upp börnin sín fjögur og koma þeim til manns, skellti hún sér í nám í sagnfræði og þar var hún sann- arlega á heimavelli. Hún lagði áherslu á kvennasögu og gaf síðar út bókina Veröld sem ég vil: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907- 1992, sem er merk heimild um efnið. Þá kenndi hún sagnfræði við Háskóla Íslands um árabil. Þessi störf hennar komu þó ekki í veg fyrir að á heimili Siggu á Bergstaðastrætinu komu jafnan saman í hádeginu þær systur og oft og tíðum þeirra afkomendur. Þannig var þetta í áratugi, alltaf var öruggt að hægt væri að fá kaffi og brauð í hádeginu hjá Siggu á Bergstaðastrætinu. Þar var skeggrætt um mál líðandi stundar og þau brotin til mergjar! Sigga frænka hafði ríka rétt- lætiskennd og lagði gott til allra mála. Hún tamdi sér að sjá það góða og fallega frekar en að ein- blína á hið neikvæða. Fyrir okkur sem erum yngri er mikils virði að upplifa það hve þær systur voru samrýndar og stóðu saman í gegnum lífið. Sigga vildi hafa fólkið sitt í kringum sig og börnin hennar og barnabörn búa flest í Þingholtunum og samgangurinn alltaf mikill. Þær systur töluðu einnig saman í síma á hverjum degi, aldrei sjaldnar en tvisvar og stundum oft á dag. Alltaf var haldið upp á afmæli og ekki bara stórafmæli. Frænkurnar komu saman í veislum og gerðu sér glaðan dag. Þá var mikið hlegið og mikið sungið enda kunnu þær þá list vel. Alltaf var stutt í brosið hjá henni Siggu og hún hafði frábær- an húmor. Sigga missti Hjalta Geir, manninn sinn, eftir tæplega 70 ára hjónaband fyrir tveimur ár- um og missirinn var mikill. Sam- rýndari hjón eru vandfundin og þau nutu þess að vera saman alla tíð. Eftir að Hjalti Geir féll frá tóku börn Siggu og barnabörn svo sannarlega utan um hana og hún var rík að eiga þau öll að. Þar uppskar hún vissulega eins og hún sáði, enda betri mamma og amma vandfundin. Sigga sagði gjarnan: Maðurinn fæðist einn og hann deyr einn. Sigga var þó ekki ein. Hún fékk að fara eins og hún vildi, heima hjá sér á Bergstaða- strætinu, nýbúin að borða uppá- haldsmatinn sinn með báðum dætrum sínum. Sigga, Lóa og Rúna, systurnar á Barónsstígnum, sem voru svo nánar og hver annarri kær. Nú tökum við utan um mömmu sem er ein eftir og trúum því að þær eigi eftir að hittast aftur í betri heimi. Okkar hjartans samúðarkveðj- ur sendum við börnum Siggu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum og biðjum Guð að blessa hennar góðu minn- ingu. Ólafur, Guðrún Sesselja og Jóhanna Vigdís Arnarbörn (Óli, Budda og Hansa). Kynni okkar Sigríðar Theo- dóru Erlendsdóttur á unglingsár- unum urðu snemma að vináttu sem átti eftir að verða órofa og ævilöng. Þessa vináttu höfum við ræktað með gagnkvæmu trausti, einlægni og umhyggju í tæpa átta áratugi. Vinabönd verða vart traustari. Ég kveð því kæra vin- konu með sárum söknuði. Ævi og vinátta okkar Sigríðar er skemmtilega samofin þjóðlíf- inu. Árið sem við fæddumst minntist þjóðin þess á Þingvöllum að þúsund ár voru frá stofnun Al- þingis hins forna. Fjórtán árum síðar, þegar við Sigríður urðum vinkonur, kom þjóðin aftur saman á Þingvöllum, þá til að stofna lýð- veldi. Á þeim árum skiptist Reykja- vík enn í Vestur- og Austurbæ eftir ósýnilegum læk sem rennur undir Lækjargötu. Sigríður kom úr Austurbænum, af Baróns- stígnum, en ég af Ásvallagötunni vestast í Vesturbænum. Leiðir okkar lágu svo saman við þennan ósýnilega læk, í Gagnfræðaskól- anum við Vonarstræti. Báðar