Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 204
Svar við spurningu iii): Þetta er stór spurning. Það er talsverð óvissa fólgin í því
að ekki séu til upptökur úr rannsókn Björns. Slíkt var svo fjarlægt á þessum tíma
að Björn nefnir ekki einu sinni möguleikann og það er til marks um ólíkar
aðstæður við rannsóknirnar að hann tiltekur sérstaklega að það hafi verið mikið
hagræði fólgið í því að hafa bifreið. Reyndar voru ekki alls staðar vegir og brýr
fyrir þessa bifreið þannig að Björn fór líka um á hrossi. Það sýnir vel hvað rann-
sókn hans var mikið afrek og aðstæðurnar aðrar en í seinni rannsóknum.
Óvissuþættirnir sem tína mætti til eru eiginlega svo margir að ef ég færi að
telja þá upp myndum við kannski sjá þann kost vænstan að pakka saman og fara
heim. Þá er nokkur huggun í því að þegar maður les um erlendar rauntímarann-
sóknir, þar sem eldri efniviður er nýttur, er oft tiltekið að „gamla rannsóknin“
hafi nú ekki að öllu leyti verið eins og best væri á kosið. Og þá er hnýtt við að hafa
skuli það sem hendi er næst en hugsa ekki um það sem ekki fæst. Það gildir líka
hér. Þó að það fylgi því óvissa að nýta gögn Björns eru þau að mínu mati alltof
verðmæt og upplýsandi um fyrri framburð til að sleppa því.
Einn óvissuþátturinn felst í því sem þú nefndir, að framburðardómar gætu
verið ólíkir. Munurinn á harðmæli og linmæli felst ekki bara í því að hjá sumum
sé tíðni harðmælis há en lægri hjá öðrum, heldur getur fráblásturinn verið mis-
sterkur. Spurningin er: Hvar dró Björn mörkin? Hversu sterkur þurfti fráblást-
urinn að vera til að hann mæti það svo að um harðmæli væri að ræða?
Við því er ekkert svar, en ég skoðaði gögn Björns mjög vel, reyndi að kynnast
þeim til að geta betur áttað mig á óvissuþáttum. Þó að maður geti aldrei verið viss
sannfærðist ég um að samanburður við seinni rannsóknir væri raunhæfur og rétt-
mætur.
Það sem maður gerir líka þegar hugleiðing um óvissu leitar á mann er að kafa
ofan í dæmin. Sem dæmi um það má nefna að í úrtakinu frá Norðurlandi var
kona sem notaði harðmæli mjög lítið í rannsókn Björns. Hún fékk aðeins 110 í
meðaleinkunn sem jafngildir því að hún hafi notað harðmæli í 10% próforða. Í
RÍN og RAUN var einkunnin hins vegar komin upp í 190 og 195. Þá hugsar
maður: Er þetta kannski til marks um að Björn hafi metið harðmæli á annan hátt
en gert var í seinni rannsóknum. Breyttist framburðurinn ef til vill ekki, heldur
matið?
Á framburðarspjaldinu kom fram að móðir þessa málhafa var aðflutt frá
Reykjavík en faðirinn var norðlenskur. Þar var eilítil vísbending um að háa tíðni
linmælis mætti rekja til móðurinnar, en það vildi þannig til að málhafinn hét sjald-
gæfu nafni þannig að ég gúglaði í leit að frekari upplýsingum. Þær reyndust
drjúgar. Móðirin hafði verið tiltölulega nýkomin til Norðurlands þegar málhaf-
inn fæddist. Æskuheimilið var því ef til vill mótað af því að þar bjó aðflutt mann-
eskja, kannski voru enn sterk tengsl við Reykjavík. Þegar konan sjálf óx úr grasi
giftist hún norðlenskum manni og þau áttu allmörg börn sem settust að á
Norður landi. Smám saman má því segja að konan hafi byggt upp sitt eigið norð -
lenska bakland. Þar að auki kom í ljós að hún var mjög virk í sínu samfélagi. Ég
Margrét Guðmundsdóttir204