Læknaneminn


Læknaneminn - 01.09.1981, Blaðsíða 9

Læknaneminn - 01.09.1981, Blaðsíða 9
Ég held ekki að þessar ályktanir séu gildar. Skjótt frá að segja, þá held ég að þessi kenning um að það sé vitund mannsins um dauðann, sem gefi lífi hans gildi — ef ég má leyfa mér að orða það svo — sé ákaflega vafasöm, ef ekki beinlínis röng. Einföld rök gegn henni eru t. a. m. þau að við getum greinilega ætlað börnum (og jafnvel sumum dýrum) vissa sjálfsvitund án þess að ætla þeim nokkra vitund um hugsanlegan dauða sinn. Pessi rök duga að vísu ekki til að hrekja þessa kenningu um dauðann og merkingu hans fyrir manninn, en þau nægja til að sýna að hún er ekki sjálfgefin. En hvort sem þessi kenning er örugglega rétt eða röng þá sýnir hún á afgerandi hátt að hin hlutlæga, ytri sýn til dauðans er algerlega fráleit, a. m. k. hvað mann- inn sem persónu varðar. Forsenda þessarar ytri sýnar er sú að maðurinn geti hafið sig yfir lífið, gerst óháður eða hlutlaus áhorfandi að þróunar- ferli lífsins, þar sem dauðinn virðist eðlilegt, náttúrlegt fyrirbæri. Þetta er vissulega hægt að vissu marki, en til þess að þetta takist fyllilega, þá þurfa menn einmitt að hverfa úr þessu lífi, sem sagt að deyja. Það má því til sanns vegar færa aö öll eiginleg við- leitni til að skilja lífið eða veruleik- ann í heild og í ákveðnu kerfi, sé viðleitni til að hverfa úr þessu lífi, komast út úr veruleikanum eða m. ö. o. að læra að deyja. En sann- leikurinn er auðvitað sá að öll slík viðleitni er viðleitni ákveðinnar líf- veru — þeirrar lífveru sem við erum sjálf — og hún er því sprottin af sjón- armiði eða afstöðu innan íífsins sjálfs; og dauðinn sem slíkur er ekki markmiðið, heldur ný tegund af lífi, líf sem felst ekki í öðru en að hugsa og skilja veruleikann, Iíf í hreinum skilningi (þetta er auðvitað það líf sem allir hugsandi menn, heimspek- ingar og fræðimenn þrá innst inni). Oll þessi viöleitni á sér því rætur í manninum sem hverfulli líkamlegri veru sem þráir að þekkja og skilja sjálfan sig og veruleikann og taka þannig þátt í lífinu. Þetta er hin leynda forsenda allrar viðleitni til hlutlægrar, ytri sýnar á lífið og tilver- una. Pað furðulega er að kenningarnar og kerfin sem eru afurðir þessarar viðleitni eru sífellt að afneita þessari meginforsendu sinni; Hin ytri eða hlutlæga sýn virðist nánast undan- tekningalaust leiða til þess að end- ingu að fjallað er um manninn, líf hans og dauða, sem hlekk í einhvers konar keðju lögmála eða reglna sem hann hefur sjálfur lítil eða engin tök á. Maðurinn verður þá ævinlega skoðaður sem einhvers konar vél eða maskína sem unnt er að taka í sundur og setja saman með ákveðnum tæknibrögðum, taka úr sambandi og setja aftur í samband eftir því sem mönnum býður við að horfa. Þetta er sú hugmynd um manninn sem nú- tíma tæknivísindi virðast veita og nái hún fram að ganga í raun, þá blasir við að við förum að tala um lífið og dauðann í allt öðrum skilning en til þessa, ef við yfirleitt höldum áfram að tala um slík fyrirbæri. Nú vill svo til að kenninguna sem áðan virtist ganga í berhögg við þessa hlutlægu tæknilegu sýn á manninn, má auðveldlega laga að þessari sýn. Ef það er vitund mannsins um dauð- ann, þ. e. vitundin um hugsanlega eyðingu veru minnar, sem er rót sjálfsvitundar mannsins og gerir líf hans algerlega einstakt, þá er það einmitt hið tæknilega vald yfir lífinu og dauðanum sem tryggir og styrkir manninn mest, veitir manninum í sjálfsvitund sinni og sálarlífi því sem næst fullkomið öryggi. Petta er ákaf- lega undarlegt, en svona virðist þetta vera engu að síður: Maðurinn sem persónuleg sjálfsvitandi vera telur sér best borgið þegar hann skoðar sjálfan sig sem maskínu sem hann hefur vald yfir. Þeirri blekkingu manna virðast engin takmörk sett að þeir muni að endingu ná algeru valdi á lífinu og dauðanum, að þeir muni að endingu hafa stjórn á veruleikan- um sjálfum. Rætur þessarar blekkingar, þeirrar röngu Iífssýnar og fölsku afstöðu til dauðans, sem af henni leiða, verða ekki ræddar hér. Að hluta til virðist vera um hugsana- eða rökvillur að ræða, að hluta um miklu alvarlegri blindu mannsins á eigin veruleika í heiminum. En vandinn eða kannski réttara sagt valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir eru skýrir: Annað hvort lítum við á sjálf okkur eins og maskínur og afneitum lífinu því að maskínan er dauðinn sjálfur að verki og allt glatar þar með gildi sínu — eða við lítum á sjálf okkur sem andlegar verur sem eru sífellt að skapa og finna tilgang í heiminum og viðurkennum að það líf eitt sem stendur í forundran frammi fyrir eig- in leyndardómi, dauðanum, sé þess virði að því lifað sé Iifað. LÆKNANEMINN - 34. árg. 7

x

Læknaneminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknaneminn
https://timarit.is/publication/1885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.