Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 107
Ég ákvað að fylgja fordæmi Höskuldar Þráinssonar o.fl. (2015) með
því að hafa aðeins þrjá svarsmöguleika. Niðurstöðurnar hefðu líklega orðið
nokkuð öðruvísi hefði ég notast við fimm einkunnir í stað þriggja. Þá er
sennilegt að sumir þeirra sem samþykktu núllfrumlagssetningarnar hefðu
gefið þeim næsthæstu einkunn fremur en þá hæstu. En jafnvel þótt við
gæfum okkur það að einungis helmingur þeirra sem sögðu „já“ við núll -
frumlagssetningunum telji þær vera óaðfinnanlegar þá er það umtalsvert.
Það er ljóst að margir Íslendingar telja a.m.k. sumar setningar með eigin-
legum núllfrumlögum vera eðlilegar.
6. Um (ó)málfræðilegar og (ó)tækar setningar
Gera verður greinarmun á hugtökunum (ó)málfræðilegt og (ó)tækt/(ó)eðli-
legt (sjá t.d. Leivada og Westergaard 2020). Svokölluð „miðjuundirskipun“
(e. center-embedding) er t.d. málfræðilega kórrétt, en þótt flestir myndu
áreiðanlega telja nafnliðinn kisan sem elti músina mjálmandi tækan er lík-
legast að þeir hinir sömu teldu hundurinn sem elti kisuna sem elti músina
mjálmandi geltandi ótæka segð þótt hún sé rétt byggð (og eigi að þýða
nokkurn veginn‚ ʻhundurinn var geltandi þegar hann elti kisuna sem var
mjálmandi þegar hún elti músina’). Frægasta dæmið um ótæka setningu
sem er málfræðilega rétt byggð er líklega setning Chomskys (2002:15),
Colorless green ideas sleep furiously‚ þ.e. ʻLitlausar grænar hugmyndir sofa
ofsalega’. Sem dæmi um tæka en ómálfræðilega setningu nefna Leivada
og Westergaard (2020) More people have been to Russia than I have, þ.e.
ʻFleiri hafa verið í Rússlandi en ég hef’ (sem mér finnst raunar naumast
tæk í íslensku). Dæmi um íslenska setningu sem flestum virðist finnast
tæk en sem deila má um hvort sé málfræðileg er gefið í (20), þar sem
eyðan sýnir frumlagsstöðuna í aukasetningunni.
(20) Þeim sem __ liggur mikið á hjarta fá tækifæri hér.
Þetta er svokallaður fallflutningur. Fallið á frumlaginu þeim „ætti“ að vera
nefnifallið þeir, stýrast af aðalsetningarsögninni fá (Þeir fá tækifæri) en
stýr ist þess í stað af aukasetningarsögninni liggur (Þeim liggur mikið á
hjarta), flyst svo að segja úr aukasetningunni inn í aðalsetninguna. Ég
hef jafnan talið að fallflutningur af þessu tagi sé ómálfræðilegur, brjóti
gegn þeim reglum sem venjulega stýra fallmörkun í íslensku, sbr. t.d.
*Þá sem vantar meðul þurfa að fara í apótek. Fallflutningur er mörgum þó
greinilega tækur við vissar aðstæður (sjá Wood o.fl. 2017), t.d. í (20). Í
athugun Höskuldar Þráinssonar, Þórhalls Eyþórssonar o.fl. (2015:69)
Af núllfrumlögum í íslensku 107