Bændablaðið - 20.10.2022, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. október 2022
LÍF&STARF
Nýverið var áfengislöggjöf á
Íslandi breytt í fyrsta skipti í rúm
30 ár svo einhverju máli skipti.
Var lögleidd sala bjórs frá
framleiðslustað eða beint frá býli
eins og það er stundum nefnt, þar
sem smærri framleiðendum var
veitt heimild til sölu áfengis beint til
neytenda með vissum takmörkunum.
Kom þessi breyting í kjölfar þrýstings
frá smáframleiðendum en fjöldi
þeirra og fjölbreytni hefur aukist
gríðarlega hér á landi síðustu 15 árin
eða svo. Þessi þróun, sem á Íslandi
hófst með Kalda verksmiðjunni
árið 2006, á sér mun dýpri sögu
sem rekja má merkilegt nokk til
Bandaríkjanna. Þegar flestir hugsa
um bjórmenningu og Bandaríkin,
a.m.k. í sögulegu samhengi, hugsa
þeir um ljósa, óspennandi lagera
meðan sagan geymir ýmislegt annað
sem vert er að veita athygli.
Það er ætlunin hér og í næstu
tölublöðum Bændablaðsins að rekja
sögu handverksbrugghúsanna á
Íslandi en við byrjum á forsögunni.
Bjórinn samofin þroskasögu
mannkyns
Saga bjórsins er löng og ítarleg
en segja má að hún sé samofin
þroskasögu mannkyns frá örófi alda.
Fyrstu heimildir um gerjað korn
má rekja árþúsundir aftur í tímann,
til Mið-Austurlanda, og hafa sumir
meira að segja gengið svo langt að
upphaf fastrar búsetu og þar með
landbúnaðar eins og við þekkjum
hann í dag, þar sem fólk hafi tekið
sér fasta búsetu í stað safnaralífs
og veiðimennsku í því skyni að
rækta sér korn til matar – og ekki
síður drykkjar.
Ekki er fráleitt að hugsa sér að
bjórinn hafi uppgötvast fljótlega
eftir að fyrsta korngeymslan fylltist
af vatni og fékk svo að liggja í friði
í smástund.
Hér er ágætt að staldra við og
nefna að mjöður er talinn eldri en
bjór, en mjöður og bjór eru ekki
sami drykkurinn. Munurinn felst í
því að mjöður gerjast úr hunangi en
bjórinn úr korni. Skiptar skoðanir
eru á því hvor drykkurinn sé eldri
en segja má að uppgötvanir danskra
fornleifafræðinga á brauði sem
bakað var a.m.k. 4.000 árum fyrir
upphaf þekktrar kornræktar hafi veitt
bjórmönnum nokkurn byr í seglin
varðandi þessa umræðu.
Áfengisbannið ódauðlega
Í öllu falli er bjórinn jafngamall
siðmenningunni og þróaðist
bjórgerðin samhliða henni.
Klaustur miðalda voru mikilvægar
bjórgerðarmiðstöðvar og urðu
verulegar framfarir á sviði
stórfelldrar bjórframleiðslu í
tengslum við verslunarfélög á borð
við Hansakaupmenn, sem teygðu
anga sína m.a. til Íslands. Bjórgerð
varð nútímastóriðnaður á seinni
hluta nítjándu aldar og í upphafi
þeirrar tuttugustu í tengslum við
tæknibreytingar sem auðvelduðu
stórfellda bruggun og átöppun á
lagerbjór. Þetta leiddi til mikillar
samþjöppunar á markaði og
einsleitni bjórs, ekki hvað síst í
Bandaríkjunum. Þar í landi skipti
líka máli áfengissölubann sem lék
smærri brugghúsin grátt.
Áfengisbannsins í Bandaríkjunum
er helst minnst í rómantísku
ljósi leynibúlla (Speakeasy) og
gert ódauðlegt í þjóðsögum um
stórglæponinn Al Capone. Bannið
sjálft var í gildi frá árinu 1920 til
ársins 1933, sem var einmitt sama ár
og áfengisbanni var aflétt á Íslandi,
að öllu leyti nema því að bjór var
áfram bannaður.
