Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Side 216
Á heildina litið virðist sem sambúðarvandi félagsmálfræði og málkunnáttu -
fræði sé heldur í rénun. Anthony Kroch reyndi til að mynda að draga fram
snertifleti þessara tveggja sjónarhorna með því að benda á að breytileiki í
málsamfélaginu fæli í sér nokkurs konar tvítyngi málnotendanna, þeir kynnu
fleiri en eitt afbrigði og notuðu þau í ákveðnum hlutföllum, meðal annars
eftir aðstæðum (sjá Kroch 2001:722).
Hér má undirstrika að haft er eftir Kroch að slík hlutföll í breytilegri málnotkun
ráðist meðal annars af aðstæðum.
Innri breytileiki kann sem sé að tengjast ytri aðstæðum í margvíslegum skiln-
ingi þess hugtaks. Þar geta mjög margir þættir komið til skjalanna og fleiri en þeir
sem áhersla er lögð á í ritgerðinni.
Í 2. kafla er að finna stutta neðanmálsgrein þar sem segir (nmgr. 9, bls. 36):
Hér er innri breytileiki sem er tilkominn vegna yfirstandandi málbreytinga
í forgrunni. Innri breytileiki getur þó átt sér ýmsar rætur og til að mynda
mótast eftir þeim hlutverkum sem fólk gegnir í lífinu (sjá t.d. Lilju Björk
Stefánsdóttur 2016, Lilju Björk Stefánsdóttur og Anton Karl Ingason 2018,
Ara Pál Kristinsson 2021).
Hér er á ferðinni umræðuefni af gerð (2) sem ég nefndi í Inngangi, þ.e. að sumum
atriðum er lauslega tæpt á í ritgerðinni sem öðrum höfundum hefði e.t.v. fundist
ástæða til að reifa nánar. Einhverjum hefði sjálfsagt þótt ástæða til að gera meira
úr sambandi innri breytileika við mismunandi aðstæður, hlutverk fólks í lífinu,
ólíka viðmælendur o.s.frv. Því hefði t.d. mátt koma að í 2. kafla. Eftir atvikum
hefði þá einnig mátt útskýra nánar ástæðu þess að ekki væri farið frekar út í áhrif
slíkra þátta á tilbrigðin sem fengist er við í rannsókninni.
Í ritgerðinni er fjallað heilmikið um ytri aðstæður málnotenda hvað snertir
þátt búferlaflutninga í þróun framburðarafbrigðanna og samspil búsetu og fram-
burðar. Dæmi um það má sjá í eftirfarandi klausu, bls. 68:
Rétt eins og hjá barni sem lærir málið og „leiðréttir“ það smám saman í sam-
ræmi við málið sem það heyrir gæti það sama gerst hjá fullorðnum á svipaðan
hátt og þegar æfingar skila bættri sjón. Þannig má líkja saman manni sem
losnað hefur við ský á auga og sækir sjónþjálfun og Norðlendingi sem flytur
suður og fær „sunnlenska málþjálfun“. Í báðum tilvikum er nýju áreiti „otað
að heilanum“. Þó að málstöðvarnar séu ekki lengur eins og í barni, sífellt að
máta nýjar upplýsingar við málkerfið og betrumbæta það, þá er ekki víst að
sá hæfileiki sé alveg horfinn.
Hér er sem sé gengið út frá því að málkerfið geti verið alla ævi í mótun og nýjar
upplýsingar geti sífellt verið að berast inn í kerfið. Í því sambandi mætti ætla að
það kynni að skipta máli hvers eðlis þær upplýsingar eru, hve miklar, og hvar,
hvenær og hvernig þær berast. Þar sem ritgerðin er ekki síst áhugavert framlag til
Ari Páll Kristinsson216