Morgunblaðið - 16.11.2022, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 16.11.2022, Blaðsíða 17
yndi af náttúru Íslands. Seint gleymi ég ferð sem ég fór með honum þegar hann var sýslumað- ur á Patreksfirði og fór að sinna ýmsum erindum. Fórum við víða um sveitina þann dag. Þekkti hann öll fjöll og kennileiti með nafni og hvern bæ. Trúlega hefur hann þekkt alla ábúendur með nafni. Við Guðrún systir hans giftum okkur og eignuðumst tvö börn, Erlu Jónu 1974 og Skarphéðin Kristin 1981. Guðrún lést langt um aldur fram 1982. Skarphéðinn lést í bílslysi 2005. Í þessum áföll- um stóð Stefán sem klettur við hlið mér. Var alltaf til staðar, traustur og ljúfur. Eftir að Guð- rún lést bjuggum við, börnin og ég, í sama húsi og tengdaforeldrar mínir í Barðavogi 30: við á jarð- hæðinni og þau á efri hæðinni. Þannig var þetta sannkallað fjöl- skylduhús og mikið líf og fjör þeg- ar Stefán og Inga komu með börnin í frí til Reykjavíkur. Seinna, þegar ég kynntist Rann- veigu, núverandi konu minni, breiddu Stefán og tengdaforeldr- ar mínir faðminn á móti henni og tóku hana strax inn í fjölskylduna. Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt Stefán að vini og félaga öll þessi ár. Elsku Inga, Þórunn Erla og Jó- hann, Kristín María og Róbert, Ásí og Arnar, Stefán Einar og Sara, barnabörn og barnabarna- börn, minningin um góðan dreng lifir. Guð gefi ykkur styrk í sorg- inni. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Sverrir Jónsson. Við Stefán Skarphéðinsson vorum tengdir í sömu fjölskyldu og hafði ég heimsótt hann og Ingu frænku reglulega síðustu ár. Undanfarið hafði ég heimsótt Stefán eins oft og mögulegt var og því vissi ég að hverju stefndi. Þrátt fyrir það var mér afar þung- bært að fá þær fréttir að hann væri fallinn frá. Málefni fjölskyldunnar og vina voru Stefáni afar hugleikin og hafði hann góða yfirsýn yfir allt sem var í gangi hverju sinni. Í heimsóknum mínum ræddum við einnig sameignleg áhugamál, þar á meðal lögfræði og Sjálfstæðis- flokkinn. Stundum hringdi ég til Stefáns til þess að fá ráðleggingar í, að ég taldi, einföldum málum, þá kom alltaf sama svarið: komdu bara til mín og þá förum yfir þetta saman. Við græddum báðir á þessu, ég mikinn fróðleik og hann vonandi góða heimsókn. Stefán hafði áður starfað sem lögmaður, sýslumaður, dómari og lögreglustjóri. Hann gjörþekkti því opinbera stjórnsýslu. Stefán lagði ríka áherslu á að þessi störf væru þjónustustörf, dyr hans stóðu ávallt opnar til að þjónusta borgarana. Ég og fyrrverandi eig- inkona mín, auk vina minna og vandamanna, nutum þeirrar gæfu að geta leitað til Stefáns þegar við fengum óvandaða afgreiðslu hjá hinu opinbera við hin ýmsu mál. Stefán þá ýmist hringdi beint til forsvarsmanns viðkomandi stofn- unar eða hreinlega mætti á stað- inn til að knýja á um úrbætur og bætt vinnubrögð. Þegar honum fannst slíkt þurfa aðstoðaði hann okkur við að leita til umboðs- manns Alþingis og var þá vinnu- lagi breytt til batnaðar í kjölfarið hjá hinu opinbera. Ég og fólkið í kringum mig verðum Stefáni ævinlega þakklát fyrir þessa miklu aðstoð hans og þökkum um leið fyrir samfylgd- ina. Þeim missi sem nú er orðinn verður erfitt að venjast. Ég