AVS. Arkitektúr verktækni skipulag - 01.12.1995, Qupperneq 31
HVAÐ ER GOÐUR SKÓLI?
runnskólinn er sú stofnun í þjóöfélaginu
sem allir fá einhverja reynslu af fyrr
eða síðar. Því til viðbótar má benda á
að stöðugt fleiri einstaklingar sækja
framhaldsskóla og háskóla og þvl er ekki undarlegt
að umræðan um hvernig góður skóli eigi að vera
komi oft upp manna á meðal. [ sjálfu sér er ekki óeðli-
legt að skiptar skoðanir séu um það með hvaða hætti
skólinn gegni best skyldum slnum við samfélagið og
engin furða þótt sú reynsla sem hver og einn hefur
af eigin skólagöngu eða skólagöngu barna sinna setji
svip sinn á umræður um skólamál. Til þess að skóli
geti sinnt hlutverki sínu svo vel sé er nauðsynlegt að
saman fari gott og hentugt húsnæði, góður aðbún-
aður nemenda og kennara og metnaðarfullt, vel
menntað og vel launað starfsfólk.
í framhaldi af þessari upptalningu er eðlilegt að
spyrja hvort þessi skilyrði séu almennt uppfyllt og
jafnframt hvernig forgangsröðun er háttað þegar
skipta þarf takmörkuðu fjármagni á milli þeirra liða
sem upp eru taldir hér að framan. Þá má og vekja
máls á því hverjir komi að þeirri forgangsröðun og
hverra hagsmunir séu hafðir að leiðarljósi.
Það er alkunna að við íslendingar verjum hlutfallslega
minna fjármagni til menntamála en þær nágranna-
þjóðir okkar sem við berum okkur gjarnan saman
við og viljum standa jafnfætis þegar gæði mennt-
unar eru metin. Þess vegna er enn mikilvægara að
forgangsröðunin miði að því að skólanum sé gert
kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu og áhersla
sé lögð á það við hönnun skólamannvirkja að bygg-
ing og allur aðbúnaður taki mið af þörfum skólastarfs.
Hér kem ég að þvl atriði sem ég tel mikilvægast að
menn hafi að leiðarljósi þegar skólamannvirki eru
hönnuð en það er að starfsemin sem fram á að fara
í skólanum móti í raun hvers konar skólahúsnæði er
byggt og jafnframt hvers konar búnaður er keyptur.
Þar af leiðandi tel ég það með öllu óeðlilegt að
skólahúsnæðið og búnaður þess eigi að hafa mót-
andi áhrif á þá starfsemi sem fer fram innan veggja
skólans. Ég held því að menn ættu að hugsa vel
sinn gang áður en ákvörðun er tekin um að láta fara
fram svokölluð alútboð sem sjálfkrafa hafa það í för
með sér að hönnuðir skólamannvirkja fá í hendur
staðlaðar upplýsingar og óskir um þau atriði sem
hafa á í huga við hönnunarvinnuna. Ég tel að þessu
fylgi sú hætta að ýmis sjónarmið þeirra sem starfa
eiga við stofnunina fái ekki að koma fram og lögð sé
áhersla á þætti sem minna máli skipta, svo sem að
reisa einhverjum stjórnmálamanni eða arkitekt glæsi-
legan minnisvarða.
Það er of algengt þegar nýtt skólahúsnæði er tekið í
notkun að þar vantar ýmsa hluti sem nauðsynlegir
eru til þess að skólinn geti sinnt hlutverki sínu. Nægir
þar að benda á fjölda skóla sem starfa árum saman
án þess að aðstaða til kennslu í list- og verkgreinum
sé fyrir hendi þrátt fyrir að á tyllidögum sé því gjarnan
lýst yfir að efla beri kennslu í þeim greinum. Þá má
og benda á að tækjabúnaður skóla er oft mjög
frumstæður. Ég held því að heppilegt væri að þeir
sem taka ákvörðun um byggingar skólamannvirkja
leituðu í ríkari mæli eftir upplýsingum frá fagaðilum,
þ.e. skólastjórum og kennurum, varðandi helstu atriði
sem hafa ber í huga við byggingu skóla og reyndu
með því að tryggja að umbúnaðurinn verði þannig
úr garði gerður að hann henti starfseminni sem á að
fara fram í skólunum. Þetta hefði sjálfsagt í för með
sér að ýmsar byggingar yrðu íburðarminni og ódýrari
en oft er og þar af leiðandi ekki eins veglegur „minnis-
varði", en í staðinn er ég viss um það að bæta mætti
aðbúnað skólanna og jafnframt greiða starfsmönn-
um hærri laun.
Ég er sannfærður um að þetta myndi leiða til þess
að skólarnir yrðu betur í stakk búnir til að sinna hlut-
verki sínu. Þeir hefðu yfir að ráða hentugra húsnæði,
betri búnaði og ánægðara starfsfólki. Ég fullyrði að
þetta muni leiða af sér betri skóla I landinu í víðasta
skilningi þeirra orða.
Að lokum langar mig að varpa fram þeirri spurningu
hvort sá „minnisvarði", sem menn reisa sér ef þeir
eiga þátt í því að búa skólann þannig úr garði að
hann geti gegnt skyldu sinni lögum samkvæmt, sé
ekki eftirsóknarverðari en glæsileg bygging sem er
fyrst og fremst til þess fallin að gleðja augu þeirra
sem leið eiga hjá. ■
29
EIRÍKUR JÓNSSON, FORMAÐUR KENNARASAMBANDS ÍSLANDS