Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2023, Page 38
38 | | 5. júlí 2023
Allir Eyjamenn sem upplifðu
gosnóttina örlagaríku 23. janúar
1973 hafa einstæða sögu að segja.
Frásagnirnar eru áhrifaríkar, bæði
um gosnóttina sjálfa og ekki síst
hvað tók svo við í kjölfarið hjá
okkur Eyjamönnum, finna sér
samastað og fóta sig í tilverunni á
nýjan leik. Ýmsir lentu á hrakhól-
um en aðrir komist til skyldmenna
og vina á fastalandinu eftir að
hafa flúið eldsumbrotin. Í mínum
fyrri störfum í fréttamennsku tók
ég þó nokkur viðtöl þessu tengt.
Gosnóttina 1973 var ég á
sjöunda ári og var vakinn af
foreldrum mínum þar sem við
bjuggum á Geirlandi, Vestmanna-
braut 8, með þeim orðum að ég
ætti að drífa mig á fætur og klæða
mig því það væri komið eldgos og
við ættum að fara niður á bryggju.
Í mínum huga skipti mestu máli
að fá að taka Grámann með mér
sem var kisan mín en hana sá ég
aldrei aftur enda var hún eflaust
fljót að láta sig hverfa í þessum
hamförum. Foreldrar mínir og
systir mín ásamt frænku okkar
sem hafði gist hjá okkur þessa
nótt fórum svo niður á Friðar-
höfn með eina ferðatösku eins og
meginþorri Eyjamanna, þar sem
Eyjaflotinn beið. Ekki lá fyrir um
borð í hvaða bát við færum. Faðir
minn, Gunnar Marel Tryggvason
vélstjóri, var á milli skipa og ekki
búinn að fá pláss fyrir vetrarver-
tíðina. En það kom sér vel fyrir
Sigurð Ólafsson skipstjóra og
útgerðarmann á Ingólfi VE 216.
Hann var ekki byrjaður að róa á
vertíðinni og vantaði því mann-
skap um borð og réði Gunnar
Marel á staðnum. Voru þeir aðeins
tveir í áhöfn í þessari eftirminni-
legu ferð. Fjölskyldan fór að sjálf-
sögðu með. Alls voru 35 manns
um borð samkvæmt heimasíðunni
Allir í bátana þar sem hægt er að
sjá nöfn allra farþeganna.
Sterkust er minningin þegar við
stóðum upp á dekki og fylgd-
umst með eldspúandi eimyrju úr
sprungunni austur á eyju þegar
við fórum fyrir Heimaklett. Þessi
sjón er greipt í barnsminninu. Síð-
an vorum við drifin niður í lúkar
því ösku tók að rigna yfir okkur.
Ærandi hávaði í lestinni
Ingólfur VE 216 var 48 tonna
eikarbátur og þröngt á þingi fyrir
flóttafólkið um borð. Við lágum
þétt í lúkarnum en þónokkrir
þurftu að gista niður í lest. Ekki
fór eins vel um fólkið í lestinni
því nýbúið var að skipta um vél í
Ingólfi VE og setja eðal ameríska
Detroit Diesel vél um borð sem
slakað var niður í lest og svo dreg-
in á sinn stað. Detroit vélin malaði
eins og köttur en hins vegar var
ekki búið að setja upp milliþilið
fyrir vélarrýmið og því var ærandi
hávaði þar sem fólk lá í lestinni
við hliðina á nýju vélinni. Tals-
verður veltingur var því nokkurt
brim var á leiðinni í Þorlákshöfn.
Pottar, pönnur og önnur tiltæk
ílát voru notuð sem æludallar. Ég
minnist þess þegar við hlustuð-
um á ríkisútvarpið. Lýsing Árna
Gunnarssonar fréttamanns á því
sem fyrir augu bar þegar hann
var um borð í flugvél sem flaug
yfir gosstöðvarnar var gríðar-
lega áhrifarík. Tár sást á hvarmi,
myndum við nokkurn tímann
getað snúið aftur?
