Fréttablaðið - 16.03.2023, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 16.03.2023, Blaðsíða 18
Útgefandi: Torg ehf Veffang: frettabladid.isÁbyrgðarmaður: Jón Þórisson Sölumaður auglýsinga: Jón Ívar Vilhelmsson, jonivar@frettabladid.is, s. 550 5652. Pálína segir fólk þurfa að elska sig sjálft aðeins meira. Þá muni það alltaf setja heilsu sína og heilsuræktina í forgang. FRÉTTABLAÐIÐ/ ANTON BRINK Líkaminn man eftir áföllum Pálína kveðst hafa verið barnið sem var aldrei í íþróttum og fannst líkamsrækt ömurleg. „En eftir að hafa átt eldri strákinn minn átján ára gömul, og eftir pínu erfið unglingsár, kviknaði einhver eldur og ég áttaði mig á hvað líkamsrækt hefur mikinn lækningamátt fyrir líkama og sál. Ég var 22 ára þegar ég þurfti að horfast í augu við lífið og fara í endurhæfingarúrræði á Akureyri sem gjörbreytti lífi mínu. Þar voru sálrænar meðferðir samtvinnaðar líkamlegum meðferðum og það breytti öllu, þar á meðal mér og ég öðlaðist nýtt líf,“ segir Pálína sem í kjölfarið fór í sálfræðinám ásamt því að mennta sig í einkaþjálfun. Í endurhæfingunni nyrðra var hún langyngst í hópi kvenna og ekki komin með líkamlega kvilla út frá sínum áföllum. „En allar konurnar í hópnum voru með líkamsmeiðsl og lífsstíls- sjúkdóma sem hægt var að tengja við áföll sem þær höfðu orðið fyrir á ævi sinni. Líkaminn man það sem komið hefur fyrir og hann geymir það ef ekki er unnið í því. Þess vegna fer fólk oft og tíðum í kulnun þegar líkaminn gefur sig vegna líkamlegs og andlegs álags. Áföllin geymast í litlum „pökkum“ innra með okkur og setjast í líffæri, vefi og vöðva þar sem þau sitja þar til við gerum eitthvað í þeim. Ellegar skemma þau út frá sér því taugakerfið getur ekki unnið rétt. Það stakk mig að allar þessar konur voru svo fallegar að utan sem innan og mér fannst það svo sorglegt að ég ákvað að sérhæfa mig í bættri heilsu kvenna til að reyna að koma í veg fyrir að þær einfaldlega lömuðust í lífinu,“ segir Pálína. Hún segir reyndar auðvelt að hvetja fólk til dáða, hvort sem það eru konur, börn eða karlar. „Maður þarf að hlusta af ein- lægni og leyfa manneskjunni að vera nákvæmlega eins og hún er, spyrja hana persónulegra spurninga og leyfa henni að kynnast sjálfri sér. Ég er góð í að taka eftir smáatriðum og því var auðvelt fyrir mig að benda þeim á árangurinn sem þær náðu, láta þær horfa í spegil og verða ástfangar af spegilmynd sinni. Því það fyrsta sem þarf til að sjá bata af einhverju tagi er að byrja að elska sjálfan sig og átta sig á því að maður er ekki áfallið sem hefur komið fyrir mann. Maður er nógu góður, alveg sama hvað hefur gerst.“ Að setja sjálfan sig í forgang Pálínu er best lýst sem heilara. Hún er með háskólagráðu í sálfræði og ýmsa titla sem hún hefur safnað til að þekkja líkamann betur, hvernig hann geymir áföll og getur losað sig við þau. „Ég hef mikinn áhuga á því að hjálpa fólki að líða betur í lífinu. Það geri ég með því að auka flæði hjá þeim með líkamsrækt og jóga, eða með því að hjálpa því að mýkja sig upp með rúllum fyrir bandvef, bandvefslosun, heilun og nuddi.“ Hún sérhæfir sig í skemmti- legum æfingum. „Í ræktinni á maður ekki að þurfa að líta stanslaust á klukk- una heldur njóta þess að svitna og anda. Fyrir mér eru skemmtilegar æfingar þær sem maður gleymir sér við vegna einbeitingar við að gera þær rétt. Það er til dæmis afar erfitt að gera tvíhöfðakrullu og gleyma sér. Æfingar sem mér finnst svo að ætti að forðast eins og heitan eldinn eru þær sem setja skrýtið álag á hrygginn, en allt er þetta persónubundið og fyrir þau sem eru með brjósklos þarf að fara rólega í ýmsar æfingar.