Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 4

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 4
4 | Sjómannablaðið Víkingur 1 Nafn, hvenær fæddur og hvar? Kristgeir Arnar Ólafsson, fæddur 15 nóvember 1966 í Reykjavík. Maki: Erna Pálmey Einarsdóttir. Börn: Einar Kristinn Kristgeirsson og Arnar Ingi Kristgeirsson. Hversu gamall varstu þegar þú byrjaðir á sjó og hve gamall varstu þegar þú fórst í Stýrimannaskólann? Ég byrjaði á sjó daginn eftir fermingu, þá á Gullfaxa SH 125 en faðir minn, Kristinn Arnberg, var eigandi og skipstjóri Gullfaxa. Hann var búinn að lofa mér að ráða mig til sjós um sumarið eftir fermingu og stóð við það. Ég var 24 ára þegar ég fór í Stýrimannaskólann. Hvaða ár laukstu skipstjórnarprófi? Fiskimanninn árið 1993 og tók svo farmanninn 2012. Á hvaða skipum hefur þú verið og hvert þeirra er eftirminnilegast? Gullfaxa SH, Geirfugli GK, Fjölni GK, Hrungni GK, Sighvati GK, Kópi GK, Eldhamri GK, Tjaldi ll SH, Tjaldi SH, Valdimar GK og Kap ll VE. Tímabilið 1994-1997 var ég á Tjaldi ll SH og það tímabil er eftirminnilegast. Við vorum að veiða grálúðu á línu og áhöfnin var frábær. Við náðum svo vel saman og mórallinn var eins og hann gerist bestur, skipstjórinn Bjarni Kjartansson var alveg einstakur og á ég honum margt að þakka. Hvernig myndir þú lýsa skipinu sem þú ert á núna og hvað heitir það? Kap VE 4 er skip sem var smíðað 1967 og er 57 ára í dag. Eins og árin segja til um þá er þetta gamalt skip sem hefði átt að fara í pottinn fyrir 25 árum síðan en hann hentar vel á netaveiðum og útgerðin er dugleg að halda skipinu vel við. Svo er nú í bígerð að smíða nýtt skip. Eftirminnilegasti skipstjóri sem þú hefur siglt með? Án efa er Það Bjarni Kjartansson. Hver er skemmtilegasti maður sem þú hefur verið með á sjó? Þeir eru nú margir skemmtilegir sem maður hefur róið með en sá sem kemur fyrst upp er kallaður Halli bongó og býr á Hellissandi. Hann var með þann eiginleika að láta þriggja vikna veiðiferð líða eins og viku á Tjaldi SH. Hver er besti sjómaður sem þú hefur haft í þinni áhöfn? Þetta er frekar erfið spurning vegna þess að þeir eru margir góðir. Hver er uppáhalds fiskurinn minn að; -a- borða? Lax. -b- veiða? Þorskur. Hvernig finnst þér best að matreiða fisk? Ofnbakaðan eða steiktan. Hver er furðulegasti fiskur sem þú hefur veitt? Steinsuga. Uppáhalds mið og af hverju? Í janúar og febrúar, þá myndi ég segja Breiðafjörður vegna þess að á þeim tíma er þar yfirleitt góð veiði og mikið skjól fyrir sunnan áttum sem eru oft ríkjandi á þessum tíma. En svo í mars, apríl og maí þá eru það miðin í kringum Vestmannaeyjar. Versta veðrið sem þú hefur lent í á sjó? Ég held að það hafi verið árið 1998, frekar en 1997. Þetta var í mars. Ég var þá skipstjóri á Tjaldi SH. Við vorum að kanna hvort það væri grálúða út á Reykjaneshrygg fyrir utan 200 sjm landhelgislínuna. Við vorum búnir að vera þarna í þrjá daga þegar það spáir stormi en það var nú aðeins meira en það. Vindmælirinn um borð sýndi 98 hnúta sem er 17 vindstig og ég tel að ölduhæðin hafi verið um 20 metrar þegar verst var. Þarna var með okkur stór frystitogari að halda sjó og héldu þeir að þetta væri þeirra síðasti dagur. Þetta var viðbjóður sem ég lofaði sjálfum mér að koma mér aldrei aftur í og hef ég staðið við það. Kristgeir Arnar Ólafsson KALLINN Í BRÚNNI Hjónakornin Kristgeir Arnar og Erna Pálmey Einarsdóttir í góðum gír á Kýpur. Kap ll VE 7 sem heitir nú Kap VE 4. Mynd: Shipspotting–Iceland.com

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.