Iðjuþjálfinn - 2022, Blaðsíða 34

Iðjuþjálfinn - 2022, Blaðsíða 34
Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa34 Sonja Stelly Gústafsdóttir deildarformaður iðjuþjálfunarfræðideildar Háskólans á Akureyri Er ekki bara best að taka nema! Það er vel við hæfi þar sem ég læt af embætti deildarformanns 1. ágúst 2022 að líta bæði um öxl og fram á við. Síðustu tvö ár hafa eins og allt annað einkennst af áhrifum COVID-19 og birst m.a. í taugatitringi og óvissu hjá nemendum og starfs- fólki yfir vettvangsnámi, lotum og námsmati í umhverfi þar sem fátt gekk upp sem áætlað var. Við stóðum þetta þó allt af okkur með frábærri samvinnu við ykkur. TAKK. Við erum nefnilega í þessu saman. Nám í iðjuþjálfun getur ekki orðið án þátttöku iðjuþjálfa í samfélaginu og öfugt, án náms og nýliðunar tapast styrkur stéttarinnar. Áskoranirnar voru líka af ánægjulegri toga því metfjöldi nemenda hefur innritast í grunnnámið, þriggja ára BS-nám í iðjuþjálfunarfræði, á síðustu tveimur árum. Árið 2020 voru samþykktir 75 nýnemar í námið og árið 2021 voru þeir 65. Umsóknartölurnar fyrir haustið 2022 eru yfir 55. Nemenda- fjöldinn við deildina hefur margfaldast á síðustu árum. Þetta eru auðvitað góðar fréttir m.a. í ljósi skorts á iðjuþjálfum víða í samfélaginu en þetta þýðir líka að nú reynir á áframhaldandi samstarf okkar, deildar og vettvangs, sem aldrei fyrr því þessir nemendur þurfa vettvangsnámspláss. Vettvangsnám er stór hluti af náminu eða 1000 stundir samkvæmt stöðlum Heims- sambands iðjuþjálfa (World federation of occupational ther- apists). Alls eru 200 stundir á vettvangi í þriggja ára BS-nám- inu og 800 í árs starfsréttindanáminu. Að koma svo mörgum nemendum í nám á vettvangi er því mikil áskorun. Með breyttri námskrá sem tók gildi árið 2017 var m.a. lögð áhersla á í starfsréttindanáminu að skapa lærdómssamfélag milli nemenda, leiðsagnarkennara og vettvangsleiðbeinenda. Þar koma aðilar saman t.d. í leiðsagnartímum til að deila þekk- ingu sinni og til að læra og eflast. Þetta er verkefni í þróun en svörun frá leiðbeinendum á vettvangi hefur verið jákvæð og bendir til þess að tekist hafi að skapa samfélag þar sem allir græða á að taka þátt. Hér er því tækifæri fyrir iðjuþjálfa til að hafa áhrif og láta ljós sitt skína. Þegar þetta er ritað, í sumarbyrjun 2022, er að verða ár síðan fyrsti árgangurinn sem lauk 60 eininga námi í iðju- þjálfun – starfsréttindanámi á meistarastigi útskrifaðist. Það var stórkostleg stund, sannkölluð uppskeruhátíð og mikið fagnaðarefni fyrir nemendur, kennara og iðjuþjálfastéttina að nám í faginu væri nú komið á meistarastig – en ætti að láta staðar numið hér? Hvað með að stefna enn lengra og setja markið hærra? Menntunar- og kjaramál eru t.d. nátengd. Við í iðjuþjálfunarfræðideildinni eigum okkur draum sem við vonum að fleiri iðjuþjálfar deili með okkur. Draum um enn hærra menntunarstig iðjuþjálfa á Íslandi og til að ná því er nú stór hluti starfsfólks deildarinnar í doktorsnámi en reikna má með að iðjuþjálfum með doktorsgráðu fjölgi um a.m.k. fimm á næstu 1–3 árum. Það eru spennandi tímar framundan. Við deildina verður einnig fetuð ótroðin slóð í haust þar sem Sigrún Kristín, Kittý, tekur við af mér sem deildarformaður en hún býr í Kanada. Heimsfaraldurinn fékk okkur nefnilega til að hugsa ýmislegt upp á nýtt, m.a. um helgun í starfi og stað- setningu. Og þið vitið, allt sem heyrist að sé ómögulegt að framkvæma er sem olía á eldinn hjá iðjuþjálfum! Það er dýrmætt og ekki sjálfgefið að tilheyra vinnustað, deild og stétt sem ég er stolt af. Að vinna á hverjum degi með fólki sem brennur fyrir menntun og störfum iðjuþjálfa. Vöxturinn og krafturinn er ljós og næg tækifæri framundan. Við höfum unnið að því að uppfæra á heimasíðu Iðjuþjálfafélagsins upp- lýsingar um „Nám í iðjuþjálfun“ og m.a. um kosti þess að vera vettvangsleiðbeinandi og hvert áhugasamir geta snúið sér. Verkefnastjórar vettvangsnáms eru tveir; Hafdís Hrönn sér um BS-námið og Hulda Þórey um starfsréttindanámið. Þar sem við erum í þessu saman … er þá ekki bara best að taka nema? Að lokum óska ég nýútskrifuðum iðjuþjálfum innilega til hamingju með áfangann. Það hefur verið sönn ánægja að fylgja ykkur síðustu fjögur árin í náminu og hver sá staður sem fær að njóta starfskrafta ykkar í framtíðinni er heppinn! Aðsend grein:

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.