“ Spurð um bestu og árangursrík- ustu heilsuræktina, svarar Pálína: „Ætli svarið sé ekki bland í poka. Þegar allt er gert í hófi, ekkert er of mikið og við hlúum að öllum hliðum heilsuræktarinnar. Við verðum öll að stunda styrktar- þjálfun af einhverju tagi, annars hverfa vöðvarnir með aldrinum, og svo er algjör skylda að teygja og rúlla, og gera einhvers konar þolþjálfun fyrir hjarta og tauga- kerfið.“ Fyrir Pálínu er draumaformið að vera laus við bólgur og bjúg. „Með réttu mataræði og metnaði í að rúlla sig, fara í nudd, stunda jóga, heita og kalda potta, og styrktarþjálfun geta allir komist í sitt draumaform. Metnaður er þar lykilatriði og að setja sjálfan sig í forgang. Við eigum bara eitt líf og mörg eyða mörgum klukku- stundum á dag á samfélagsmiðlum en hreyfa sig ekki neitt og skilja svo ekkert í því af hverju þau eru þreytt, þrútin og verkjuð.“ Sjálf ræktar Pálína sinn innri mann, líkama og sál á marga vegu. „Jóga gerir hvað mest fyrir mig. Þar næ ég góðri djúpslökun og að gleyma mér. Þessa dagana er ég á erfiðum tímamótum og hef þurft að sinna mínum innri kjarna aðeins meira. Ég nota óhefðbundn- ar leiðir eins og hugleiðslu inn í orkustöðvarnar. Nýverið prófaði ég dáleiðslu í fyrsta sinn og mæli með að allir prófi slíkt. Þar náði ég að vinna úr miklu síðan úr barn- æsku sem hafði ýtt undir að mér fannst ég ekki nógu „góð“, ásamt því að losa mig við kvíða sem blundaði djúpt innra með mér. Ég fer einnig til heilara sem vinnur með orkustöðvarnar. Göngutúr í náttúrunni er líka sígildur, þar sem gróður er mikill og trén há. Þar get ég hengt vandamál á greinarnar og skilið þau eftir.“ Með orma í maganum Pálína er með þúsundir fylgjenda á Instagram sem fylgjast með heilræðum hennar og fróðleik um heilsurækt og mataræði. „Ég er mikill lestrarhestur, með algjöran límheila og það skemmtilegasta sem ég geri er að miðla þekkingu minni áfram til almennings. Ég vil að við verðum hamingjusamasta þjóð í heimi en til þess þurfum við að huga að heilsunni sem í augnablikinu er á pínu brothættum stað. En ég er alltaf með góð ráð til að elska sjálfan sig betur, vera jákvæðari og velja hollari kostinn þegar kemur að mat og hreyfingu,“ segir Pálína sem hefur heiðarleika að leiðarljósi sem áhrifavaldur á Instagram. „Ég kem alltaf til dyranna eins og ég er klædd og samfélag mitt á Instagram hefur heillast af því. Ég er afar persónuleg og alltaf tilbúin að hjálpa. Ég tala líka um hluti sem ekki allir eru tilbúnir að ræða. Í brennidepli í fyrra voru sníkjudýr í maga okkar sem ógna bæði líkam- legri og andlegri heilsu. Ég fór ítar- lega í mitt innra ástand og benti samfélaginu á að fara í ristilskolun hjá Heilsunni minni í Hafnar- firði eftir að í ljós kom að margt af mínum heilsuvanda í áranna rás var tilkomið sökum þess að ég var með mikið af ormum í maganum sem engum hafði tekist að finna en komu í ljós í kjölfar ristilskolunar.“ Pálína gerði líka uppgötvun þegar hún fór til Grikklands þar sem lítið er um unnar matvörur og olíur. „Öll aukakílóin sem höfðu hlaðist utan á mig á meðgöngu hrundu af mér og ég ákvað að kynna mér áhrif unninna olía á mannslíkamann. Þar kom í ljós að þær eru afar skaðlegar heilsu okkar í miklu magni og því ákvað ég að taka þær út. Ég fjallaði mikið um þetta á Instagram, sem fékk mikla athygli því margir eru orðnir ráðþrota þegar kemur að því hvað á að borða. Sjálfri hefur mér aldrei liðið eins vel í líkamanum og eftir að ég tók þennan viðbjóð út úr fæðunni og hef fengið mikið af jákvæðum reynslusögum frá fylgjendum mínum um það sama. Ég var alltaf að berjast við að vera undir ákveðinni tölu á vigtinni en núna berst ég fyrir því að vera fyrir ofan ákveðna tölu. Ég er ekki hlynnt öfgamataræði eins og ketó og veganisma sem er alveg fallegt hugtak en það er afar erfitt að fá öll næringarefni á slíku mataræði, nema maður viti nákvæmlega hvað maður er að gera.