FLE blaðið - 01.01.2020, Blaðsíða 17

FLE blaðið - 01.01.2020, Blaðsíða 17
17FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020 • Þegar eftirlit hefur verið framkvæmt skal ársreikningaskrá birta með rafrænum og aðgengilegum hætti niðurstöður eftirlits ársins sem framkvæmt hefur verið. Á síðustu árum hefur ársreikningaskrá gefið út minnisblað um áhersluatriði í eftirliti sínu og eru þau hugsuð til umhugsunar fyrir stjórnendur félaga sem og endurskoðendur eða skoðunarmenn þeirra félaga sem falla undir gildissvið ársreikningalaga. Áhersluatriðin taka mið af nýlegum breytingum laga og reglugerða auk atriða sem upp hafa komið við eftirlit með reikningsskilum á síðustu árum. Ný reglugerð nr. 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga leit dagsins ljós á liðnu ári og gildir fyrir ársreikninga og samstæðureikninga frá 1. janúar 2019. Framsetning rekstrarreiknings og efnahagsreiknings samkvæmt reglugerðinni byggir á tilskipun Evrópusambandsins um ársreikninga félaga. Gert er ráð fyrir mikilli sérgreiningu liða í bæði rekstrar- og efnahagsreikningi. Því er gott að hafa í huga ákvæði reglugerðarinnar um óverulegar fjárhæðir en í þeim tilvikum er heimilt að sleppa sérgreiningu liða í rekstrar- eða efnahagsreikningi en sundurliða þá viðkomandi lið / liði í skýringum eftir því sem ástæða er til. Samkvæmt reglugerðinni er fjallað um skýringar með almennum orðum, en í henni eru ekki settar fram beinar viðbótarkröfur umfram kröfur ársreikningalaga. Það segir þó í reglugerðinni að upplýsingar í skýringum skuli vera það ítarlegar að þær geri notendum ársreiknings kleift að leggja mat á eðli og fjárhagsleg áhrif viðskipta og annarra atburða á rekstur og efnahag félagsins (samstæðunnar). Stjórnendur skulu leggja mat á mikilvægi og hvaða upplýsingar eru viðeigandi til að tryggja að reikningsskilin gefi glögga mynd samkvæmt skilgreiningu í 5. gr. laga um ársreikninga. Þannig geti verið nauðsynlegt að birta ýtarlegri sundurliðanir og skýringar en gerð er krafa um í lögum um ársreikninga eða reglugerðinni. Ársreikningar sem lenda í úrtaki eru almennt skoðaðir heilt yfir hvort þeir séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og settra reikningsskilareglna. Áhersluatriði sem sérstaklega verða tekin fyrir vegna ársreikninga reikningsársins 2019 eru: 1. Skylda til að endurskoða félög yfir vissum stærðarmörkum a. Samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga um ársreikninga eru þau félög sem falla undir gildissvið laganna endurskoðunarskyld. Ekki er þó skylt að láta endurskoða ársreikning félags skv. 1. mgr. 98. gr. laganna ef félag er undir tveimur af þremur stærðarmörkum tvö næstliðin reikningsár það er efnahagsreikningur undir 200 milljónum kr., hrein velta undir 400 milljónum kr. og meðalfjöldi ársverka á fjárhagsári undir 50. b. Þessi undanþága nær ekki til móðurfélags sem er skylt að semja samstæðureikning. c. Ef ársreikningur sem fer yfir þessi stærðarmörk er ekki endurskoðaður verður honum hafnað hjá ársreikningaskrá og gerð krafa um að endurskoðuðum ársreikningi verði skilað. 2. Rétt skráning endurskoðenda eða skoðunarmanna a. Til þess að endurskoðandi eða skoðunarmaður megi árita ársreikning verður hann að hafa verið kosinn á aðalfundi eða almennum félagsfundi og hann jafnframt tilkynntur til fyrirtækjaskrár. Ársreikningaskrá kemur til með að hafna ársreikningum ef annar endurskoðandi eða skoðunarmaður en sá sem skráður er hjá fyrirtækjaskrá staðfestir yfirferð sína á reikningsskilum félagsins. 3. Skýrsla stjórnar a. Í greinum 65 og 66 í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga koma fram helstu atriði sem þarf að upplýsa um í skýrslu stjórnar. b. Í reglugerð 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga kemur fram að taka skuli tillit til umfangs rekstrar, stærðar viðkomandi félags og þess hversu margbrotin starfsemi félagsins sé þegar verið er að leggja mat á hversu ítarlegar upplýsingar skuli veita. Af þessu leiðir að meiri kröfur eru gerðar til stærri og flóknari félaga en þeirra minni. 4. Ófjárhagsleg upplýsingagjöf a. Ársreikningaskrá mun fylgjast sérstaklega með að framsetning upplýsinga í skýrslum stjórna endurskoðunarskyldra félaga sé í samræmi við ákvæði laga. Á árinu 2016 var grein 66 d innleidd í lög um ársreikninga að fyrirmynd tilskipunar frá ESB um ófjárhagslega upplýsingagjöf. Samkvæmt greininni er gerð ríkari lagaleg krafa um einingar tengdar almannahagsmunum og móðurfélög stórra samstæðna sem uppfylla tvö af þremur eftirfarandi skilyrðum ber að greina frá ófjárhagslegum upplýsingum í ársreikningi: a) heildareignir yfir 3 milljarða kr. b) hrein velta yfir 6 milljarða kr. og c) meðalfjöldi ársverka yfir 250. 5. Upplýsingagjöf vegna eignarhalds og kaupa og sölu eigin hluta a. Veita skal upplýsingar bæði í skýrslu stjórnar og í skýringarhluta ársreiknings. Í skýrslu stjórnar skal koma fram fjöldi og nafnverð eigin hluta og einnig upplýsingar um ástæðu þess ef félagið aflaði sér eða lét af hendi eigin hluti á reikningsárinu. Einnig skal upplýsa um endurgjald hlutanna. b. Í skýringum skal upplýsa um sömu atriði og í skýrslu og til viðbótar skal koma fram hlutfall eigin hluta af heildarhlutum. c. Sömu upplýsingar skal veita ef tekið hefur verið veð í eigin hlutum eða dótturfélag hefur eignast eða látið af hendi hluti í móðurfélagi á reikningsárinu.

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.