FLE blaðið - 01.01.2020, Blaðsíða 21
21FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020
Í millitíðinni hafði það gerst, að á aðalfundi FLE 30. október
2015 kvaddi sér hljóðs Sigurður Tómasson fyrrum formaður
félagsins. Í ræðu sinni, sem hefur yfirskriftina „Einelti er ógeð“,
fór hann yfir framkomu ráðsins gagnvart mér og gagnrýndi
harðlega. Í framhaldi af ræðu Sigurðar ákvað ég að kæra ráðið
til ráðherra fyrir einelti með bréfi dags. 18/5 2016. Ráðuneytið
svaraði kærunni með bréfi dags. 19/10 2016. Í stuttu máli þá var
niðurstaðan sú, að endurskoðendaráð hefði farið eftir reglum
um gæðaeftirlit og að ekki væri ástæða til að grípa til aðgerða
gagnvart ráðinu. Þriðja boðun í gæðaeftirlit barst mér síðan með
bréfi dags. 18/5 2017 frá ráðinu og enn með orðunum „nafn yðar
kom fram í úrtaki...“ osfrv. Eftir ítrekun og talsverð bréfaskipti
lagði ráðið í þriðja sinn til við ráðherra, með bréfi dags. 17/11
2017, að réttindi mín yrðu felld niður. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu
ráðherra og var nú tíðindalítið í rúmt ár í þessu máli mínu.
Snemma á árinu 2018 tók ég þá ákvörðun að leggja inn réttindi
mín fyrir árslok, enda fyllti ég sjö tugi ára í lok nóvember það ár.
Samskiptin við ráðið og framkoma þess í tengslum við starfslok
mín eru frásagnarverð. Þann 14/12 sendi ég ráðuneytinu ósk
um að fá að leggja inn réttindi mín og skyldi innlögnin miðast
við 31/12 2018. Mér barst bréf frá ráðinu dags. 31/1 2019 þar
sem ráðið kvaðst hafa upplýsingar frá FLE um að ég hefði ekki
uppfyllt kröfur til endurmenntunar fyrir árið 2018. Þessar kröfur
hef ég ævinlega uppfyllt. Ég svaraði ráðinu um hæl og benti
á beiðni mína um innlögn réttinda í desember 2018 og sagði
m.a.: „Væri nú ekki rétt hjá endurskoðendaráði að afgreiða
hlutina í réttri röð og hafa e.t.v. í leiðinni í huga málshraðareglu
stjórnsýslulaganna?“.
Þann 5/4 2019 staðfesti ráðuneytið síðan beiðni mína um
innlögn réttinda. Í framhaldi þar af óskaði ég eftir afriti af
umsögn endurskoðendaráðs til ráðherra um innlögnina. Í bréfi
ráðsins er m.a. að finna eftirfarandi: „Eins og áður hefur komið
fram hefur Guðmundur Jóelsson ekki sinnt lögbundinni skyldu
endurskoðenda til að stunda endurmenntun. Einnig liggur fyrir að
Guðmundur hafi óskað eftir því að fá að leggja inn réttindi sín. Í
ljósi beiðni um innlögn réttinda hefur endurskoðendaráð ákveðið
að fylgja máli hans ekki eftir og var málinu lokað með ákvörðun
ráðsins í dag“.
Þar sem hér var um bein ósannindi að ræða gat ég engan
veginn sætt mig við þessi orð og kvartaði með bréfi dags. 7/5
2019 til ráðherra Fór ég fram á, að endurskoðendaráð drægi hin
ósönnu orð um endurmenntunina til baka og bæðist afsökunar
á þeim. Jafnframt að ráðherra áminnti ráðið og veitti því tiltal
fyrir óforsvaranleg vinnubrögð. Ráðuneytið svaraði með bréfi
dags. 31/5 2019 þar sem það taldi sig ekki hafa vald til slíks.
Lokaorð í bréfinu eru þessi: „Eftirlit ráðuneytisins á grundvelli
laga um endurskoðendur er almenns eðlis og eru möguleikar
ráðuneytisins til að hafa afskipti af meðferð einstakra mála hjá
endurskoðendaráði takmörkunum háðir“.
Hér virtist komið að leiðarlokum og þó. Þann 10/9 2019 beindi
ég kvörtun til Umboðsmanns Alþingis þar sem framangreindir
málavextir voru reifaðir. Umboðsmaður hefur nú, með bréfi dags.
14/11 2019 ritað ráðuneytinu bréf um málið. Bréfið verður vart
skilið á annan veg en þann, að hann telji að ráðuneytinu hafi borið
að afgreiða fyrrnefnda kvörtun mína frá 7/5 2019 efnislega og
fari fram á, að slíkt verði gert, ella muni hann gera það. Þannig
stendur málið nú.
Deila þessi hefur frá upphafi, í grunninn, snúist um óvissu um
lagalegt gildi hinna alþjóðlegu endurskoðunarstaðla á Íslandi.
Í Morgunblaðinu 19/9 2015 var eftirfarandi eftir mér haft: „Það
óskiljanlegasta af öllu í þessu máli er þó það, að ráðuneytið og
aðrir sem málið varðar hafa með öllum ráðum komið sér undan
því að svara efnislega þeim grundvallarspurningum sem deila
þessi snýst um, þ.e. um gildi alþjóðlegu endurskoðunarstaðlanna
á Íslandi“. Litlu síðar: „Ástæða þessar óvissu snýr einkum að
þýðingu, skuldbindingargildi og formlegri birtingu staðlanna“.
Spurningunum verður sennilega aldrei svarað úr þessu. Ný og
gjörbreytt lög um endurskoðendur hafa tekið gildi og vonandi
leynast ekki í þeim álíka ágreiningsefni og hér hefur verið fjallað
um.
Guðmundur Jóelsson