höfðum við tekið stefnuna yfir lækinn á Menntaskólann í Reykjavík. Í Menntaskólanum fórum við í máladeild og lentum í fyrsta stelpubekknum í þessu þá óneit- anlega karlavígi. Við, þessar fáu stelpur við skólann, létum til okk- ar taka, stofnuðum málfunda- kvenfélagið Aþenu, stóðum fyrir dansæfingu og buðum strákunum á ballið. Þar vorum það við stelp- urnar sem buðum upp strákun- um, ekki öfugt. Þetta voru góðir tímar. Við vorum ungar og stað- ráðnar í því að mennta okkur, óþreyjufullar að fá að bæta heim- inn: ungar stúlkur á þröskuldi fullorðinsáranna, í bæ sem vildi verða borg. Heimsstríði var að ljúka, en handan við hornið beið vor um alla veröld. Á menntaskólaárunum varð ljóst að við Sigríður áttum sam- leið. Við vorum samstiga í heimi hugmyndanna, höfðum báðar áhuga á sagnfræði og heilluðumst af franskri tungu og menningu. En staða íslenskra kvenna og kvenréttindabarátta voru þó þau málefni sem á okkur brunnu og rædd voru í þaula, hvenær sem færi gafst. Í þeim efnum lét vin- konan mín kæra ekki sitt eftir liggja. Hún lauk BA- og MA-próf- um í sagnfræði og stundaði merk- ar rannsóknir varðandi atvinnu- þátttöku reykvískra kvenna. Með kennslu sinni og rannsóknum lagði hún grunn að kvennasögu og gerði hana að íslenskri fræði- grein. Mikið dáðist ég að henni þegar út kom gagnmerk bók hennar, Veröld sem ég vil, um sögu íslenskrar kvenréttindabar- áttu. Ung kynntist Sigríður glæsi- legum pilti sem þá átti heima í hjarta höfuðstaðarins við Hverf- isgötuna og þau giftu sig árið 1953. Hinn lánsami var Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaarki- tekt og forstjóri, sem lést fyrir tveimur árum. Reyndar urðu þau bæði lánsöm, því hjónaband þeirra varð einstaklega ástríkt og farsælt. Þau eignuðust fjögur börn, sem öll hafa látið að sér kveða og getið sér gott orð, hvert á sínu sviði. Það verður svo ekki minnst á þau hjónin bæði, að ekki sé getið um húsið þeirra reisulega, við Bergstaðastrætið, sem er ein- stakt í sinni röð. Heimili þeirra, sem var sérstaklega hlýlegt og fallegt, endurspeglaði einlæga gestrisni húsráðenda. Þaðan á ég dýrmætar minningar um góðra vina fundi. Við Ástríður, dóttir mín, vorum þar gestir á gamlárs- kvöld um langt árabil. Sigríður var glæsileg í fasi, glaðsinna og skemmtileg. Hún var leiftrandi greind og hafði sér- stakt lag á því að vekja áhuga okkar samtíðarmanna á hugðar- efnum sínum. En ekki síst var hún einstakur vinur, hollráð, trygglynd og umhyggjusöm. Stundum finnst mér það hafi verið í gær sem við Sigríður stig- um fyrstu sporin á okkar löngu vinavegferð. Nú lít ég þakklát um öxl, því það voru auðnuspor. Vigdís Finnbogadóttir. Í dag kveðjum við kæra vin- konu, Sigríði Th. Erlendsdóttur, andbýling okkar á Bergstaða- strætinu í rúma sex áratugi. Bekkjarsystkinin allt frá gagn- fræðaskólaaldri kveðja líka góðan félaga, en þau urðu stúdentar frá MR 1949 í hópi 105 samstúdenta. Hópurinn hefur haldið vel saman og hist mánaðarlega allt frá því að kom að starfslokum hjá þeim. Nú lifa 16 skólasystkin, og eru oftast 10 sem mæta, njóta lífsins, þakk- lát fyrir vináttu og heilsu. Mikil samheldni og vinskapur hefur verið í hópi skólasystkin- anna alla tíð og hefur það ekki síst verið að þakka tryggð Siggu og rausnarskap hennar og Hjalta Geirs heitins. Þegar um stór tímamót var að ræða hjá árgang- inum buðu þau ýmist til fagnaðar á sínu fallega heimili á Bergstaða- strætinu eða í sumarhúsi sínu í