Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - dec. 2023, Side 11
11
Þótt maður velji sér ekki sjúkdóma
þá getur maður valið sér baráttuefni
Kolbrún Sverrisdóttir er frá Ísafirði þar sem
hún hefur búið alla tíð. Hún er fædd árið 1961
og á þrjú uppkomin börn. Faðir barnanna fórst í
sjóslysi ásamt föður hennar þegar yngsta barnið
var rétt 6 mánaða gamalt. Hún hefur glímt við
lungnasjúkdóm síðastliðin 6 ár, án þess að hafa
fengið viðhlítandi greiningu fyrr en á síðasta ári.
Núna í vetrarbyrjun leit hún inn til okkar og sagði
sögu sína í þeim tilgangi að af henni mætti draga
einhvern lærdóm.
„Ég hef búið ein með börnunum þangað til þau fluttust að
heiman og er í mjög góðu sambandi við þau,“ segir Kolbrún
þegar við hefjum spjallið og fallegt brosið styður vel þá
fullyrðingu. „Þau eru náttúrulega mesti og besti bakhjarlinn
sem ég á, fyrir utan systkini mín og stórfjölskylduna. Ég er
úr stórum systkinahópi, við erum átta talsins, öll alin upp
fyrir vestan og erum samheldinn hópur.“
Talið berst að lungnasjúkdómnum og hvenær hann
hafi farið að gera vart við sig. „Eftir á að hyggja hef
ég verið farin að finna fyrir þessu án þess að gera mér
grein fyrir hvers kyns væri. Ég reykti í þrjátíu ár, frá því
ég var unglingur og þangað til ég var fjörtíu og fimm
ára og eru því að verða átján ár frá því ég hætti. Það
umhugsunarverða er að fyrir um fimm til sex árum fór ég
að fá mjög mikla verki fyrir brjóstið og í bakið. Ef ég fann
lykt af grasi fannst mér ég alveg vera að kafna og var mjög
viðkvæm fyrir alls konar lykt. Ég mæddist mikið, var alltaf
hnerrandi og tók andköf ef ég fann eins og eitthvað skylli á
lungunum.“
Gróðurofnæmi
Læknisheimsóknir Kolbrúnar voru nokkuð reglulegar. „Ég
var fljótt greind með gróðurofnæmi, eða eitthvað annað
sem þeim datt í hug en var aldrei rannsökuð. Það var
ekki nein eftirfylgni, ég fékk bara ráðleggingar um að fá
mér histasín, eða lóritín, eða ég fékk lyfseðla fyrir púst og
ofnæmislyf. Í rauninni lagaði þetta aldrei neitt. Ég fór því
að reyna að skauta meira fram hjá því sem hafði áhrif á
líðan mína.“
Alla sína tíð segist Kolbrún hafa unnið mikið og byrjaði ung
að vinna í rækjuverksmiðju O.N.Olsen sem hún segir að hafi
verið mjög skemmtilegt. Svo vann hún við verslunarstörf
í mörg ár, m.a. í Bónus og í Hamraborg en síðustu sjö
árin vann hún á hjúkrunarheimilinu Eyri. „Mér þótti mjög
gaman að vinna á hjúkrunarheimilinu því að mér finnst
skemmtilegt að umgangast fólk og reyna að hlúa að því
eftir bestu getu. Undir lokin var það hins vegar orðið aðeins
of erfitt fyrir mig. Það eitt að bogra er með því versta sem
lungnasjúklingar gera.“
Fór á varatankinum í vinnuna
„Mig hefur ekki vantað mikið í vinnu í gegnum ævina vegna
veikinda,“ segir þessi netta kona sem kallar greinilega
ekki allt ömmu sína. „Það er því ekki eins og ég hafi
átt einhverja sjúkrasögu þar sem ég hafi alltaf verið að
trufla læknana. Ég leitaði reglulega til þeirra með þetta
vandamál og þeir hefðu alveg getað litið aðeins betur á
mig. Eina afgreiðslan sem ég hef fengið í gegnum árin
varðandi þennan sjúkdóm, áður en ég komst að því hvað
var raunverulega að, var að ég væri með eitthvert ofnæmi,
eða stoðverki, eða hugsanlega komin með kulnun. Ég hélt
náttúrulega bara áfram að vinna því að ég er alin upp við
þau góðu gildi að vinnan göfgi manninn. Ég fór því svona á
varatankinum í vinnuna.“
Eins og einhverju væri hent í mig
Í fyrra fór svo verulega að halla undan fæti þar sem
Kolbrún veiktist illa af COVID. Í kjölfarið tók hún sér tveggja
mánaða frí vegna fjölskylduaðstæðna. „Svo í maí þegar
ég kom aftur til baka í vinnuna, byrjaði ég náttúrulega að
vinna fullan vinnudag á hjúkrunarheimilinu, þar sem ég