Ingólfur VE 216 sigldi til
Þorlákshafnar eins og meginþorri
flotans. Vel var tekið á móti okkur
og fóru farþegar þar frá borði en
Gunnar Marel og Sigurður sigldu
svo bátnum áfram til Reykjavíkur.
Við vorum lánsöm og fengum inni
hjá frændfólki okkar í Kópavogi.
Síðar fluttum við í Ölfusborgir og
fengum úthlutað viðlagasjóðshúsi
á Selfossi, í svokallaðri Eyja-
byggð, þar sem vel fór um okkur.
Á Selfossi byrjaði ég að æfa
knattspyrnu en fyrsti þjálfarinn
minn var Bjössi rakari sem margir
þekkja til. Vel var tekið á móti
mér í skólanum á Selfossi og
við Eyjakrakkarnir stóðum þétt
saman.
Hafnarbúðir voru haldreipið
En haldreipið í mínum huga í öllu
þessum hörmungum sem dundu
yfir voru Hafnarbúðir í Reykjavík
þar sem fjölskyldan fór reglulega
til að hitta aðra Eyjamenn og fá
upplýsingar og úrlausn sinna mála
því þar var að mörgu að huga. Því
fylgdi alltaf eftirvænting að koma
í Hafnarbúðir og hitta aðra krakka
og ættingja, fá súpu eða annað
góðmeti og hlusta á samræður
fullorðna fólksins um stöðu mála
í gosinu þar sem ég drakk í mig
hvert orð.
Hálfri öld síðar hef ég haft
tækifæri sem borgarritari Reykja-
víkurborgar að kynna mér betur
aðkomu borgarinnar að móttöku
flóttafólksins frá Eyjum þar sem
taka þurfti á móti fimm þúsund
manns á einu bretti. Í gögnum
borgarinnar er af ýmsu að taka en
borgarráð fundaði strax 23. janúar
1973 og sendi bæjarstjórn Vest-
mannaeyja og Vestmannaeyingum
öllum samúðarkveðjur vegna
þeirra alvarlegu atburða „sem nú
hafa gerzt í Vestmannaeyjum.“
Borgarráð bauð þá Vestmanna-
eyinga, sem til Reykjavíkur komu,
velkomna til borgarinnar, þó undir
óskemmtilegum kringumstæðum
sé eins og það var orðað. Borg-
arráð samþykkti einnig á þessum
fundi að bjóða bæjarstjórn Vest-
mannaeyja aðstöðu í Hafnarbúð-
um sem bækistöð og skrifstofu,
endurgjaldslaust. Hafnarbúðir
urðu aðal samkomustaður og
upplýsingamiðstöð Vestmanna-
eyinga í gosinu. Farsælt og gott
samstarf var á milli bæjarstjórnar
og borgaryfirvalda á gostímanum.
Alls tók Reykjavíkurborg á móti
hátt í fimm hundruð skólabörnum
á einu bretti inn í skólakerfi borg-
arinnar og var það áskorun eins og
nærri má geta.
Borgarráð bauð Vestmannaeyja-
bæ að verða heiðursgestur Menn-
ingarnætur í Reykjavík í ágúst
2023 í tilefni af 50 ára goslokaaf-
mæli og langvarandi vinatengsl-
um bæjarfélaganna. Var það vel
til fundið og tilhlökkunarefni.
Þorsteinn
Gunnarsson
Höfundur er borgar
ritari og fyrrum blaða
maður á Eyjafréttum
Eldspúandi eimyrja greipt
í barnsminnið
Þorsteinn ásamt æskuvinkonu
sinni Fríðu Egilsdóttur við Geirland.
Myndin er tekin ári fyrir eldgos eða
1972. Á bak við þau er heimur sem
hvarf undir hraun. Úr einkasafni.
Hafnarbúðir voru félags- og upplýsingamiðstöð fyrir Vestmannaeyinga í eldgosinu. Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.