Morgunblaðið - 16.11.2022, Blaðsíða 4
FRÉTTIR
Innlent4
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 16. NÓVEMBER 2022
ÁTT ÞÚ RÉTT Á
SLYSABÓTUM?
Veitum fría ráðgjöf í slysamálum
skadi.is
S. 568 1245 | fyrirspurnir@skadi.is | skadi.is
Snúa sér að lög-
mannsstörfum
lSigríðurAndersen ogKarlGauti
Fyrrverandi dómsmálaráðherra og
þingmaður Sjálfstæðisflokksins,
Sigríður Á. Andersen, hefur leyst
út málflutningsréttindi sín og það
hefur fyrrverandi alþingismaðurinn
Karl Gauti Hjaltason einnig gert en
þau luku bæði þingsetu við síðustu
kosningar haustið 2021.
Sigríður lauk samkvæmt
Alþingismannatali héraðsdómslög-
mannsprófi árið 2001 og starfaði
sem héraðsdómslögmaður hjá LEX
áður en hún tók sæti á þingi árið
2015.
„Ég væri nú ekki að leysa þau
út nema ég ætlaði að nýta þau
eitthvað,“ segir hún í samtali við
Morgunblaðið. Hún bætir við að
hún hyggist starfa sjálfstætt. „Ég
kannski opna einhverja stofu sjálf.“
Sigríður segir að þetta hafi alltaf
staðið til. „Ég var búin að ákveða
að taka mér ársfrí eftir síðustu
kosningar og nú er það liðið. Svo ég
er að hefja störf í ýmsu.“
„Gæti verið gaman“
Karl Gauti Hjaltason, sem sat á
þingi á árunum 2017-2022, síðast
fyrir Miðflokkinn, ákvað að leysa
út lögmannsréttindi sín sem hann
segir að hafi „legið þarna í áratugi”.
Hann lauk prófi þar sem hann öðl-
aðist réttindi héraðsdómslögmanns
árið 1996.
„Ég hef verið í störfum sem sam-
rýmast ekki því að vera lögmaður,“
segir Karl en hann hefur gegnt
ýmsum störfum á undanförnum
áratugum, svo sem starfi lögreglu-
stjóra, sýslumanns í Vestmannaeyj-
um og skólastjóra Lögregluskóla
ríkisins.
„En ég er það ekki lengur svo ég
bara leysi út mín lögmannsréttindi
og get þá farið að praktísera sem
slíkur. Það gæti verið gaman að
prófa það, að taka einhver lög-
mannsstörf að sér.“
Sigríður A.
Andersen
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Karl Gauti
Hjaltason
Á Tindastóli Óvenjulegt er að opnað sé á skíðasvæðinu upp úr miðjum
október eins og í ár. Norsk æfingalið hafa sýnt áhuga á að prófa svæðið.
Enn of hlýtt fyrir skíðin
nema hjá Tindastóli
lFyrst evrópskra skíðasvæða, fyrir utan jöklana
Skíðavertíðin er almennt ekki farin
af stað á landinu en á Tindastóli
hefur þó viðrað vel til skíðaiðkunar
undanfarnar vikur og ásóknin því
verið mikil þar.
„Við höfum verið mjög heppin
með veður. Við erum búin að ná
þremur helgum og höfum verið með
æfingafélög frá öllum landshlutum
Íslands,“ segir Sigurður Hauksson,
forstöðumaður skíðasvæðis Tinda-
stóls, sem liggur við Sauðárkrók.
Hann segir þó útlitið fyrir helgina
ekki gott. Nú sé að hlýna þar eins
og annars staðar á landinu. „En við
erum komin með góðan grunn fyrir
veturinn.“
Það eru ekki bara íslenskir skíða-
garpar sem hafa verið áhugasamir
um að sækja brekkur Tindastóls
heim. „Því miður er öll Evrópa í
basli með að fá snjó. Norsk æfinga-
lið hafa verið að hafa samband því
það er lítið um snjó þar.“ Hann segir
að Tindastóll sé fyrsta skíðasvæðið
í Evrópu, sem ekki flokkast sem
jökull, sem sé opnað. „Það er mikill
áhugi alls staðar og það eru allir að
leita að snjó.“
Skíðasvæðið liggur á mjög snjó-
þungu svæði og hefur staðarhöldur-
um oft tekist að opna í nóvember
en það er óvenjulegt að opnað sé
á svæðinu upp úr miðjum október
eins og í ár.
