Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 232
áhersla sem Eiríkur leggur á breytileikann sjálfan og að hann sé eðlilegur hluti af
lifandi tungumáli sem er í stöðugri þróun. Í því samhengi er jafnframt rétt að hafa
hugfast að þótt vel megi deila um túlkun og niðurstöður Eiríks í sumum tilvikum
er það í sjálfu sér aukaatriði. Mikilvægara er að hann bendir ítrekað á hugsanlegar
gloppur í röksæmdafærslu einhvers konar málfarsyfirvalds fyrir því að tiltekið
atriði megi aðeins nota á einn tiltekinn hátt og leggur á móti fram rök fyrir því
hvernig líta megi á ný tilbrigði sem skiljanlega og eðlilega þróun sem leiðir ekki af
sér óreiðu heldur eykur notkunarmöguleika málsins. Með því að bjóða breytileik-
ann þannig velkominn eru nemendur og kennarar ekki bundnir af því að ræða
tungumálið út frá réttu og röngu; málið getur einfaldlega verið svona eða hinsegin.
Um leið leggur Eiríkur áherslu á að hið ráðandi afl hér sé málsamfélagið, frekar en
einhvers konar málfarslegt yfirvald, og þar með fá nemendur rödd og tækifæri til
að vinna með sitt eigið mál á sínum eigin forsendum. Rétt er að hafa í huga að þó
að Eiríkur sé með þessu að boða meiri sveigjanleika en almennt hefur verið við
hafður, a.m.k. innan ramma skólamálfræðinnar, setur hann þeim sveigjan leika
ákveðnar skorður, sem minnst hefur verið á hér framar. Hann hafnar því engan
veginn að nemendur þurfi að hafa formlegt (rit)mál á valdi sínu og almennt þurfi
að vanda sig við notkun þess og sýna hefðum þess tilhlýðilega virðingu. Þetta
formlega mál þurfi þó ekki að vera einrátt heldur eigi það sér pláss til hliðar við
daglegt tungutak nemendanna sjálfra og þau tilbrigði og frávik frá staðlinum sem
þar megi finna og geti vel átt við í ýmsum aðstæðum og málsniðum öðrum en þeim
sem kalla á formlegt mál. Loks er vert að nefna að þótt Eiríkur geti þess ítrekað að
málsamfélagið hljóti að vera ráðandi afl í því að ákveða hvað telst tækt og hvað ekki
hefur það talsvert vægi að prófessor emeritus — hluti „málfarselítunnar“ — skuli
hér boða heldur opnari afstöðu en tíðkast hefur. Bókin er nýútkomin þannig að
ekki er komin mikil reynsla á notkun hennar í kennslu en í fyrstu viðbrögðum
nemenda sem setið hafa námskeið hjá ritdómara þar sem bókin er notuð má greina
ákveðinn létti yfir því að fá með henni eins konar boðskort í umræður um þróun
og mótun íslensks máls þar sem sjónarhorn þeirra telst jafn rétthátt öðrum.
heimildir
Ásgrímur Angantýsson, Finnur Friðriksson og Sigurður Konráðsson. 2017. Málfræði og
málfræðikennsla. Kristján Jóhann Jónsson og Ásgrímur Angantýsson (ritstj.): Íslenska
í grunnskólum og framhaldsskólum, bls. 135–173. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Hanna Óladóttir. 2017. Skólamálfræði. Hver er hún og hver ætti hún að vera? Um markmið og
áhrif málfræðikennslu á unglingastigi grunnskólans. Doktorsritgerð, Háskóla Íslands,
Reykjavík. <https://hdl.handle.net/20.500.11815/393>.
Finnur Friðriksson
Háskólanum á Akureyri
Hug- og félagsvísindasvið, Kennaradeild
IS-600 Akureyri
finnurf@unak.is
Ritdómar232