Fréttablaðið - 16.03.2023, Blaðsíða 38
Það er þessi hugmynd
að maður klári að
vinna úr sorginni en
svo einhvern veginn
læðist hún aftan að
manni, sem er bara
fallegt.
Anna Pálína Árnadóttir hefði
orðið sextug í mars. Dóttir
hennar Þorgerður Ása heiðrar
minningu móður sinnar með
tónleikum.
tsh@frettabladid.is
Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir
minnist móður sinnar, Önnu Pálínu
Árnadóttur, með heiðurstónleikum
í Fríkirkjunni í kvöld, fimmtudag,
í tilefni þess að Anna Pálína hefði
orðið sextug 9. mars. Anna Pálína
var ein dáðasta vísnasöngkona
Íslands en hún lést úr krabbameini
á hátindi ferils síns 2004, aðeins 41
árs að aldri.
„Það var einhvern tíma í nóvem-
ber sem ég fór að huga að þessum
tónleikum og hugsaði með mér að
mig langaði að minnast hennar með
einhverjum hætti,“ segir Þorgerður
Ása.
Á tónleikunum í Fríkirkjunni
mun Ása f lytja valin lög af hljóm-
plötum móður sinnar en með henni
leika þeir Gunnar Gunnarsson á
píanó, Jón Rafnsson á kontrabassa
og Pétur Grétarsson á slagverk,
sem störfuðu allir náið með Önnu
Pálínu. Gestasöngvarar á tón-
leikunum eru söngkonan Guðrún
Gunnarsdóttir, ein nánasta vin-
konu Önnu Pálínu, og Álfgrímur
Aðalsteinsson, bróðir Ásu.
„Við héldum tónleika fyrir tíu
árum þegar hún hefði orðið fimm-
tug en þá var ég mjög feimin við
þennan samanburð og að setja mig
í hennar spor og vildi til dæmis alls
ekki syngja með hljómveit. Ég var
bara ein með gítar og söng eitt lag
sem var mjög gaman og þar kom
fram fjöldi listamanna. Í þetta sinn
langaði mig að gera eitthvað per-
sónulegra og hafa bara f lytjendur
sem tengdust henni.“
Gaf út átta plötur
Anna Pálína náði miklum frama í
tónlist þrátt fyrir stuttan feril og gaf
alls út átta plötur í ólíkum stíl, þar
af nokkrar með eiginmanni sínum
og föður Ásu, Aðalsteini Ásberg
Sigurðssyni.
„Hún samdi ekki mikið sjálf, ég
held að hún hafi samið eitt eða tvö
lög en þetta eru allt lög af plötunum
hennar sem við flytjum. Hún gaf út
átta plötur, þar af tvær barnaplötur
sem verða ekki með í prógramm-
inu, þannig að þetta verða lög af sex
plötum,“ segir Ása.
Fórstu í gegnum allan katalóginn
hennar þegar þú valdir lög á tón-
leikana?
„Já, ég byrjaði á því að skrifa niður
þau lög sem voru mér efst í huga
en svo bara skoðaði ég plöturnar
og valdi af þeim, svona mismikið
af hverjum diski. Þessi diskar eru
náttúrlega allir svo ólíkir, þetta er
vísnatónlist en svo er líka djass-
plata, þjóðlagaplata og sálmaplata,
þannig að þetta er mikil blanda.
Mér finnst mjög erfitt að gera upp
á milli þessara platna en ég held
mikið upp á plötuna Guð og gamlar
konur og lagið Skammlausa gamla
konan.“
Fær ekki flúið örlögin
Þorgerður Ása segist áður hafa forð-
ast samanburðinn við móður sína
en þó er ljóst að þær mæðgurnar
hafa farið svipaða leið í lífinu. Ása
er til að mynda sjálf vísnasöngkona
auk þess sem hún starfar við dag-
skrárgerð á Ríkisútvarpinu líkt og
móðir hennar gerði á árum áður.
„Maður fær kannski ekki f lúið
örlög sín að einhverju leyti,“ segir
Ása og hlær. „Ég strögglaði svolítið
við að koma út úr söngskápnum
þarna fyrir rúmum tíu árum en ég
er komin yfir það. Söngurinn kall-
aði á mig og svo líka útvarpið, það
var bara einhvern veginn þannig.“
Fylgir manni alla ævina
Það hljóta að vera ljúfsár tímamót
að fagna afmæli móður þinnar?
„Þetta fylgir manni alla ævina.
Maður heldur einhvern veginn að
þetta sé frá og það er þessi hugmynd
að maður klári að vinna úr sorginni
en svo einhvern veginn læðist hún
aftan að manni, sem er bara fal-
legt. Ég vildi fyrst hafa tónleikana á
afmælisdegi hennar 9. mars en það
vildi þannig til að hvorki bróðir
minn né pabbi minn voru á landinu
þannig að við ákváðum að hafa þá
viku seinna og það var mjög rétt.
Þá gat maður leyft sér að vera við-
kvæmur þann dag og svo fer tón-
leikadagurinn bara í fögnuð.“
Finnst þér móðir þín hafa fylgt þér
í gegnum lífið?
„Já, mamma náttúrlega hafði
ótrúlega mikil áhrif á mig og hvatti
mig til þess að syngja og lesa upp.
Áður en hún lést voru hún og móðir
hennar mínir helstu þjálfarar fyrir
Stóru upplestrarkeppnina í grunn-
skóla,“ segir Ása sem vann undan-
keppnina í sínum skóla og lenti í
þriðja sæti aðalkeppninnar.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér
standa og kveðst Ása vera að íhuga
að bæta við aukatónleikum.
„Það selst svo vel þannig það eru
ýmis teikn á lofti um að við gætum
þurft að bæta við tónleikum. Ég
hlakka mikið til að flytja þessi lög
og vona að þetta verði bara ótrúlega
gaman.“ n
Nánar á frettabladid.is
Mamma hafði ótrúlega
mikil áhrif á mig
Þorgerður Ása segist áður hafa verið feimin við samanburðinn við móður sína en þó er ljóst að þær mæðgurnar hafa
valið svipaða leið í lífinu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Anna Pálína Árnadóttir var ein dáðasta vísnasöngkona landsins en hún lést á
hátindi ferils síns árið 2004, aðeins 41 árs að aldri. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
22 LÍFIÐ FRÉTTABLAÐIÐ 16. MARS 2023
FIMMTUDAGUR