AVS. Arkitektúr verktækni skipulag - 01.12.1998, Qupperneq 45
íþróttasvæði er staðsett sunnan skógræktarreits á
svipuðum stað og núgildandi aðalskipulag fyrir
Neskaupstað gerir ráð fyrir.
Til að koma í veg fyrir óþarfa jarðrask í hlíðinni er
lagt til að vinnusvæði við garða og keilur verði
afmarkað með flagglínu við upphaf framkvæmdar
og að verktaka verði ekki heimilt að raska neinu
utan þess svæðis, sérstaklega er mikilvægt að
afmarka vel svæði sem tengjast fornminjum.
Uppgræðsla á svæðinu öllu er um 13 ha lands, þar
af er varnargarðurinn um 3 ha að flatarmáli. (Ekki
er reiknað með uppgræðslu í tengslum við íþrótta-
mannvirki). Gert er ráð fyrir grassáningu og áburð-
argjöf á svæðinu öllu eins fljótt og hægt er að
framkvæmdum loknum til að hindra jarðvegsrof og
moldrok. Ljóst er að uppgræðsla af þessu tagi
mun taka nokkur ár og því er mikilvægt að hefja
framkvæmdir, leið og hægt er. Gert er ráð fyrir því
að þökulagt verði á einstaka stöðum, svo sem
næst aðalgöngustíg og á einstöku svæðum, eins
og t.d. við áningarstaði og útsýnisstað. Gert er ráð
fyrir því, að trjágróður verði gróðursettur beint í
tilsáð land.
Uppgræðslu á svæðinu má skipta í tvo hluta, þ.e.
svæðið milli byggðar og varnargarðs og hinsvegar
svæðið ofan varnargarðs. Gert er ráð fyrir því að
meðhöndla svæðið milli byggðar og varnargarðs
eins og um „tún“ væri að ræða, þar er einnig gert
ráð fyrir kröftugri trjárækt.
Svæðið ofan varnargarðs skal hinsvegar sá í með
fræblöndu þar sem meginuppistaðan eru íslenskar
frætegundir, á þessu svæði er einnig gert ráð fyrir
töluverðri skógrækt. Auk þess er lagt til að ofan
varnargarðs verði sett af stað tilraunarverkefni
sem miði að því að safna fræjum úr hlíðinni til að
nota við uppgræðslu, þar sem leitast verður við að
ná fram gróðursamfélagi sem líkustu því sem fyrir
er. Slíkt verkefni mætti e.t.v. vinna í samvinnu við
Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Neskaupstað-
ar, Náttúrufræðistofu Austurlands og Landgræðslu
ríkisins. Mikilvægt er að afla þekkingar á þessu
sviði og gæti verkefni sem þetta nýst vel síðar þar
sem gera má ráð fyrir miklum framkvæmdum við
snjóvarnir í Neskaupstað í framtíðinni.
LOKAORÐ
Ljóst er að góðir möguleikar eru á skemmtilegu
útivistarsvæði milli varnargarðs og byggðar. Með
gróðursetningu er hægt að minnka að nokkru leyti
stærðaráhrifin af garðinum, jafnframt því sem
gróðurinn skapar skjól og gefur möguleika á fjöl-
breyttu útivistarsvæði. Aðgengi að fjallshlíðinni
batnar og aukast t.d. möguleikar eldra fólks á að
njóta útivistar í hlíðinni með bættum stígtenging-
um.
Tilraunarverkefni sem miðar að því að safna
fræum úr hlíðinni til að nota við uppgræðslu er
verkefni sem nýst gæti vel síðar þar sem gera má
ráð fyrir miklum framkvæmdum við snjóvarnir í
Neskaupstað.
Nauðsynlegt er að leggja áherslu á góðan yfir-
borðsfrágang við varnargarðinn, en það hvernig
tiltekst með uppgræðslu á svæðinu mun skipta
miklu máli og hafa áhrif á breytta ásýnd bæjarins
og viðhorf almennings til mannvirkisins þegar litið
er til framtíðar. ■
Skipulags- arkitekta- og
verkfræðistofan ehf
Garöastræti 17, 101 Rvk
sími: 561-6577
fax: 561-6571
rafpóstur: skipark@centrum.is
30 ára reynsla af hvers konar
skipulagi og hönnun bygginga
43