Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2023, Side 32
32 | | 5. júlí 2023
Hluthafar Ísfélags Vestmannaeyja
hf. samþykktu sameiningu við
Ramma hf. og breytingu á nafni
félagsins í Ísfélag hf. þann 14.
júní síðastliðinn. Nú er rekstur
félagsins á fjórum stöðum um
landið; í Eyjum, á Þórshöfn, í
Þorlákshöfn og á Siglufirði. „Nýja
nafnið er stutt og laggott en við
munum þó auðvitað tala um
Ísfélagið hér eftir sem hingað til.
Félagið er elsta starfandi hluta-
félag landsins og með vísan til
þess að starfsemin er nú á fjórum
stöðum á landinu þá er nafnið
heppilegt” segir Stefán Friðriks-
son, framkvæmdastjóri félagsins.
„Ætli þeir á Þórshöfn séu ekki
ánægðastir með nafnabreytinguna
enda hefur verið vandræðagangur
að tala um Ísfélag Vestmannaeyja
á Þórshöfn” bætir Stefán við til
gamans.
„Starfsmenn í sameinuðu félagi
þekkja vel þær áskoranir sem
fylgja því að vera með starfsemi
á fleiri en einum stað. Nú standa
menn frammi fyrir því að í stað
tveggja starfsstöðva þá eru þær
fjórar en við erum vel mönnuð á
öllum stöðum og álaginu er vel
dreift. Dreifð starfsemi skapar ef
til vill tækifæri sem við munum
geta nýtt okkur í framtíðinni”
segir Stefán.
Skeifurnar halda sér
„Það er gaman að segja frá því
að á tímabili hét Rammi hf.
Þormóður Rammi - Sæberg hf.
Rammanafnið hverfur þó ekki
vegna þess að það verður okkar
vörumerki fyrir tilteknar gæðavör-
ur eins og til dæmis sjófrystan fisk
af Sólberginu. Ísfélag Vestmanna-
eyja og Rammi eiga sér, eins og
allir vita, langa og merka sögu
í atvinnulífinu og það breytist
ekki þó nöfnin heyri nú sögunni
til. Skeifurnar verða líka áfram á
sínum stað sem merki félagsins og
það gleður bæði hesta og menn”
segir Stefán.
„Í Þorlákshöfn hefur Rammi ver-
ið með fiskvinnslu og útgerð þar
sem starfa um 50 manns. Félagið
hefur dágóðar humarheimildir
en veiðar á humri voru stöðvaðar
2022 og nú er veiðibann í gildi
um óákveðinn tíma. Það verða
einhver ár í að humarveiðar verði
leyfðar aftur og vinnsla geti hafist
á ný” segir Stefán en frystihúsið
í Þorlákshöfn hefur því unnið
bolfisk og kola. Á Siglufirði er
frystitogarinn gerður út og þar er
einnig öflug rækjuverksmiðja sem
vinnur úr rækjuafla Múlabergs og
norsku hráefni.
Loðnuvertíðin sú besta í
manna minnum
„Rekstur félagsins hefur gengið
vel það sem af er ári. Loðnuver-
tíðin í vetur var sú besta í manna
minnum hvað snertir veður og
veiðin var afar góð. Við fengum
stamtals um 64.000 tonna kvóta
og þrátt fyrir að stórum hluta
kvótans hafi ekki verið úthlutað
fyrr en í lok febrúar þá tókst að
veiða hann allan. Allt lagðist á eitt
með okkur og sjómenn og starfs-
menn í landi stóðu sína vakt af
mikilli prýði. Frystitogarinn Sól-
berg hefur fiskað vel og aflabrögð
bolfiskskipanna hafa verið góð. Þá
hafa mjöl- og lýsismarkaðir verið
í hæstu hæðum, en því er hins
vegar ekki að neita að rækjuveiðar
og -vinnsla hafa átt erfitt upp-
dráttar eins og fram hefur komið
í fréttum að undanförnu” segir
Stefán.
Breytingar í flotanum
Til viðbótar við skipin sem gerð
hafa verið út frá Eyjum bætast við
frystitogarinn Sólberg, sem vinnur
að jafnaði úr um 10.000 tonnum
af hráefni á ári, Jón á Hofi sem
gerður er út frá Þorlákshöfn og
Múlaberg sem er gert út á rækju.
Í smíðum er ísfisktogarinn Sig-
urbjörg sem áætlað er að bætist
við flotann í stað eldri skipa fyrir
árslok. Sigurbjörg verður gerð út
frá Þorlákshöfn og er nú í smíðum
við Celiktrans skipasmíðastöð-
ina í Istanbúl í Tyrklandi sem er
sama stöð og smíðaði Sigurð VE
fyrir um 9 árum. Skipið er búið
öllum besta búnaði, hefur 1.795
kílóvatta aðalvél og tekur 180
tonn af fiski í lest.
„Ísfélagið er eitt af þeim félög-
um sem hefur fjöregg þjóðarinnar
í höndum sér. Því fylgir mikil
ábyrgð. Félagið stendur traustum
fótum bæði rekstrar- og eignar-
lega. Sterk félög hafa fleiri og
betri tækifæri til að sækja fram og
auka verðmætasköpunina í grein-
inni en þau sem veikari eru. Hér
eru úrvals starfsmenn og stjórn-
endur, sannarlega valinn maður
í hverju rúmi. Það er því engin
ástæða til annars en að horfa
bjartsýnn fram á veginn” segir
Stefán aðpurður út í framtíðina
hjá nýju Ísfélagi.
Eitt af fjórum stærstu sjávarútvegs-
fyrirtækjum landsins
Sameinað félag með fjórar starfsstöðvar um landið og mun bera
nafnið Ísfélag hf.
SALKA SÓL ÖRVARSDÓTTIR
salka@eyjafrett ir. is
Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags.
Tölvugerð mynd af Sigurbjörgu.