sendi Ingu, börnum, barna- börnum og stórfjölskyldu innileg- ar samúðarkveðjur. Magnús Einarsson Smith. MINNINGAR 17 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 16. NÓVEMBER 2022 ✝ Óskar Bergur Hlöðversson fæddist í Reykja- vík 13. september 1980. Hann lést á Landspítala Foss- vogi 27. október 2022. Foreldrar hans eru Jóhanna Soffía Mar Óskarsdóttir, f. 22. janúar 1955, og Hlöðver Berg- mundsson, f. 17. febrúar 1954. Foreldrar Jóhönnu eru Vil- borg Guðrún Sigurðardóttir, f. 2. júní 1931, og Óskar Árni Mar, f. 29. mars 1930, d. 16. ágúst 2015. Foreldar Hlöðvers eru Rannveig Jónsdóttir, f. 23. febrúar 1922, d. 4. júlí 2009, og Bergmundur Guðlaugsson, f. 12. mars 1918, d. 9. apríl 1990. Systur hans eru: 1) Heiðrún, f. 23. júlí 1984, maki Friðjón Sigurðarson. Synir þeirra eru: Dagur Jóhann, f. 5. ágúst 2011, og Benjamín Kári, f. 3. júní 2016. 2) Kristín, f. 3. maí 1989, maki Baldur Þorleifur Sigurlaugsson. Dóttir þeirra er Karitas Vera, f. 12. mars 2021. 3) Hildur, f. 3. maí 1989, maki Steinn Eldjárn Sigurðarson. Son- ur þeirra er Árni Eldjárn, f. 18. mars 2016. Óskar Bergur ólst upp í Reykja- vík til níu ára ald- urs, en þá fluttist fjölskyldan í Kópa- vog, en í Kópavogi átti hann síðan eftir að búa alla sína tíð. Óskar Bergur gekk í Digranesskóla og síðan í Menntaskólann í Kópavogi og útskrifaðist þaðan vorið 2000. Hann lauk B.Sc.-prófi í við- skiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hann stundaði ýmis störf eftir að námi lauk, síðustu árin á lag- erdeild bifreiðaumboðsins Heklu. Óskar Bergur hafði mikinn áhuga á íþróttum, þá sérstak- lega fótbolta. Hann æfði þó handbolta með HK á sínum yngri árum. Útför Óskars Bergs fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 16. nóvember 2022, kl. 13. Elsku bróðir. Það er með ólýs- anlegri sorg og söknuði sem við ritum þessi minningarorð. Þú varst elstur í röðinni af okkur systkinunum og þekkjum við ekki tilveruna án þín. Þegar við horf- um yfir farinn veg og hugsum til þín er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann „þakklæti“. Við er- um fyrst og fremst þakklátar fyrir að hafa alltaf átt þig að. Þú varst ábyrgi stóri bróðirinn sem lékst við okkur, passaðir okkur, stríddir okkur, varst alltaf svo hjálpsamur við okkur og kenndir okkur svo margt. Til dæmis að spila ýmis spil sem opinberaði jafnframt keppnisskap þitt enda sárt að tapa stundum fyrir minni máttar. Þessi spilahefð hefur síð- an haldist í fjölskyldunni alla tíð. Þú veittir okkur einnig tónlistar- legt uppeldi, hvað væri töff að hlusta á og hvað væri glatað. Þú þreyttist ekki á að vekja at- hygli á hversu mikið fórnarlamb þú værir að eiga þrjár ráðríkar systur. Sumir vildu þó meina að þú værir aldeilis heppinn að hafa þrjá ráðgjafa af hinu kyninu þeg- ar kom t.d. að fatavali og hegðun. Sem betur fer hafðir þú ómælda þolinmæði í garð okkar systra, enda varla annað hægt þegar maður á þrjár systur en aðeins eitt baðherbergi á æskuheimilinu. Við erum óendanlega þakklát- ar fyrir það að fyrri helmingur æviskeiðs þíns var laus við ein- kenni sjúkdómsins sem þú fædd- ist með. Það var áfall þegar sjúk- dómurinn gerði vart við sig þegar þú varst rúmlega tvítugur og