Skinfaxi - 01.02.2022, Blaðsíða 21
S K I N FA X I 21
og bendir á að lausnirnar geti leynst víða. Þær séu nefnilega til en
mikilvægt sé að draga þær fram í dagsljósið.
„Þegar ég var hjá félaginu Nesi í Keflavík var kenndur áfangi í lífs-
leikni við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Í áfanganum fóru krakkarnir út á
vettvang og unnu sjálfboðavinnu. Við sömdum um það að krakkarnir
fengu að koma og aðstoða á æfingum hjá Nesi. Fyrirkomulagið var
beggja hagur. Krakkarnir í FS fengu einingar fyrir sjálfboðavinnuna og
krakkarnir í Nesi fengu aðstoð á æfingum. Krakkarnir úr FS stóðu sig
frábærlega og það var mikil hjálp að fá að fá þau á æfingar. Kosturinn
var að þetta kostaði ekki neitt – nema að hugsa í lausnum,“ heldur
Ingi Þór áfram en bendir samt á að vissulega hafi þetta verið auðveld-
ara í tilviki Ness og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þar sem íþróttafélagið
sé í næsta nágrenni við skólann. Því er ekki að skipta í öllum tilvikum
og auðveldaði nálægðin samstarfið til muna.
Mikilvægt að skoða nýjar nálganir
Mikilvægt er að opna fyrir ýmsa möguleika og skoða margar nálganir
til að ná svipaðri niðurstöðu og nefnd var hér að ofan, þ.e. sem getur
leitt til þess að létta undir með þjálfurum á íþróttaæfingum svo að
íþróttir verði sannarlega fyrir alla.
„Það má líka velta því fyrir sér hvort útfæra megi þessar pælingar
með þeim hætti að þeir sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit hafi
áhuga á þessu. Við erum með mannskap þarna úti sem er til í að
aðstoða þetta íþróttastarf. En mikilvægt er að tengja fólk saman. Það
er til fullt af svona lausnum, það þarf bara samtalið til að finna út úr
þeim. Það eru örugglega einhver flækjustig í þessu. En úr þeim er
hægt að greiða til að finna leiðirnar,“ segir Ingi Þór.
Sú tíð er löngu liðin að fólk sé opinberlega neikvætt í garð íþrótta-
iðkunar einstaklinga með fatlanir. Ingi Þór telur um 20 ár síðan hann
hafi síðast orðið þess áskynja.
„Staðan hefur vissulega breyst og farið heilmikið fram. Umræðan er
miklu jákvæðari núna um íþróttir einstaklinga með fatlanir heldur en
hún var áður fyrr. Auðvitað þurfa ekki allir að styðja íþróttir fatlaðra af
krafti, en maður heyrir sjaldan talað um þær á neikvæðan hátt. Það er
alltaf einhver á bremsunni og fólk má alveg hafa sínar skoðanir. Mér
finnst íþróttafélögin gera þetta vel og vera mjög samkeppnishæf við
annað sem ég hef séð erlendis. Helsti þröskuldurinn sem ég sé er að
íþróttafélögin mættu vera opnari fyrir því að hvetja einstaklinga með
fatlanir til að koma til sín og prófa íþróttir hjá þeim, og láta vita að þau
séu opin fyrir því að finna lausnir fyrir alla. Lausnin þarf ekki að vera
fullkomin.“
Lausnin felst í samtalinu
Ingi Þór segir draumaútfærsluna þá að íþróttafélög og aðrir hagsmuna-
aðilar fari að ræða meira saman en áður, svo sem um þarfir, drauma
og væntingar.
„Við þurfum að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem börn með
fatlanir og foreldrar þeirra vilja sjá frá íþróttafélaginu sínu. Drauma-
staðan er sú að á hverjum einasta stað verði hægt að finna lausn á stað-
bundnum vandamálum. Við þurfum að skoða hvaða byggingar við
höfum, greina aðstöðuna, velta því fyrir okkur hvað þjálfararnir geta og
þess háttar. Lausnirnar eru þarna en við erum oft lítið að tala saman. Ég
held að lausnin kosti minna og sé nær okkur en margir halda. Ef við
bara ákveðum að setjast niður, allir þessir beinu og sjálfsögðu hags-
munaaðilar; fulltrúar íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga og ríkis,
íþróttafólkið og foreldrar þeirra, þá held ég að það sé hægt að finna
lausnir á ansi mörgum af þessum vandamálum sem núna standa í vegi
fyrir íþróttaþátttöku barna með fatlanir. Að sjálfsögðu er hægt að segja
að það þurfi meiri peninga og stuðning við verkefnið. En það er ekki
stóra mengið. Við getum fundið lausn á því á sjálfbærari og betri hátt
svo að íþróttir verði fyrir alla,“ segir Ingi Þór að lokum.
Dæmi um áskoranir þjálfara
Barni finnst gaman að horfa á hópíþróttir í sjónvarpi. Foreldrarnir
skrá því barnið sem iðkanda í hópíþróttum. En barnið þolir illa
snertingu og á erfitt með að deila hlutum með öðrum, svo sem
boltum. Þjálfari stendur frammi fyrir því að vera einn með 28 börn
og eitt með sérþarfir, sem vill ekki keppa og ekki snerta aðra og
neitar að láta bolta frá sér. Þegar slíkt kemur upp er ósanngjarnt
að velta ábyrgðinni yfir á íþróttafélagið. Þess í stað þarf að finna
lausn á málinu svo að enginn beri skarðan hlut frá borði.
Ingi Þór Einarsson á sundmóti með Kristínu Þorsteinsdóttur en í bakgrunni sést í Sonju, Anítu og Guðfinn.