“ Andleg heilsa er allt Pálína keppti áður í bikinífitness með góðum árangri en segist hætt slíkum keppnum. „Mig langar alltaf aftur upp á svið en eins skemmtilegt og það er langar mig frekar að þjálfa þau sem taka þátt í slíku. Að mínu mati ættu konur ekki að keppa mikið í þessu sporti því hormóna- búskapurinn fer oft í rugl og það hefur áhrif á svo marga mikilvæga ferla í kvenlíkamanum.“ Hún segir erfitt að svara því hvað henni þykir erfiðast þegar kemur að viljastyrk í ræktinni. „Því ég þarf frekar að sannfæra mig um að ég þurfi að hvíla mig. Ég held að fólk þurfi bara almennt að elska sjálft sig aðeins meira. Þá mun það alltaf setja heilsuræktina í forgang.“ Innt eftir því hvort tilveran sé ríkulegri þegar maður er í fanta- formi, segir Pálína: „Þegar ég var í fitness var lífið ekkert endilega betra því hausinn fer oft í rugl þegar maður er í niðurskurði. Í dag, þegar ég rúlla mig reglulega, fer í núvitundar- göngur, stunda jóga og styrktar- þjálfun, fer í heita og kalda potta, og er með lítið af bólgum, þá já, er lífið miklu betra. Það er líka svo gott þegar maður fer að borða hreina fæðu og er ekki stútfullur af úrgangi í þörmunum því þá virka öll ferli líkamans svo miklu betur. Mest af serótíninu okkar er tekið upp í görnunum og margir á þunglyndislyfjum sem auka þau efni í líkamanum. Ef fólk veldi hins vegar betri fæðu og passaði upp á ristilinn gæti ef til vill einhver prósenta sleppt því að taka inn þunglyndislyf. Ekki að ég sé á móti því að taka þunglyndislyf en það væri betra ef líkaminn gæti séð um að framleiða þessi efni sjálfur og hjálpa okkur að líða betur,“ segir Pálína. Hún hefur að markmiði að hjálpa einstaklingum að létta skap sitt samhliða því að léttast og bæta líkamsgetu sína. „Andleg heilsa er allt. Ef maður hefur hana ekki skiptir engu hvernig maður lítur út. Því ef maður er ekki með rétt hugarfar og talar niður til sín er erfitt að bæta líkamlega heilsu. Það felst kraftur í orðum og maður er það sem maður segir og hugsar. Ef maður er alltaf að níða skóinn af sjálfum sér gerist allt miklu hægar og stundum gerist einfaldlega ekki neitt.“ Kemur með sólina inn í lífið Pálínu líður best í faðmi fjölskyldu og vina þar sem ást og kærleikur ríkir og hún hefur háleit markmið. „En besta tilfinningin er þegar ég leiði góðan jógatíma í World Class og finn róna sem fólk býr yfir þegar það gengur út. Ég fékk einu sinni að heyra að að ég kæmi með „sólina inn í lífið“ og það besta sem ég geri er að hjálpa fólki að finna ró og kærleika í lífinu. Við vinkona mín erum í þann veginn að stofna nýtt fyrirtæki og markmiðið að gera Ísland að besta landi í heimi. Við byrjuðum auðvitað á byrjunarreit en höfum nú gert tíu ára plan þar sem við náum vonandi að hlúa að öllum stéttum og ungum sem öldruðum. Við hlökkum mikið til að hjálpa landsmönnum að breyta lífi sínu til hins betra og líða betur í eigin skinni. Ef við hjálpumst öll að og hlúum hvert að öðru er ekkert mál fyrir okkur að vera landið sem er til fyrirmyndar. Við erum nú bara lítið sjávarþorp svo það ætti ekki að vera svo erfitt.“ n Margt af mínum heilsuvanda í áranna rás var tilkomið sökum þess að ég var með mikið af ormum í maganum sem engum hafði tekist að finna en komu í ljós í kjölfar ristilskolunar. Allir geta komist í sitt draumaform. Metnaður er lykilatriði og það að setja sjálfan sig í forgang.  2 kynningarblað 16. mars 2023 FIMMTUDAGURHEILSUR ÆKT

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.