ljóst að líf þitt yrði aldrei samt eftir það. Þessi áhyggjulausu bernsku- ár okkar og gleðistundirnar eru ómetanleg í huga okkar. Öll ferðalögin í barnæsku, bæði inn- anlands og utan, sem og ótalmörg ferðalög á fullorðinsárum. Sam- verustundir sem við fengum að njóta með þér og foreldrum okkar ásamt mökum og börnum sem síðar bættust í hópinn. Þú sem varst svo barngóður og áttir ein- stakt samband við systrabörn þín, alltaf til í leik og fíflagang, nú eða bara horfa á fótboltaleik eða tvo. Við erum ævinlega þakklátar fyrir samveruna þótt hún hafi auðvitað verið alltof stutt. Við gerðum okkur grein fyrir því að hvert ár, með þín erfiðu veikindi, voru gjöf. Þú glímdir við veikind- in með seiglu, einstöku æðruleysi og með húmorinn að vopni. Alltaf hélstu í grínið og gleðina, sama hvað bjátaði á, alveg fram á síð- asta dag. Þannig ætlum við að minnast þín. Elsku bróðir. Það er svo sárt að kveðja þig en treystu því að við munum halda í allar góðu minn- ingarnar sem við eigum um þig. Við treystum á það að hvar sem þú ert staddur núna sért þú að spila þín föstudagslög til að koma þér í gírinn og fá þér jafnvel einn ískaldan hlæjandi þínum smit- andi hlátri, vonandi með nafna þínum afa Óskari. Þínar systur, Heiðrún, Kristín og Hildur. Í dag kveðjum við Óskar Berg, kæran bróðurson okkar. Óskar Bergur átti þrjár yngri systur, Heiðrúnu og tvíburasysturnar Hildi og Kristínu, við hópinn hafa svo bæst fimm systrabörn sem voru honum mjög kær. Óskar Bergur var einn af stórum hópi systkinabarna okkar og er hans minnst fyrir einstaka ljúfmennsku og gamansemi í allri umgengni. Í gegnum öll upp- vaxtarár frændsystkinanna var mikill samgangur milli fjöl- skyldnanna, allar afmælisveisl- urnar, árlegu jólaboðin, útilegur og ótal önnur tilefni. Á þessum stundum var ýmislegt brallað, áhugamálin rædd og fjölskyldu- böndin jafnframt styrkt. Meðal áhugamála Óskars Bergs var fót- bolti og þá sérstaklega enski bolt- inn og deildi hann þessum mikla áhuga með föður sínum og öðrum úr fjölskyldunni. Lítið sem ekkert hefur verið um samkomur stórfjölskyldunn- ar síðastliðin tvö ár. Þó tókst okk- ur að ná saman einn dag í júní 2021 og þann dag skein sólin skært eftir marga rigningardaga og verður þessi dagur lengi í minnum hafður. Óskar Bergur glímdi við erfið veikindi til margra ára og nú er komið að kveðjustund. Eftir situr minning um ljúfan dreng. Við vottum foreldrum Óskars Bergs, systrum hans og fjöl- skyldum þeirra, sem og aldraðri móðurömmu, okkar dýpstu sam- úð. Ingibjörg, Katrín Björk og Sigrún Berglind Bergmundsdætur. Það er erfitt að þurfa að sætta sig við að geta ekki hitt þig aftur elsku frændi minn. Þú hefur allt- af verið svo stór partur af mínu lífi. Það voru aðeins tveir mán- uðir á milli okkar og við ólumst nánast upp saman. Eftir sitja all- ar þessar minningar. Þegar við söfnuðum ýmsum skordýrum í box þegar þú áttir heima í Grænuhlíðinni. Þegar ég lék mér með þér með He-Man-karlana þína og þegar ég reyndi að láta þig leika með mér í Barbie. Stundirnar sem við áttum heima hjá ömmu og afa í Kóngsbakk- anum og svo í Bogahlíðinni ásamt hinum frændsystkinunum. Jóla- böllin sem ég fékk að fara með ykkur og Óskari afa þínum hjá