Iðjuþjálfinn - 2022, Qupperneq 14

Iðjuþjálfinn - 2022, Qupperneq 14
Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa14 Á síðastliðnu ári (2021) voru 45 ár liðin frá því að Iðjuþjálfa- félag Íslands (IÍ/IÞÍ) var stofnað, en starfsemi iðjuþjálfa hérlendis hófst nokkru fyrr. Þessi grein er sú fyrri af tveimur þar sem leitast er við að gefa lesendum innsýn í sögu og þróun iðjuþjálfunar á Íslandi sem fags og fræðigreinar. Til þess að ná þessu markmiði höfum við rýnt í gögn af ýmsu tagi. Þar ber hæst skriflegar heimildir, bæði formlegar og óformlegar, en auk þess myndir og minningar sem varðveist hafa í munnlegri geymd. Þjónustu sem tengist iðjuþjálfun í okkar huga er fyrst getið hér á landi árið 1936 er Helgi Tómasson geðlæknir ritaði grein í Læknablaðið um svokallaðar vinnulækningar, en þær höfðu þann tilgang að þjálfa líkamlega og sálræna starfsemi þeirra sem áttu við geðræna erfiðleika að stríða. Sú nafngift náði aldrei verulegri fótfestu þó að starfsemin héldi velli og breiddist út meðal fólks með ólíkan heilsufarsvanda. Nokkrum árum síðar benti Óskar Bender (1940) á að það væri þjóðfé- lagsleg skylda hvers samfélags að gefa öllu fólki tækifæri til að viðhalda líkamlegum og andlegum kröftum og vera virkir þjóðfélagsþegnar. Íslenskir iðjuþjálfar hasla sér völl Fyrsti sérmenntaði iðjuþjálfinn, Jóna Kristófersdóttir, hóf störf á Kleppsspítala fyrir hartnær 80 árum, eða árið 1945. Hennar þjónusta gekk fyrstu árin undir heitinu „sjúkrakennsla“. Tveimur áratugum síðar kom iðjuþjálfinn Kristín Tómasdóttir til starfa á Akureyri. Í millitíðinni og á næstu árum þar á eftir voru nokkrir erlendir iðjuþjálfar starfandi hér á landi í afmarkaðan tíma (Guðrún Pálmadóttir og Lilja Ingvarsson, 2011; Þuríður J. Árnadóttir, 1976). Snemma á áttunda áratug síðustu aldar byrjuðu Íslendingar að sækja að einhverju ráði nám í iðjuþjálfun á erlendri grund. Flestir freistuðu gæfunnar á Norðurlöndunum, þar sem sumir iðjuþjálfaskólar höfðu skuldbundið sig til að taka inn Íslendinga annað hvert ár meðan ekki væri gefinn kostur á slíku námi á Íslandi. Fjölgunin var hæg en fyrstu árin komu að meðaltali þrír iðjuþjálfar á ári til Íslands (sjá töflur 1 og 2). Nokkrir höfðu auk þess ílengst erlendis að námi loknu. Haustið 1997 var 71 iðjuþjálfi starfandi af þeim 84 sem þá voru á landinu (Guðrún Pálmadóttir, 1997). Starfsvettvangurinn var frekar einsleitur til að byrja með þar sem meginhluti iðjuþjálfa starfaði á almennum sjúkrahúsum og endurhæfingarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu (sjá töflu 1). Á sama tíma var starfsvettvangur nágrannaþjóða okkar, t.d. í Danmörku, í meira mæli utan stofnana þar sem um helm- ingur iðjuþjálfa starfaði (Guðrún Pálmadóttir og Snæfríður Þóra Egilson, 1996a). Skjólstæðingahópurinn var einnig frekar einsleitur fyrstu árin, eða að stærstum hluta fullorðið fólk með skerðingu af líkamlegum eða geðrænum toga. Fljótlega bættust þó aldraðir í hópinn og síðar einnig börn (sjá töflu 2), en iðjuþjálfun barna var á þessum tíma meginviðfangsefni bandarískra iðjuþjálfa. Með auknum fjölda iðjuþjálfa hér á landi urðu til áhugahópar innan fagsins sem unnu markvisst að því að þjónusta iðjuþjálfa yrði aðgengileg utan heilbrigðisstofnana, s.s. inni á heimilum fólks, á leikskólum og heilsugæslustöðvum. Þessir hópar undirbjuggu jarðveginn og lögðu þar með grunninn að til- færslu ýmiss konar þjónustu frá ríki til sveitarfélaga. Þannig fengu iðjuþjálfar m.a. stöður hjá tilraunasveitar félögum eins og Akureyrarbæ (Kristín Sigursveinsdóttir, 1996; Þórhildur Sveins- dóttir, 1993) og á Höfn í Hornafirði (Maren Ósk Sveinbjörns- dóttir, 1994). Nokkrir hófu einnig störf á leikskólum (Kristjana Ólafsdóttir, 1997), en þar störfuðu iðjuþjálfar stundum undir öðru starfsheiti til að byrja með en fengu síðan stöðu iðjuþjálfa þegar á leið (Elsa S. Þorvaldsdóttir, 1996). Það varð fljótlega ljóst að með þessari útvíkkun á hlutverki og þjónustusviði iðju- þjálfa þurfti fleiri hendur og að iðjuþjálfum myndi ekki fjölga nægilega hratt fyrr en unnt yrði að nema fagið hér á landi. Saga fags og fræða Iðjuþjálfun á Íslandi 1945–1997 Kristjana Fenger og Guðrún Pálmadóttir

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.