Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 03.08.2023, Blaðsíða 22

Fréttir - Eyjafréttir - 03.08.2023, Blaðsíða 22
22 | | 3. ágúst 2023 Jarl Sigurgeirsson hefur verið félagi í Karlakór Vestmannaeyja frá upphafi. Hann hefur fengið að stýra nokkrum verkefnum og er í stjórn kórsins þessa stundina. Síðan hann var 13 ára hefur hann einungis misst af tveimur Þjóðhá- tíðum, „Eitt skiptið var ég á sjó í Norðursjónum á dönskum trollara og annað skiptið var ég í bústað í Skorradal, þar sem rigndi látlaust allan tímann. Ég sór þess þá eið að láta slíkt aldrei henda aftur og hef staðið við það.“ Karlakór Vestmannaeyja tekur þátt í Þjóðhátíðarlaginu í ár, líkt og Kvennakór Vestmannaeyja. Þjóðhátíðin leggst vel í Jarl og er hann ásamt Karlakórnum spenntur fyrir komandi hátíð. Hvernig byrjaði karlakór Vest- mannaeyja? „Við höfðum lengi verið að ræða um að gaman væri að stofna karlakór í Vestmanna- eyjum. Það varð aldrei meira en hugmynd og við sáum ekki alveg hvernig við gætum fengið karla almennt til að stíga það skref að mæta á kóræfingu. Það var svo árið 2015 í apríl held ég, að við sáum spjall í gangi á fésbókinni þar sem Ágúst Halldórsson setti fram þá staðreynd að karlmenn í Vestmannaeyjum væru engu minni karlmenn en íslenskir karlmenn og gætu fullvel sungið í karlakór, rétt eins og aðrir og líklega mun betur. Það var vel tekið undir þessa umræðu hjá Ágústi og þannig rúllaði boltinn af stað. Við geng- um svo frá samningi við Þórhall Barðason um að hjálpa okkur að rúlla þessum bolta af stað. Hann tók að sér stjórn kórsins og gekk alveg bráðvel. Um 60 manns mættu á fyrstu æfingarnar og var ótrúlegt hvernig menn sem aldrei höfðu sungið í kór, eða bara sung- ið nokkuð yfirleitt, lögðu á sig að æfa sig í sönglistinni. Kórinn hefur síðan þá þróast. Við erum ekki lengur nýstofnaðir og margir hafa helst úr lestinni, en eftir standa öflugir söngmenn, sem margir kynntust sönglistinni fyrst í kórnum, ásamt því að alltaf detta inn nýir og nýir félagar. Ég gæti trúað að í dag séu um 30 manns sem upplifa sig sem meðlimi í kórnum og gætu mætt á næstu æfingu. Við eigum samt við að stríða það sama og önnur félagasamtök, og það er baráttan um mínúturnar. Tíminn er líklega það dýrmætasta sem hver maður á og tími nýttur til eins er ekki nýttur til annars á meðan.“ Þjóðhátíð hápunktur hvers árs Hvernig gengur undirbúningur- inn? „Undirbúningur fyrir Þjóð- hátíðina er svo sem ekki mikill. Við sungum með í upptökum á Þjóðhátíðarlaginu ásamt kvenna- kórnum. Það var ekki mjög flókið, þannig að við þurfum líklega bara að hittast einu sinni og renna því yfir áður en við förum á sviðið í Dalnum. Ég býst við að við karlarnir verðum kannski um 20 og stelpurnar í Kvennakórnum líklega svipaður fjöldi, eða fleiri.“ Hvernig er upplifunin að fá að taka þátt í Þjóðhátíðarlaginu? „Það er fyrir það fyrsta mikill heiður að hafa verið kallaðir til þessa verkefnis. Það var frábært að fá að taka þátt í endanlegri útkomu lagsins, ásamt kvenna- kórnum. Það var virkilega vel til fundið hjá Gauta að setja okkur með í það. Það gerði gott fyrir lagið að fá kórana inn, en gerði líka mjög gott fyrir kórana að fá að vera með í slíku verkefni. Að standa síðan á stóra sviðinu í Herjólfsdal og frumflytja þjóðhá- tíðarlagið er síðan tilfinning sem er engu lík. Ég hef sjálfur upplifað það árið 2012 og sú tilfinning gleymist aldrei. Karlakórinn hefur síðan staðið á sviðinu í Herj- ólfsdal og tekið þátt í kvölddag- skránni. Það er viðburður sem oft er ræddur hjá liðsmönnum kórsins sem einn af hápunktum lífsins. Það sem er öðruvísi í ár er líklega tvennt. Í fyrsta lagi þá erum við bara að fara að syngja eitt lag, þannig að við þurfum ekki stífar æfingar fyrir Þjóðhátíð og í öðru lagi, erum við að fara að frumflytja Þjóðhátíðarlagið sjálft sem er alveg frábær tilfinning.“ Hvernig er stemmningin fyrir Þjóðhátíðinni? „Stemningin fyrir þjóðhátíðinni er góð. Það er mikil tilhlökkun bæði fyrir hátíðinni og einnig okkar þætti í hátíðinni. Hvað mig varðar þá er ég alltaf spenntur fyrir þjóðhátíð. Helgin er reyndar orðin að miklu leyti vinnuhelgi, þar sem ég er með í nokkrum tónlistarhópum sem koma fram hér og þar á hátíðinni. Það hefur breytt talsvert upplifun minni af þjóðhátíð, en sú breyting hefur bara verið til hins betra. Fyrir mér er þjóðhátíð hápunktur hvers árs. Ég elska allar hliðar þjóðhátíðar og það er enginn stað- ur í veröldinni sem ég tæki fram yfir Herjólfsdal á Þjóðhátíð.“ Eitthvað að lokum? Ég hvet alla sem nokkurn minnsta áhuga hafa á söng að láta eftir sér að mæta á æfingar hjá þeim kórum sem starf- andi eru hér í Eyjum. Við erum með Karlakórinn, Kvennakórinn og Kór Landakirkju. Allt saman frábærir metnaðarfullir kórar með frábærum félagsskap. Það líffræðileg og efnafræðileg staðreynd að við iðkun söngs, þá framleiðir líkaminn efni sem valda vellíðan og hafa góð áhrif á andlega og þá um leið líkamlega heilsu fólks. Það er flókið mál að útskýra það nánar, en einfalt mál að upplifa. Það er bara að mæta á æfingu hjá viðkomandi kór. Ég get 100% lofað að öllum nýjum félögum er tekið fagnandi og ég get líka 100% lofað að enginn sér eftir því að hafa látið eftir sér að prófa.“ Karlmenn í Eyjum geta líka sungið DÍANA ÓLAFSDÓTTIR diana@eyjafrett ir. is Karlakór Vestmannaeyja tekur lagið í Klettshelli sem var liður í kynningarátaki fyrir Ferðamálasamtök Vestmannaeyja

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.