Oddfellow. Svo fluttir þú í Kópa- voginn. Þá var stutt að rölta niður í Hlíðarhjalla, þar brölluðum við ýmislegt saman. Við lékum okkur mikið úti, spiluðum Scotland Yard og þegar þið fenguð Mac- intosh-tölvuna, sem var algjör nýjung á þeim tíma, fengum við stundum að spila tölvuleiki. Við áttum alltaf sérstakt sam- band þú og ég. Þegar ég hugsa til baka þá held ég að við höfum aldrei rifist. Þú varst líka alveg einstaklega þolinmóður og alltaf svo góður. Þú vildir öllum vel. Það sem ein- kenndi þig var þitt fallega bros, hláturinn og svo var alltaf stutt í grínið. Þér fannst þó sérstaklega gaman að stríða systrum þínum sem þú elskaðir svo mikið. Þótt samverustundunum fækkaði þegar leið á unglingsárin hittumst við alltaf í hinu árlega jólaboði fjölskyldunnar. Þegar veikindin byrjuðu að hrjá þig varstu samt alltaf svo já- kvæður. Ég held að vegna þess hafi mér fundist eins og þetta myndi allt verða í lagi. Við hitt- umst lítið síðastliðin ár, en alltaf þegar við hittumst þá vissum við hvað okkur þótti vænt hvoru um annað. Það var alltaf þessi skil- yrðislausa ást. Elsku Óskar minn, hvíldu í friði fallegi vinur. Þín frænka, Rannveig. Sagt er að þeir sem guðirnir elska deyi ungir. Óskar Bergur var fjórði í röðinni af okkur barna- börnunum tólf. Hann var rólegur, kærleiksríkur, hjartahlýr og hvers manns hugljúfi. Óskar var mjög fallegur og myndarlegur á velli, bæði að utan og innan. Hann bjó fyrstu árin í lítilli kjallaraíbúð í Grænuhlíð 5 en flutti svo í Hlíð- arhjalla 14 í Kópavogi. Þar var oft gaman að koma því þar var mikil gleði ríkjandi. Óskari þótti svo vænt um allar systur sínar. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi og stundaði svo nám í Háskólanum í Reykjavík. Hann hafði mikinn áhuga á fót- bolta og öðrum íþróttum. Fjöl- skyldan var Óskari mikilvæg, hann sýndi systrum sínum mikinn kærleik og umhyggju strax á unga aldri. Systkinin voru mjög sam- heldin og Óskar var uppáhalds- frændi systurbarna sinna. Óskar Bergur átti síðustu árin við veikindi að stríða sem drógu úr honum mátt en fjölskyldan stóð þétt við bakið á honum. Ég á erfitt með að trúa því að veikindin hafi sigrað í þetta sinn. Ég þakka Ósk- ari fyrir allt það góða sem hann gaf til lífsins. Ég votta allri fjöl- skyldunni samúð mína. Hvíli elsku Óskar Bergur í friði. Kristjana Jónsdóttir. Óskar Bergur bar í brjósti flesta þá kosti sem okkur langar öll að hafa. Góðhjartaður, kíminn, hress, glaðlyndur og gríðarlega fróður. Ávallt glaður í bragði, glaður að sjá mann og til í að ræða hvað sem var. Fréttir dagsins eða persónuleg mál, engu skipti það því hann Óskar hafði alltaf áhuga og vildi stappa í fólk stálinu af sinni einstöku hlýju. Meira að segja í góðlátlegri stríðni gagnvart systrum sínum fannst mér hlýjan og lífsgleðin skína skært í gegn. Tónlist var honum mjög kær og vissi hann bókstaflega allt um flestar ef ekki allar þær hljóm- sveitir sem settu svip á heiminn undir lok síðustu aldar og fram á þessa. Svo lengi sem þær spiluðu ekki eitthvert ömurlegt væl eða froðupopp, eins og hann hefði sagt. Þessum viskubrunni nutum við fjölskylda hans góðs af, nema kannski ef maður lenti á móti hon- um í spurningaleik og efnið var