Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Side 109
kölluð að-spor (e. that-trace). Þau eru eðlileg í flestum eiginlegum núll-
frumlagsmálum og í íslensku, andstætt t.d. ensku og hinum norrænu mál-
unum, raunar að finnlandssænsku undanskilinni (sjá Höskuld Þráinsson
2007:351, 446). Fæst mál önnur en eiginleg núllfrumlagsmál „þola“ að-
spor og sýna þar með það sem kallað er að-sporsáhrif (e. that-trace effect).
Allt frá því að Luigi Rizzi birti sína frægu doktorsritgerð (1982) hafa að-
spor verið talin sterkt einkenni á eiginlegum núllfrumlagsmálum (sjá t.d.
Biberauer o.fl. 2010). Það kann því að vera að vísandi núllfrumlög séu í
rauninni málfræðileg í nútímaíslensku, a.m.k. við einhverjar aðstæður,
„kraumi undir yfirborðinu“, en séu flestum ótæk vegna þess að þau brjóta
gegn viðteknum málvenjum. Sé sú raunin er ekki unnt að útiloka að nýju
núllfrumlögin séu sögulega tengd núllfrumlögum í eldra máli. Ýmislegt
bendir til að svo sé ekki, eins og áður er rakið, en sú staðreynd að yngstu
þátttakendurnir í netkönnun minni reyndust ekki jákvæðari í garð núll-
frumlagssetninga en þeir eldri, nema síður væri, bendir í aðra átt. Óneit an -
lega væri það þó athyglisvert ef sú er raunin að vísandi núllfrumlög séu
tekin að ryðja sér til rúms á nýjan leik í íslensku. Vonandi geta framtíðar-
rannsóknir varpað skýrara ljósi á þetta með því að kanna hvort vísandi
núllfrumlögum fari fjölgandi eður ei.12
heimildir
Biberauer, Theresa, Anders Holmberg, Ian Roberts og Michelle Sheehan (ritstj.). 2010.
Parametric Variation. Null Subjects in Minimalist Theory. Cambridge University Press,
Cambridge.
Chomsky, Noam. 1986. Knowledge of Language. Praeger, New York.
Chomsky, Noam. 2002 [1957]. Syntactic Structures. Mouton de Gruyter, Berlín [önnur
prentun, fyrsta prentun 1957].
Chomsky, Noam. 2013. What is Language and Why Does it Matter? Fyrirlestur fluttur
við Linguistic Society of America Summer Institute, University of Michigan, 2013.
Aðgengilegur á netinu: <https://www.youtube.com/watch?v=-72JNZZBoVw>.
Af núllfrumlögum í íslensku 109
12 Ein aðferð til þess væri að bera niðurstöður mínar um Risamálheildina 2019 (u.þ.b.
1,5 milljarður lesmálorða) saman við niðurstöður um síðari gerðir málheildarinnar. Nú er
komin út ný gerð, 2022 (með ríflega 2,4 milljörðum orða). Ég gerði nokkrar stikkprufur í
2022-gerðinni og þær benda til þess að eiginleg núllfrumlög séu talsvert meira en tvöfalt
fleiri í henni en í 2019-gerðinni. Eins og fram kemur í töflu 1 voru dæmin um að __ erum
t.d. 34 í 2019-gerðinni en þau eru 73 í 2022-gerðinni, dæmin um að __ vorum 22 2019 en
53 2022, ekkert dæmi um að __ værir 2019 en 14 2022 (það eru mun fleiri óformlegir textar
í 2022-gerðinni en í 2019-gerðinni). Eins og áður segir eru talningar af þessu tagi tafsamar
og því komst ég ekki lengra með þetta að sinni, en vonandi verður einhver til þess að
athuga þetta rækilegar síðar.