Í Bandaríkjunum var bjór-
framleiðslan hins vegar fremur
einsleit, enda einungis stærstu
bjórframleiðendurnir sem lifðu
bannið af og þeir urðu síðan að
leita allra leiða til að gera bruggið
hagkvæmara, enda samkeppnin
hörð og stríðsreksturinn sem var að
brjótast út í Evrópu setti enn frekar
strik í reikninginn.
Hér er ágætt að staldra við og
útskýra að bandarísk bjórmenning á
öldum áður var líkt og bjórmenningin
í öðrum löndum fjölbreytt og
skemmtileg. Enskir landnemar höfðu
komið með ölhefðir með sér og í
sögulegu samhengi var bjórflóran
þar nokkuð dökk.
Aukning þýskra innflytjenda upp
úr miðri 19. öld þýddi hins vegar að
lagerbjórinn varð sívinsælli og eru
nöfn innflytjenda þessa tíma, á borð
við Joseph Schlitz, Frederick Miller,
Adolphus Busch og Frederick Pabst
enn vel þekkt innan bjórheimsins.
Sem fyrr sagði varð bjór-
landslagið bandaríska einsleitara
í kjölfar áfengisbannsins og
ekki bætti úr skák að á árum
seinni heimsstyrjaldarinnar hófu
bruggmeistarar fyrir alvöru að notast
við hrísgrjón eða maískorn í bjórana.
Hrísgrjón koma með auðgerjanlega
sterkju og létta áferð bjórs, koma
með bragðlítið alkóhól og framkalla
það sem sumir kalla ameríska
bjórbragðið, sem flestir Evrópubúar
lýsa í dag sem fremur vatnskenndu.
Þannig má segja að ameríski lagerinn
sé afleiðing heimsstyrjaldar.
Upphaf handverksmenningar
Það var hins vegar eitt brugghús
sem neitaði að fara þessar leiðir
og hélt áfram að starfa eftir eldri
hefðum. Anchor brewing hét það
en árið 1965 var maður að nafni
Fritz Maytag III sem bjargaði
því frá gjaldþroti og tók upp á
sína arma. Er þetta sá atburður
sem af flestum er talinn marka
upphaf handverksmenningarinnar
í bjórnum.
Vissulega voru heimabruggarar
víða starfandi um Bandaríkin en
það var nálægt því ómögulegt að
komast í gegnum reglugerðarverkið
og brjótast í gegnum einokunarstöðu
stærri aðilanna þar til óvæntasta
hetja bjórheimsins, Jimmy Carter,
þá forseti, steig fram árið 1979 og
lögleiddi heimabrugg, einfaldaði
reglugerðir og opnaði fyrir þann
möguleika að hægt var með
auðveldari hætti að opna bruggbari.
Enda í kjölfarið á 9. áratugnum
spruttu þeir upp eins og gorkúlur
víðs vegar og kraftbjórabyltingin
hófst fyrir fulla alvöru.
Þessi hreyfing átti eftir að leiða
til byltingar víðar um heim. Fæstir
Íslendingar tengja Bandaríkin við
bjórbyltingar, en staðreyndin er eigi
síður sú að þarna hófst hún. Áhrifin
teygðu sig víða, meira að segja allt
til Íslands, sumarið 2006.
En það er saga fyrir næsta
Bændablað.
Höskuldur Sæmundsson
og Stefán Pálsson.
Fritz Maytag III sem bjargaði Anchor brewing frá gjaldþroti árið 1965 og tók
upp á sína arma.
Handverksbrugghúsin á Íslandi:
Forsagan í Bandaríkjunum
– Þversagnir í vestri
Átjándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna kvaddur en viðaukinn fjallaði um bann við áfengi. Myndin var tekinn á veitingastað 5. desember 1933 í New York.
Höskuldur
Sæmundsson.
Stefán Pálsson.
Pabst Blue Ribbon er ljós lagerbjór
sem enn er drukkinn víða.
Ekki er fráleitt
að hugsa sér
að bjórinn hafi upp-
götvast fljótlega eftir
að fyrsta korngeymslan
fylltist af vatni og fékk
svo að liggja í friði í
smástund. “
Skálað var fyrir endalokum átjánda viðaukans með brosi á vör.