tónlist, já eða íþróttir! Alltaf mun ég sjá eftir því að hafa ekki fundið tímann til að heimsækja hann og hlusta saman á nokkrar plötur, eins og við ræddum fyrir skömmu. Ég hélt við hefðum nægan tíma, en allt er því miður hverfult. Ég vil trúa því að Óskar myndi segja mér að hætta þessu væli, opna einn ískaldan og setja eitthvert al- mennilegt rokk á fóninn sér til heiðurs. Síðasta árið eða svo dáðist ég að honum fyrir óbilandi jákvæðni og hugrekki, en áskoranir þess hefðu án efa reynst flestum þrautin þyngri. Þrátt fyrir minnisleysi og erfiða endurhæfingu var aldrei neinn bilbug, hræðslu eða uppgjöf að greina hjá honum. Óskar var al- gjörlega vammlaus, hugrakkur og bjó að sínum sterka persónuleika og jákvæðni sem léði hverri stund með honum gæði og ánægju. Við sem þekktum hann erum ríkari fyrir vikið, og munum ætíð sakna hans. Hvíldu í friði elsku vinur og tengdabróðir. Steinn Eldjárn Sigurðarson. Minn kæri vinur, Óskar Berg- ur, er fallinn frá, langt fyrir ald- ur fram. Margt fer í gegnum hugann á svona tímamótum. Óskari kynntist ég tíu ára gamall á leið heim úr skóla eftir fyrsta skóladaginn í nýjum skóla þegar hann kom hlaupandi og kallaði á eftir mér „Ómar bíddu!“ Þetta var einnig fyrsti skóladagur Óskars í nýjum skóla og má segja að við höfum verið bestu vinir síðan þá. Ég get með sanni sagt að Óskar var minn besti og traustasti vinur. Saman gengum við í gegnum grunnskóla og menntaskóla og fylgdumst að í sameiginlegum vinahóp til síð- asta dags. Alltaf gat ég hringt í Óskar og spjallað um allt og ekk- ert og ómissandi var að heyra reglulega í honum eða hitta hann hvar sem var. Stór hluti af mér er farinn með því að missa kær- an vin. Margt var brallað á þessum tíma og mörgum stundum sem við upplifðum mun ég aldrei gleyma. Skari var sannkallaður frasakóngur og margar ódauð- legar setningar munu lifa um ókomna tíð. Skari var hlédrægur, bráð- greindur og sérlega hlýr. Hann glímdi við sín veikindi en aldrei bar hann þau á torg við sína sam- ferðarmenn nema spurður væri sérstaklega og þá var læknunum iðulega kennt um að vita ekkert. Ég veit að ég mun hitta þig aftur Skari minn og þú verður klár með pókerspilin og einn ískaldan þegar sú stund kemur, því margt áttum við eftir að gera og ræða. Fjölskyldunni þinni, Hlöðveri, Jóhönnu, systrum þínum og öðr- um aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð í sorginni, þeirra missir er mestur. En komin eru leiðarlok og lífsins kerti brunnið og þín er liðin æviönn á enda skeiðið runnið. Í hugann kemur minning mörg, og myndir horfinna daga, frá liðnum stundum læðist fram mörg ljúf og falleg saga. Þín vinartryggð var traust og föst og tengd því sanna og góða, og djúpa hjartahlýju og ást þú hafðir fram að bjóða. Og hjá þér oft var heillastund, við hryggð varst aldrei kenndur. Þú komst með gleðigull í mund og gafst á báðar hendur. Svo, vinur kæri, vertu sæll, nú vegir skilja að sinni. Þín gæta máttug verndarvöld á vegferð nýrri þinni. Með heitu, bljúgu þeli þér ég þakka kynninguna, um göfugan og góðan dreng ég geymi minninguna. (Höf. ók.) Þinn vinur Ómar. Í minningunni um látinn vin okkar, Óskar Berg, stendur tvennt upp úr. Hið fyrra var á vissan hátt mottóið hans í lífinu sem hann greip gjarnan til á sinn glaðværa hátt við alls kyns tæki- færi: „Ég nenni bara engu ves- eni.