Laugarási í Biskupstungum. Síð- asta stórhátíð hjá árganginum var þegar haldið var upp á sjötíu ára stúdentsafmælið fyrir þrem- ur árum. Þá buðu þau Sigga og Hjalti Geir til veislu á Bergstaða- strætinu, spilað og sungið og Sigga í essinu sínu í gestgjafa- hlutverkinu. Þá hefur hópurinn farið í ferðalög, innanlands og ut- an. Siggu verður sárt saknað í bekkjarsystkinahópnum, sem hittist á kaffitorginu í Neskirkju. Við Eggert teljum það mikið happ fyrir okkur og fjölskyldu okkar að hafa verið andbýlingar og notið vináttu Siggu og Hjalta Geirs og fjölskyldu þeirra öll þessi ár. Við höfum orðið þess að- njótandi að fagna með þeim á mörgum gleðistundum og eigum ógleymanlegar minningar með þeim. Þeirra er beggja saknað. Afkomendurnir eru orðnir marg- ir, fjölskyldan einstaklega sam- heldin, og það fór ekki milli mála hvað Sigga mat þau öll mikils. Við sendum þeim innilegar samúðarkveðjur. Sigríður Dagbjartsdóttir og Eggert Ásgeirsson. Leiðir okkar Sigríðar lágu saman á vettvangi Kvenréttinda- félags Íslands. Þegar ég tók við formennsku í félaginu 1992 lá fyr- ir handrit hennar að sögu félags- ins, sem hún hafði unnið að um skeið. Stjórn KRFÍ hafði nokkr- um árum áður stofnað Söguritun- arsjóð og fengið Sigríði til að hefja vinnu við að safna heimild- um, rannsaka gögn félagsins og skrifa söguna. Hún bjó þá þegar að yfirgripsmikilli þekkingu á kvennasögu Íslands eftir sagn- fræðinám við Háskóla Íslands. Þetta sumar var hafist handa við að undirbúa útgáfu verksins. Útgáfustjórn var skipuð, Björg Einarsdóttir rithöfundur var ráð- in ritstjóri myndefnis væntan- legrar bókar og Elisabet A. Cochran tók að sér útlit og hönn- un. Skemmtilegur tími tók við á skrifstofu félagsins á efstu hæð Hallveigarstaða við Túngötu, þar sem umhverfið og birtan lék við okkur, en bestur var að sjálfsögðu félagsskapurinn. Sigríður gerir í sögunni ítar- lega grein fyrir aðdraganda að stofnun KRFÍ og samskiptum við alþjóðlegu kvenréttindahreyf- inguna og leitar víða fanga. Þar var hlutur Bríetar Bjarnhéðins- dóttur mestur og merkilegt að sjá hve öflug hún var við að skapa tengsl og kynna málefni íslenskra kvenna, ekki einungis á Norður- löndum, heldur líka meðal tals- manna kvenréttinda annars stað- ar í Evrópu og Bandaríkjunum. Í byrjun tuttugustu aldar voru Alþjóðlegu kvenréttindasamtök- in stofnuð, IAW, og í gegnum þau barst mikil hvatning og áskorun til íslenskra kvenna að stofna fé- lag sem berðist fyrir pólitískum réttindum þeirra. Formaður IAW lagði ríka áherslu á að Ísland fengi sjálfstæða og fullgilda aðild að samtökunum, en yrði ekki aðili á vegum Danmerkur. Sigríður tengir vel saman í sögu sinni kvenfrelsisbaráttuna og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinn- ar. Hún fer m.a. rækilega yfir starf félagsins varðandi réttindi kvenna á vinnumarkaði, málefni einstæðra mæðra og áhrif á laga- setningu Alþingis og fjallar um þau fjölbreyttu viðfangsefni, sem voru á borði félagsins eftir að kosningarétturinn var fenginn. Veröld sem ég vil – saga Kven- réttindafélags Íslands 1907-1992 kom út 1993 og ber Sigríði gott vitni. Það var bæði ánægjulegt og lærdómsríkt að vinna með henni að þessu verkefni. Sigríður var skemmtileg, ljúf í viðmóti en ákveðin. Hún hafði góða nærveru. Hjalti Geir Kristjánsson, eig- inmaður Sigríðar, hafði mikinn áhuga á verkefninu og studdi okkur með ráðum og dáð. Nú eru þau bæði horfin á braut og við Geir minnumst þeirra