Bjartsýnustu menn Íslands
„Það hefur einhver sagt mér
að við séum bjartsýnustu menn
Íslands,“ segir Sigurður um þá sem
reka skíðasvæði og viðurkennir að
það geti verið krefjandi að halda úti
starfsemi sem er svona háð veðr-
inu. „Það geta verið miklar sveiflur
en maður verður bara að gera það
besta úr hlutunum.“
Annars staðar á landinu er enn
of hlýtt. Einar Bjarnason, rekstrar-
stjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum,
segir undirbúninginn fyrir veturinn
þó ganga vel. Verið sé að koma upp
tveimur nýjum stólalyftum og því
komi hlýindin sér í raun ágætlega.
„Við viljum helst opna fyrir jól og
það hefur stundum tekist en svo
eru það hin árin þar sem er bara
algjört skítviðri yfir jól og áramót.
Þetta er á báða bóga en stefnan er
alltaf að opna fyrir jól. Ég er búinn
að lofa í einhverju viðtali að opna
15. desember,“ segir hann. Veður-
guðirnir hljóti að vera með sér í liði.
Á skíðasvæðinu í Oddsskarði
í Fjarðabyggð fyrir austan er
sömu sögu að segja. Þar rignir og
snjórinn sem hafði sest í upphafi
mánaðar er að skolast burt.
„Við bíðum bara enn eftir snjón-
um. Það er bara úrhellisrigning,“
segir Hilmar Örn Sanmann. Í Odds-
skarði sé einnig venjan að opna í
kringum jól en hann segist vonast
eftir snjó í desember. „Það er allt
að verða klárt hjá okkur, það bara
vantar snjó.“
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
AkranesMikill viðbúnaður var í kringumAkraneshöll í gær og götunni
lokað til að reyna að ná krananum af þakinu.Æfingum var einnig aflýst.
Íþróttir Ekki er vitað hvenær
íþróttastarf getur hafist í höllinni.
Krani féll á
Akraneshöll
lÓvíst hvenær íþróttastarf hefst á ný
Byggingarkrani féll ofan á Akra-
neshöll á Akranesi í gær með þeim
afleiðingum að skemmdir urðu á
þakinu. Að sögn Páls Guðmundar
Ásgeirssonar, verkefnastjóra hjá
ÍA, voru ung börn á fótboltaæfingu
þegar óhappið varð en sem betur fer
slasaðist enginn. Börnin sem voru
á æfingu eru 6-7 ára í 1. og 2. bekk.
Dóttir Páls Guðmundar var í húsinu
þegar kraninn féll á þakið og segir
hann að börnin hafi mörg hver orðið
ansi skelkuð.
Börnunum boðin áfallahjálp
„Ég var ekki sjálfur á staðnum,
en frétti að þjálfararnir hefðu far-
ið með alla krakkana í annan enda
hallarinnar og skiljanlega brá þeim
við þetta,“ segir Páll og bætir við að
þjálfarar hafi sent út tilkynningu til
foreldra barnanna þar sem boðið sé
upp á áfallahjálp fyrir þá sem vilja
þiggja hana.
Götunni við Akraneshöll var lok-
að í gær og verið var að reyna að ná
byggingarkrananum ofan af þaki hall-
arinnar.
„Ég var niðri á Jaðarbökkum bara
rétt áðan með son minn á körfu-
boltaæfingu í annarri byggingu,“
sagði Páll Guðmundur um kvöld-
matarleytið í gærkvöldi. „Þá sá ég að
lögreglan var í rauninni búin að loka
götunni fyrir allri umferð þar sem
kraninn er og þeir voru komnir með
annan krana til að reyna að ná þess-
um af þakinu,“ segir Páll Guðmundur
Ásgeirsson, verkefnastjóri hjá ÍA.
„Við vitum ekkert enn hvað höllin
verður lengi lokuð, en það verða alla
vega engar æfingar næstu daga. Þetta
er enn allt óljóst og ekki vitað hvað
olli þessu. Við höfum í rauninni ekk-
ert annað æfingasvæði þegar það er
svona blautt í veðri, því það er ekki
hægt að spila á gervigrasvellinum í
svona vætu.“