“ Af því mátti oft læra. Hið síð- ara var þó enn þá dýrmætara. Vinátta hans, sem alla tíð var svo einlæg og hlý, með brosinu hans, góða skapinu og endalausu já- kvæðninni, enda þótt sjálfur hafi Óskar þurft að mæta ýmsu mót- læti. Af því lærðum við enn þá meira. Þegar við stöldrum við á þess- um sorglegu tímamótum og rýn- um í framlag Óskars til vinahóps- ins kemur margt upp í hugann. Hann tók þátt í öllum hittingum, óháð áhuga sínum á hverju tilefni fyrir sig, lagði sig allan fram í hverri keppni sem við efndum til í vinahópnum og tók sigrum jafnt sem ósigrum alltaf með sömu gleðinni. Aðalatriðið var ekki að vinna heldur að vera með. Ólymp- íuhugsjónin í sinni fegurstu mynd. Ekki af því að hann hefði lært hana einhvers staðar heldur vegna þess að Óskar naut þess að taka þátt og spreyta sig, gleðjast með vinum sínum óháð úrslitum og stokka svo einfaldlega spilin og gefa upp á nýtt. Raunveruleikinn, lífið sjálft, er flóknara spilaborð. Enda þótt Óskar nennti engu veseni lenti hann samt óneitanlega í því. Í mót- vindinum hafði hann traust bak- land í foreldrum sínum og systr- um, vinum og vinnufélögunum hjá Heklu. Sá stuðningur var honum alla tíð ákaflega mikilvægur. Þrátt fyrir síðara heilablóðfallið, með til- heyrandi færniskerðingu, var Óskar ævinlega sami gleðigjafinn, hlýr, brosmildur og gaf af sér til allra sem hann umgekkst. Í þeim efnum var frábæri og oft á tíðum kaldhæðnislegi húmorinn hans aldrei langt undan, enda þótt hann segði aldrei styggðaryrði um nokkurn mann. Hann var einstak- lega barngóður og hafði alltaf bæði tíma og áhuga á spjallinu við krakkana okkar, enda í miklu uppáhaldi hjá þeim öllum. Óskar var mikill áhugamaður um fót- bolta og gerði margar vallarferð- irnar ógleymanlegar með botn- lausri uppsprettu af alls kyns misgáfulegri speki sem hann þreyttist aldrei á að deila með okkur. Ferðin til Frakklands, þar sem Ísland komst í 16 liða úrslit EM með sigurmarki gegn Aust- urríki á síðustu sekúndunum, var einn af hápunktunum. Í huga Ósk- ars toppaði ferðin jafnvel eftir- minnilegustu Liverpool-leikina en harðari „púlarar“ en Óskar voru vafalaust vandfundnir. Óskar var vel að sér á ýmsum sviðum. Nafnbótin „gáfaðasti rauðhærði maður landsins“ verð- ur aldrei af honum tekin enda þótt hún hafi einskorðast við tónlistar- þekkingu og e.t.v. ekki verið út- hlutað á mjög vísindalegum for- sendum. Hann var harður rokkari og tónlistargrúskinu, sem alla tíð var svo stór partur af lífi hans, lauk ekki fyrr en hann lagði upp í för sína til sumarlandsins. Við þökkum Óskari Bergi fyrir samfylgdina og allt það sem hann kenndi okkur. Um leið og við kveðjum góðan vin með söknuði óskum við honum blessunar á nýrri vegferð og vottum foreldr- um hans og systrum okkar dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng mun ávallt lifa. Björn Guðmundsson, Fannar Karvel, Garðar Snorri Guðmundsson, Harry Sampsted, Kristinn Geir Pálsson, Magnús Páll Gunnarsson, Pétur Kristjánsson, Sigtryggur Kolbeinsson. Óskar Bergur Hlöðversson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.