með virð- ingu og þakklæti fyrir góð kynni. Við sendum fjölskyldunni einlæg- ar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sigríðar Th. Erlendsdóttur. Inga Jóna Þórðardóttir. Sigríður Theodóra Erlends- dóttir. Hljómfagurt nafn sem hæfði einstakri hamingjukonu. Hamingjuna skóp hún sjálf með því að vera sjálfri sér trú og óhrædd að feta eigin leiðir. Hún var fjölskyldumanneskja og hefði óhikað sagt eins og Bríet Bjarn- héðinsdóttir að hennar mesta hamingja í lífinu væri góður eig- inmaður og börnin. Sigga og Hjalti Geir fallegasta parið, sam- hent og jafningjar í einu og öllu, börnin og barnabörnin augastein- arnir hennar. Hún var orðin meira en fertug þegar hún hóf háskólanám og lét að sér kveða svo um munaði. Gerðist brautryðjandi í kvenna- sögurannsóknum, ritaði grund- vallarrit og skildi eftir sig djúp spor í íslenskri sagnfræði. Fannst hún eiga formæðrum sínum skuld að gjalda‘ eins og hún sagði í við- tali. Hún var fyrst til að kenna námskeið í kvennasögu við Há- skóla Íslands og hafði mótandi áhrif á nýja kynslóð sagnfræð- inga sem sýndi þakklæti í verki með glæsilegu afmælisriti þegar hún var sjötug. Lífsverkið hennar er ríkulegt, hvert sem litið er. En mestu skiptir hvílíka persónu hún hafði að geyma. Sigga og Hjalti Geir voru vinir tengdafólksins míns – og urðu þar með vinir mínir. En svo kynntist ég þeim báðum á mínum eigin forsendum og hreifst af þeim. Við tvær unnum t.d. saman í úthlutunarnefnd rit- höfunda um þriggja ára skeið og betri samstarfskonu var ekki hægt að hugsa sér, samviskusöm og heiðarleg, réttsýn og úrræða- góð, skemmtileg og snjöll. Það var engin lognmolla á þeim fund- um. Í júní áttum við töfrandi stund með henni og fjölskyldunni hjá Jóhönnu Vigdísi. Sól skein í heiði SJÁ SÍÐU 36 Elskulegur sonur minn, faðir, tengdafaðir, afi og vinur, GUÐNI RÚNAR ÞÓRISSON múrari, varð bráðkvaddur föstudaginn 23. september. Útförin fer fram frá Seljakirkju miðvikudaginn 5. október klukkan 13. Guðrún Bjarnadóttir Ríkharð Óskar Guðnason Valdís Unnarsdóttir Svandís Birta Ríkharðsdóttir Svandís Ríkharðsdóttir Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma, GUÐNÝ ÞORGEIRSDÓTTIR, til heimilis í Norðurbrún 1, lést á lungnadeild Landspítala Fossvogi 24. september. Útför fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Dadda Árný Eiðsdóttir Harpa Eiðsdóttir Elín Eiðsdóttir Einar Jónasson Hafsteinn Kröyer Eiðsson Ágústa Arndal Eyþórsdóttir og barnabörn Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, MARSIBIL JÓNSDÓTTIR, Bella, lést á líknardeildinni í Kópavogi 20. september. Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Ferdinand Þórir Ferdinandsson Jón Friðrik Ferdinandsson Halisa Mekonen Magnea Guðný Ferdinandsd. Róbert Örvar Ferdinandsson Guðrún Finnborg Þórðardóttir Ingibjörg Kr. Ferdinandsd. Gauti Laxdal barnabörn og barnabarnabörn Harpa Heimisdóttir s. 842 0204 Brynja Gunnarsdóttir s. 821 2045 Kirkjulundur 19 | 210 Garðabær s. 842 0204 | www.harpautfor.is Ástkær móðir mín, tengdamóðir, amma og langamma, GÍGJA JÓHANNSDÓTTIR fiðluleikari, lést á Landspítalanum mánudaginn 19. september. Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju fimmtudaginn 6. október klukkan 13. Jóhann F. Valdimarsson Íris Björk Viðarsdóttir Valdimar Viktor Jóhannsson Ragnhildur Hauksdóttir Viðar Snær Jóhannsson Gígja Björk Jóhannsdóttir Þóra Björk Valdimarsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.